138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[15:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er til umræðu við 2. umr. frumvarp til laga um kyrrsetningu eigna sem við höfum haft til meðhöndlunar í efnahags- og skattanefnd á síðustu vikum. Í upphafi málsins vil ég taka það fram að ég styð heils hugar það frumvarp sem við ræðum hér og ætla að færa fyrir því nokkur rök.

Vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals hér áðan um þá hættu sem hann telur að geti verið falin í því að skatturinn muni koma fram með mjög óbilgjörnum hætti gagnvart aðilum í samfélaginu vil ég taka það fram að við höfum átt mjög miklar samræður í nefndinni við skattrannsóknarstjóra og fulltrúa þeirra, tollsins líka. Þar hafa menn komið fram með þau sjónarmið um að þessum heimildum, ef frumvarpið verður samþykkt, verði beitt með mjög varfærnum hætti. Ég treysti orðum þess ágæta fólks sem þar vinnur og reynir að tryggja hagsmuni ríkissjóðs, íslensks samfélags á mjög erfiðum tímum, eins og við þekkjum öll.

Ég vil líka segja að mér hefur misboðið að heyra fréttir síðustu vikur og mánuði af því að ýmsir aðilar hafi reynt að koma fjármunum undan, jafnvel úr landi, sem þeir ættu með réttu að greiða til ríkissjóðs. Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal að við þurfum að byggja upp traust í þessu samfélagi því að fréttaflutningur sem þessi grefur undan trausti. Þess vegna er ég mjög ánægður með að við hér á Alþingi skulum stíga það skref núna að reyna að stuðla að úrræðum eða verkfærum til handa skattinum til þess að kyrrsetja eignir í stóru málunum, í þeim málum þar sem rökstuddur grunur — og við gerðum breytingartillögu um það í nefndinni að í staðinn fyrir orðið „grunur“ komi „rökstuddur grunur“ — er fyrir hendi. Það á t.d. við þau gríðarlega miklu skattsvik sem við höfum heyrt um í fréttum undanfarnar vikur og mánuði. Við teljum að nauðsynlegt sé að veita skattinum þessar heimildir.

Þegar við tölum um traust þarf Alþingi líka að líta í eigin barm. Það eru ljótar tölur sem koma út úr könnunum þegar viðhorf almennings er mælt til Alþingis Íslendinga en einungis 13% Íslendinga treysta Alþingi. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi komi til móts við þær kröfur sem uppi eru í samfélaginu hverju sinni, þá kannski sérstaklega í þessu máli fyrst við erum að ræða það, að við veitum skattinum tól og tæki til þess að tryggja hagsmuni almennings. Eignir ríkissjóðs eru náttúrlega sameign þjóðarinnar og við eigum að standa vörð um ríkissjóð sem stendur höllum fæti um þessar mundir.

Ég rifjaði það hér upp í fyrradag þegar við ræddum um stöðu ríkissjóðs þegar borinn var saman rekstur ríkissjóðs í janúar á þessu ári og á því síðasta, að útgjöld ríkissjóðs hafa aukist um ein 10% en tekjur ríkissjóðs höfðu lækkað um 16,1%. Gjöld ríkissjóðs í janúar 2010 voru 73% hærri en tekjurnar. Þetta sýnir nú hvers lags vanda við er að etja og þess vegna þurfum við hér á vettvangi þingsins að grípa til allra mögulegu lausna og leiða til þess að verja hagsmuni ríkissjóðs.

Ég minntist á það líka um daginn, vegna þess hversu umfangsmikil mál er varða skattinn eru núna, hver aðstaða skattrannsóknarstjóra og skattsins almennt er til þess að rannsaka þessi umfangsmiklu mál. Hæstv. fjármálaráðherra kom þá hér og sagðist telja að skattinum væri búin ágætisaðstaða. En nokkrum dögum síðar voru lagðar fram af hálfu ríkisstjórnarinnar áætlanir um að efla skattinn enn frekar í ljósi nýrra upplýsinga um að gríðarleg undanskot hefðu átt sér stað er varðar aðila sem hefðu með réttu átt að greiða skatt í ríkissjóð. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á það í umræðum um þessi mál í ljósi þess hversu einstakur sá vandi er sem við horfumst í augu við að heimildir skattsins og aðstæður skattyfirvalda, þá með tilliti til mannaforráða og sérþekkingar, séu fullnægjandi, vegna þess að við erum að tala hér um gríðarlega háar upphæðir. Ef marka má þær fréttir sem við heyrum á degi hverjum eru það ekki milljónir eða tugir milljóna sem hér er um að ræða varða hagsmuni ríkissjóðs, heldur milljarða eða milljarðatugi. Það skiptir náttúrlega máli að við stöndum vörð um þessar eignir og þessar skattkröfur ríkisins því að annars, ef fram fer sem horfir, ef marka má orð yfirmanna hjá skattinum, er hætt við því að enn meiri undanskot eigi sér stað.

Eins og ég rakti hér áðan höfum við einfaldlega ekki efni á því að horfa upp á þessa þróun í samfélaginu, hvorki efnahagslega né siðferðislega. Það hefur orðið siðrof á Íslandi og okkur hefur ofboðið að fylgjast með fréttaflutningi um það hvernig vissir aðilar hafa farið með sína fjármuni, fjármuni sem ella hefðu átt að skila sér í ríkissjóð en eru ekki lengur fyrir hendi. Þeir eru komnir eitthvert til útlanda á einhverjar Tortólaeyjar eða — ég þekki nú ekki allar þessa skattaparadísir. Þess vegna er mikilvægt að við samþykkjum frumvarpið sem við ræðum hér og helst eins fljótt og hægt er, vonandi í dag.

