138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög knöpp dagskrá hvað þetta mál varðar því að mér skilst að menn ætli sér að láta það verða að lögum í dag. Ég vil nú ekki standa í vegi fyrir því af þessari ástæðu.

Ég held að keðjuverkun sé nú frekar fjarlægur möguleiki, en hann gæti vel komið upp. Ég minni á að upphaf hrunsins á Íslandi var einmitt keðjuverkun. Auðvitað var atvinnulífið hérna mjög uppblásið og viðkvæmt fyrir áföllum, það mátti eiginlega ekkert koma við það, þá hrundi það, það var innantómt. En ég minni á að það voru Lehman Brothers sem féllu í Bandaríkjunum 15. september 2008 og í kjölfarið fór Glitnir í vandræði, því að Lehman Brothers höfðu tryggt honum lánalínu til að tryggja lausafé Glitnis. Það var upphafið að allri þessari atburðarás sem við urðum vitni að og endaði svo með því að Bretar beittu hryðjuverkalögum sem olli því að bankakerfið á Íslandi hrundi. Þetta voru því keðjuverkanir. Við þurfum virkilega að fara að skoða miklu betur áhrif keðjuverkunar því að algjörlega saklaust fyrirtæki sem er með allt sitt í góðu standi, með góða stjórn og rekstur og allt slíkt, borgar sína skatta og skyldur með sóma, getur lent í miklum vandræðum og orðið gjaldþrota í kjölfar þess að einhver annar aðili lendir í kyrrsetningu með réttu eða röngu. Þannig getur þetta bitnað á atvinnulífinu í heild sinni og valdið jafnvel atvinnuleysi.