138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og skattanefndar þingsins um þetta mál. Nefndarálitið og breytingartillögur er að finna á þskj. 868 og að því standa allir hv. þingmenn, þó tveir með fyrirvara, í efnahags- og skattanefnd. Það eru auk mín hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Magnús Orri Schram, Tryggvi Þór Herbertsson, Pétur H. Blöndal, Lilja Mósesdóttir, Ögmundur Jónasson, Birkir Jón Jónsson og Þór Saari.

Frumvarpið lýtur að því að tryggja skattrannsóknaryfirvöldum heimildir til þess að kyrrsetja eignir ef grunur leikur á að um skattundanskot hafi verið að ræða hjá viðkomandi framteljanda. Þessar heimildir eru mikilvægar til að tryggja að þeir sem kunna að hafa brotið eða eru grunaðir um að hafa brotið gegn ákvæðum skattalaga og svikið undan skatti séu ekki í færum til þess að koma eignunum undan þegar þeir verða þess áskynja að þeir sæta rannsókn. Þetta er auðvitað enn brýnna nú en áður hefur verið. Þó að það hafi út af fyrir sig alltaf verið brýnt að þetta úrræði væri í höndum skattrannsóknaryfirvalda er það auðvitað gríðarlega brýnt núna í kjölfar hrunsins, sérstaklega þegar við höfum verið upplýst um þær athuganir og greiningar sem skattrannsóknarstjóri hefur látið fram fara á hinum föllnu bönkum, en þær gefa eindregið til kynna að umtalsvert hafi á skort að þar hafi skattskil verið með fullnægjandi hætti.

Nefndin fékk ýmsa aðila til umsagnar og sem gesti fyrir nefndina. Þetta er í annað sinn sem málið kemur fyrir og umfjöllunin laut fyrst og fremst að umræðum um meðalhóf. Ég hygg að sá fyrirvari sem tilteknir nefndarmenn höfðu við afgreiðslu málsins eins og hún er hafi fyrst og fremst lotið að því. Þar töldu menn eðlilegt að þessari heimild, sem er auðvitað alvarleg aðgerð, væri ekki beitt í smærri málum og í nefndaráliti er getið um að henni eigi ekki að beita þegar um er að ræða fjárhæðir undir 5 millj. kr. Ég hygg að það geti hafa verið önnur sjónarmið uppi hvað væru smærri fjárhæðir hjá einstaka nefndarmönnum en að menn hafi almennt verið sammála um það grundvallarsjónarmið að það eigi ekki að beita þessu úrræði nema þegar talsverðar fjárhæðir eru annars vegar.

Hins vegar laut umræðan að réttarstöðu þeirra sem fyrir þessu verða og í því skyni er af hálfu nefndarinnar sett inn kæruheimild þannig að þeir sem fyrir þessu verða geti nýtt sér hana ef þeir telja á sig hallað og þurfi á slíkri áfrýjun að halda. Að öðru leyti er ekki um stórar efnisbreytingar að ræða en nefndin er almennt sammála um að það er mjög mikilvægt að löggjafinn fái skattrannsóknaryfirvöldum þessi úrræði í hendur til þess að tryggja eins og best er hægt að heimtur fáist upp í skatta sem menn hafa reynt að skjóta undan. Það er ekki bara mikilvægt gagnvart því sem gerst hefur í fortíðinni, það hefur líka auðvitað forvarnagildi gagnvart því sem gerist í framtíðinni því að öll þau ráð sem við getum haft til þess að draga úr ágóða manna af brotastarfsemi, hvort sem það er í skattamálum eða öðrum málum, er auðvitað til þess fallin að draga úr viðleitni manna til þess að brjóta af sér.

Að lokum legg ég til, virðulegur forseti, að frumvarpið verði samþykkt með framlögðum breytingum.