Ég er á þessu máli án fyrirvara og það segi ég vegna þess að vinnan í nefndinni hefur verið nákvæm, við höfum gefið okkur góðan tíma til þess að fara yfir þetta stóra mál. Ég treysti þeim aðilum sem eiga að framfylgja þessu lagafrumvarpi hér mjög vel. Ég hef þá sannfæringu eftir að hafa átt samræður við gesti sem komu frá tollstjóra og skattrannsóknarembættinu að farið verði vel með þessar heimildir, að ekki verði ráðist að smáum fyrirtækjum. Minn skilningur er sá að hér sé átt við stærri mál og í þeim anda samþykki ég þetta frumvarp. Komi eitthvað annað á daginn er ljóst að efnahags- og skattanefnd Alþingis þarf að taka þessi mál fyrir aftur en ég hef enga ástæðu til þess að ætla að svo verði.

Aðrar breytingar sem við höfum gert hér eru þær að við höfum komið til móts við álit Persónuverndar. Við höfum einnig komið til móts við þær ábendingar sem Samtök atvinnulífsins og aðilar á vinnumarkaði hafa beint til okkar er snýr að áfrýjunarrétti, að hægt sé að skjóta þessum málum á annað stjórnsýslustig. Hér er lagt til að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar þannig að hér hefur verið komið til móts við mjög mörg sjónarmið sem komið hafa fram bæði í skriflegum og munnlegum umsögnum um þetta mál.

Ég vil lýsa ánægju minni með að það er breið samstaða um þetta mikilvæga mál hér. Við þurfum að byggja upp traust í íslensku samfélagi. Það gerum við með því að standa saman að frumvarpi sem þessu, ekki í neinum deilum eða illindum, og það er tími til kominn að Alþingi Íslendinga fari að sýna á sér þá hlið að við getum staðið saman um mikilvæg mál. En til þess að svo geti orðið þurfum við að vinna svona stórmál eins og gert var í þessu tilviki, með lýðræðislegum vinnubrögðum innan nefndarinnar undir forustu formannsins, hv. þm. Helga Hjörvars, þar sem öll sjónarmið voru vegin og metin. Í raun og veru skiptist nefndin ekki í neinn meiri hluta eða minni hluta í þessu máli. Við fórum einfaldlega mjög vandlega yfir þetta mál. Ég tel að sú vinna sem að baki er í nefndinni muni leiða til þess að hagsmunum ríkissjóðs og hagsmunum Íslendinga verði betur borgið vegna þess að ef skattkröfur og eignir sem ríkið á fara úr landi og renna því ekki í ríkissjóð blasir við okkur sú alvarlega staðreynd að staða ríkissjóðs getur orðið þannig að við munum ekki geta haldið uppi því samfélagi sem við höfum búið í á undangengnum áratugum.

Sú nöturlega staðreynd að á þessu ári skuli ein króna af hverjum fimm sem kemur inn í ríkissjóð fara til þess að greiða vexti segir okkur að vandinn er mikill. Við framsóknarmenn lögðum fram tillögur í gær um þjóðarsátt til þess að reyna að stuðla að því að við getum öll komið að því að mæta þeim miklu og gríðarlega stóru vandamálum sem blasa við íslenskri þjóð í dag. Ég held að þróun mála síðasta eina og hálfa árið eða svo hafi sýnt okkur að einfaldur naumur meiri hluti í stjórn landsins þegar kemur að því að gera fjárlög eða að fara í viðamiklar aðgerðir á sviði efnahagsmála dugar einfaldlega ekki til. Nú þarf samstöðu og samvinnu og það var í þeim anda sem við í Framsóknarflokknum lögðum fram tillögur sem við erum til viðræðu um og eru ekki helgur stafur á bók. Það þarf ákveðna málamiðlun þegar kemur að samningagerð á milli stjórnmálaflokka og að sjálfsögðu fær enginn einn stjórnmálaflokkur allt sitt fram. En þetta er viðleitni til þess að ná fram meira samstarfi hér á þingi og eins og ég sagði hér áðan veitir ekkert af því að byggja upp traust. Traust almennings á þinginu í dag samkvæmt könnunum er 13%, það er óviðunandi fyrir hvaða þjóðþing sem er í heiminum. Það þurfa allir, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að líta í eigin barm í þeim efnum.

Þetta frumvarp er þó nokkuð stórt skref í rétta átt og þess vegna er ég á þessu nefndaráliti án fyrirvara í ljósi þess að ég treysti skattyfirvöldum að nýta þær heimildir sem þeim eru færðar í hendur, af hógværð og af sanngirni. Ef annað kemur upp og ef eitthvað kemur fram af því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi sem hugsanlega möguleika tel ég að efnahags- og skattanefnd þurfi að skoða þau mál vel ef við heyrum af einhverjum slíkum gjörðum. En eins og sakir standa tel ég enga ástæðu til þess að halda að svo verði og lýsi yfir stuðningi við þetta frumvarp. Vonandi mun það leiða til þess að staða ríkissjóðs verði þá snöggtum betri en hún er í dag og að við tryggjum þær eignir sem Íslendingar eiga, með þeim hætti að í einhverjum tilvikum þurfi að kyrrsetja eignir til þess að tryggja að þeim verði ekki skotið undan. Við framsóknarmenn styðjum því þetta frumvarp af fullum þunga og vonandi verður það gert að lögum hið allra fyrsta.