138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt þetta með traustið, það er bara að vænta þess að það sé traust og þá geta menn farið að einfalda lögin ansi mikið og allt lagasafnið líka ef við bara segðum: Við treystum embættismönnum og stjórnsýslunni til að vinna heiðarlega og mildilega gagnvart almenningi. En það er nú einu sinni þannig að maðurinn er breyskur og menn breytast í starfi. Svo koma nýir menn inn sem eru kannski ekki eins siðavandir og það er misjafn sauður í mörgu fé, hann þarf ekki að vera nema einn til þess að valda miklu tjóni. Þess vegna held ég að við þurfum að passa okkur sem löggjafi að setja girðingar við því.

Þessi lög eru ekki tímabundin. Menn geta ekki reiknað með því að þau verði horfin eftir tíu ár eða fimmtíu ár eða eitthvað slíkt. Þau verða áfram, varanlega, og það má vel vera að einhvern tíma í framtíðinni komi einhver óprúttinn embættismaður — ég er ekki að segja að það verði í dag, alls ekki — og tali við einhvern mann sem hann á í deilum við, t.d. mann með dekkjaverkstæði eða eitthvað svoleiðis. Dekkjaverkstæðismaðurinn vill færa ákveðinn kostnað, segjum bara gúmmígjald eða eitthvert gúmmí inn á kostnaðinn hjá fyrirtækinu og hinn segir nei og þarna er deila. Þá segir embættismaðurinn: Ja, þú veist nú að ég get kyrrsett eignirnar þínar ef í hart fer, ef þetta fer í rannsókn, og þá ertu búinn að vera. Hinn veit það líka að hann er búinn að vera með sitt hlutafélag. Ef hlaupareikningurinn er kyrrsettur getur hann náttúrlega hvorki greitt fyrir vörur né laun. Hann bara lokar samstundis, fyrir utan það að bankinn fellir á hann allar skuldir.

Þetta er því mikið verkfæri sem við erum að afhendum hér, mjög beitt sverð, og ég vil gjarnan að það sé nýtt á þá risaaðila sem við lesum um, en við þurfum dálítið að passa okkur varðandi heimildirnar fyrir embættismenn gagnvart borgurunum.