138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 um breytingu á X. og XI. viðauka við EES-samningi.

396. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, um breytingu á X. viðauka, svokölluðum hljóð- og myndmiðlun og XI. viðauka, um fjarskiptaþjónustu við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið til sín fulltrúa, bæði úr utanríkisráðuneytinu og frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til að ræða efnislega um þessa tillögu. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 9. júní 2009, um breytingu á X. viðauka og XI. viðauka við EES-samninginn, og einnig til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2006/123/EB frá 12. desember 2006, um þjónustu á innri markaðnum, svokallaða þjónustutilskipun.

Það er kannski rétt að geta þess að það sem helst hefur vakið umræðu í tengslum við þessar breytingar eða þessar heimildir, er hin svokallaða þjónustutilskipun.

Tilskipun Evrópuþingsins frá 2006, 12. desember 2006, sem kölluð hefur verið þjónustutilskipunin, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 9. júní 2009. Tillaga að þjónustutilskipun var fyrst lögð fram á vettvangi Evrópusambandsins í janúar 2004. Markmiðið var að greiða fyrir og auka þjónustuviðskipti milli landa, en þrátt fyrir ákvæði um innri markað voru töluverðar hindranir á frjálsu flæði þjónustu enn til staðar sem komu niður á bæði þjónustuveitendum og neytendum. Tillagan fékk mikla athygli og var pólitískt afar umdeild, svo ekki sé meira sagt, sér í lagi vegna ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt sem voru upphaflega inni í þessari svokölluðu þjónustutilskipun. Hin svonefnda upprunalandsregla var einnig afar umdeild þar sem óttast var að hún fæli í sér félagsleg undirboð, en samkvæmt henni giltu um þjónustuveitanda reglur þess lands þar sem hann var með staðfestu en ekki þar sem þjónustan var veitt.

Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem tillagan hlaut lagði framkvæmdastjórnin fram nýja tillögu þar sem tekin voru út ákvæði um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og verulegar breytingar gerðar á upprunalandsreglunni. Sú tillaga var síðan samþykkt í desember 2006. Þessi tilskipunin fékk einnig talsverða athygli í Noregi þegar hún var þar til umfjöllunar vegna aðildar Noregs að Evrópska efnahagssvæðinu og Norðmenn gerðu m.a. ítarlegar úttektir á hinum ýmsu afleiðingum tilskipunarinnar. Að lokum náðist þó samstaða um hana þar og hún tekin upp í EES-samninginn eins og áður segir 9. júní 2009.

Þegar málið var til umfjöllunar hér í ríkisstjórn var samþykkt sérstök yfirlýsing í ríkisstjórninni vegna þjónustutilskipunarinnar, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við upptöku þjónustutilskipunarinnar (2006/123/EB) í EES-samninginn er minnt á af hálfu Íslands að tilskipunin hefur m.a. ekki áhrif á ráðningarskilmála og -skilyrði, samskipti milli aðila vinnumarkaðarins, réttinn til þess að semja um og ganga frá kjarasamningum og grundvallarréttindi, svo sem verkfallsréttinn og réttinn til að grípa til aðgerða á vinnustað. Þjónustutilskipunin hefur ekki áhrif á vinnulöggjöf eða þríhliða samvinnu verkalýðsfélaga, vinnuveitenda og stjórnvalda. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að hin víðtæka samstaða meðal Íslendinga um að gera áætlanir um aðgerðir, svo og viðeigandi ráðstafanir, sem miða að því að standa vörð um réttindi innlendra og útlendra starfsmanna og góðan aðbúnað á vinnustöðum, stríði ekki gegn þjónustutilskipuninni. Þær ráðstafanir geta m.a. náð yfir skilvirkt kerfi um almenna beitingu kjarasamninga og innleiðingu sameiginlegrar ábyrgðar verktaka og undirverktaka til þess að tryggja að réttindi vinnandi fólks séu virt. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að það verði áfram á valdsviði innlendra yfirvalda — á öllum stigum stjórnsýslunnar, ríkisvalds og sveitarstjórna — að ákvarða í hvaða mæli hið opinbera skuli veita þjónustu, hvernig hún skuli skipulögð og fjármögnuð og hvaða sérstöku kvaðir skuli gilda um slíka opinbera þjónustu.“

Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2009 er forsenda þess að íslensk stjórnvöld fallast á innleiðingu þjónustutilskipunarinnar hér á landi. Utanríkismálanefnd telur mikilvægt og rétt að vísa til þessarar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tillögugreininni og gerir þess vegna breytingartillögu þar um.

Þá telur nefndin æskilegt að í heiti tillögunnar komi fram að um er að ræða heimild til staðfestingar á ákvörðun um að fella þjónustutilskipunina inn í EES-samninginn, en það kemur ekki skýrt fram í heiti tillögunnar eins og hún var lögð fram hér á Alþingi. Utanríkismálanefnd gerir því tillögu til breytingu á heiti þingsályktunartillögunnar.

Til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar var ákveðið að semja rammafrumvarp þar sem helstu efnisákvæði tilskipunarinnar eru tekin upp, en það nefnist frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Frumvarpið var lagt fram á yfirstandandi þing og í kjölfar 1. umr. var því vísað til viðskiptanefndar þar sem það er nú til umfjöllunar.

Utanríkismálanefnd leggur til að sú tillaga sem hér er til umræðu verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Að tillögugreinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar með vísan í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þjónustutilskipun Evrópusambandsins, sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 26. maí 2009, að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, frá 9. júní 2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn.“

2. Heiti tillögunnar orðist svo:

„Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn.“

Undir þetta nefndarálit og breytingartillögurnar rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ögmundur Jónasson.