138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 um breytingu á X. og XI. viðauka við EES-samningi.

396. mál
[17:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa þingsályktunartillögu. Ég vil þó árétta það vegna þess að þetta mál snýr að þjónustutilskipuninni sem hv. framsögumaður gerði ágæt skil, að megnið af atvinnustarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fellur undir þjónustu. Ef það er þannig að ESB er full alvara í því að láta innri markað sinn virka með eðlilegum hætti, mun það alltaf stefna í það að öll viðskipti með þjónustu verði gefin frjáls. Vandi ESB er sá að það hefur verið lítil framleiðniaukning á undanförnum árum og áratugum, mun minni framleiðniaukning en verið hefur í þeim ríkjum sem við Evrópubúar berum okkur saman við, Bandaríkjunum. Og eins þegar við veltum fyrir okkur hvað er að gerast í Asíuríkjunum þar sem framleiðniaukningin hefur orðið mjög mikil, skiptir auðvitað máli að við drögumst ekki aftur úr. Ef framleiðnin vex ekki hjá okkur eins og annars staðar — þegar ég segi „okkur“ á ég við okkur Evrópubúum — munu lífskjör í Evrópu dragast saman. Þau munu dragast aftur úr því sem aðrar þjóðir geta boðið og það mun gerast býsna hratt.

Þegar við bætist sú staðreynd að aldurssamsetning Evrópu er óhagstæð, er meiri og meiri krafa á að við náum að nýta alla framleiðsluþætti með sem skynsamlegustum hætti og að framleiðniaukningin verði sem mest. Vandinn er sá að það er ákveðin tilhneiging innan ESB til að vernda framleiðslu álfunnar gegn samkeppni að utan með tollum, sem aftur dregur úr framleiðniþróuninni, því að það er ekkert sem keyrir framleiðni og framleiðniaukningu betur áfram en samkeppni.

Í þessari þingsályktun er um að ræða tvo viðauka, annars vegar um hljóð- og myndmiðlun og hins vegar fjarskiptaþjónustu. Það skiptir auðvitað miklu máli allt það sem gerist á þessu sviði, sérstaklega fjarskiptaþjónustunni, sem er orðin ein af meginstoðum allrar atvinnustarfsemi. Eins er hljóð- og myndbandsmiðlun alveg gríðarlega umfangsmikil atvinnustarfsemi í nútímahagkerfum.

Þetta vil ég segja hér, af því ég hlýddi á ágæta yfirferð hjá háttvirtum framsögumanni nefndar í ágætri ræðu hans hér áðan. Ég vil bara benda á þetta. Þetta er það sem mun gerast. Þeir fyrirvarar sem íslensk stjórnvöld hafa sett, þeir fyrirvarar sem t.d. norsk stjórnvöld og fleiri hafa sett munu smám saman gefa eftir, það er mín spá. Smám saman mun þetta þróast í þá átt að það verða minni og minni fyrirvarar, þjónustustarfsemin mun verða með sama hætti og önnur starfsemi ef innri markaðurinn á að ganga upp því að ef ekki verður full samkeppni á þjónustusviðinu sem megnið af atvinnustarfsemi innan ríkja ESB hvílir á og ef ekki verður full samkeppni innan ESB-ríkjanna í þjónustu, mun framleiðnin ekki aukast. Lífskjör munu óumflýjanlega dragast aftur úr þeim lífskjörum sem við viljum keppa við, sérstaklega í Bandaríkjum Norður-Ameríku hvað varðar tekjur og ráðstöfunartekjur borgaranna.

Þess vegna vil ég beina því til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að þó að ég viti að hann er ánægður með hvaða girðingar menn vilja setja, og ég get svo sem tekið undir ýmislegt þar varðandi það, skil ég vel að menn hafi áhyggjur. Ég vil bara beina þeim orðum til hv. þingmanns að þetta muni ekki halda nema í ákveðinn tíma því að ef það heldur of lengi mun framleiðnin ekki aukast. Þannig mun það verða.