138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 um breytingu á X. og XI. viðauka við EES-samningi.

396. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir hans innlegg í þessu efni og jafnframt stuðning hans við það hvernig breytingartillögur utanríkismálanefndar eru settar fram. Ég skildi hann þannig að hann væri sáttur við það, enda tóku flokksfélagar hans í Sjálfstæðisflokknum í utanríkismálanefnd undir þessar breytingartillögur og skrifuðu undir nefndarálitið og breytingartillögurnar.

Vangaveltur hans eru góðar og gildar en það er hins vegar erfitt að spá, einkum og sér í lagi um framtíðina. Hvað nákvæmlega mun gerast í þessu efni vitum við auðvitað ekki. Það er margt sem getur breyst á næstu árum. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni urðu mikil átök á vettvangi Evrópusambandsins um þjónustutilskipunina eins og hún leit út í upphafi, einkum og sér í lagi vegna þess sem ég gat um, að henni var ætlað að ná einnig til heilbrigðisþjónustu, vinnuréttar og slíkra þátta. Það var pólitísk niðurstaða, á vettvangi Evrópusambandsins að gera breytingar á henni til þess að koma til móts við þessi sjónarmið.

Vitaskuld er mikilvægt fyrir okkur í okkar heimshluta að huga að því að hér sé hagvöxtur til þess að byggja undir til framtíðar, en hagvöxtur og hagvöxtur eru nú ekki endilega það sama. Það er auðvitað mikilvægt frá mínum bæjardyrum séð að hagvöxturinn byggi á sjálfbærum grunni, hann sé sjálfbær til framtíðar litið. Við vitum alveg að það er hægt að mæla hagvöxt og hagvaxtaraukningu á margvíslegan hátt. Það er margs konar starfsemi sem eykur hagvöxt í samfélaginu, starfsemi sem við viljum kannski ekki endilega að eigi sér stað, þannig að það er hægt að finna út með tölulegum útreikningum alls konar hluti sem auka hagvöxtinn í sjálfu sér. Í mínum huga er mikilvægt að við horfum á það með gleraugum sjálfbærrar þróunar að hagvöxturinn sé sjálfbær í öllu tilliti, hvort sem við erum að líta á efnahagslega þætti, félagslega þætti, eða umhverfislega þætti. Ég vildi bara segja það.

Ég hygg að þeim sjónarmiðum eigi eftir að vaxa fiskur um hrygg, ekki bara í þeirri heimsálfu sem við lifum í heldur víðar um heim á komandi árum. Eins og ég segi er mjög erfitt að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér í þessu efni en allar vangaveltur eru prýðileg innlegg í umræðuna og ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg.