138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni hér áðan þegar hann fór að ræða um traustið og skort á trausti í íslensku samfélagi. Ég ræddi um það 13% traust sem samfélagið ber til starfa hér á Alþingi og telur að það þyrfti að byggja upp. Um leið og ég vil að fólk treysti mér ætla ég að leyfa mér líka þann munað að treysta þeim mikilvægu eftirlitsstofnunum ríkisins því að ef það ríkir ekki traust af hálfu Alþingis og löggjafarvaldsins til þessara stofnana er illa fyrir okkur komið. Eftir að hafa átt að hafa átt mjög miklar samræður við forsvarsmenn þessara stofnana held ég að lögunum verði beitt með hófsömum hætti.

Hv. þingmaður nefndi líka að ræða mín hefði verið dálítið efnismikil og ég hefði farið um víðan völl, sem er alveg rétt, en þetta mál er hluti af miklu stærra samhengi. Það hafa ótrúlegir atburðir átt sér stað í íslensku samfélagi á undangengnum mánuðum, fordæmalausir atburðir. Hér erum við að reyna að tryggja hagsmuni ríkissjóðs gagnvart mögulega aðilum sem áttu þátt í því hvernig er komið fyrir okkur í dag. Réttlætiskennd minni finnst a.m.k. að þessir aðilar eigi ekki síður en hinn venjulegi launamaður á Íslandi að greiða sína skatta og standa við sínar skuldbindingar. Við höfum vísbendingar um að menn hafi með skipulögðum hætti reynt að koma fjármunum undan til útlanda til þess að greiða ekki skatt hér á landi. Hafi einhvern tíma verið þörf á því að láta aðila sem þessa greiða skuldbindingar sínar er það nú og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það.