138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 um breytingu á X. og XI. viðauka við EES-samningi.

396. mál
[17:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þetta var áhugavert innlegg. Ég er sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að það er erfitt að spá um framtíðina og reyndar hefur mönnum einnig gengið erfiðlega að spá fyrir um fortíðina, þ.e. að reyna að skýra hana. Það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Það er alveg rétt að það skiptir máli hvernig við mælum hagvöxt, það skiptir máli hvernig við leysum það verkefni að búa þegnum þjóða sem best lífsskilyrði. Það er nefnilega ekki allt fengið með gamaldagsmælingum á hagvexti. Sérstaklega þarf hagvöxtur að vera sjálfbær. Hann má ekki ganga um of á auðlindir náttúrunnar o.s.frv. Um þetta eru ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sammála.

Það sem ég sagði hér er boðskapur minn vegna þessarar þjónustutilskipunar: Hagvöxtur eða lífskjarabati hvíla á því að okkur takist að nýta náttúruauðlindir, hugvit og mannvit með betri hætti en áður. Þannig verður til lífskjarabati. Það þarf að sjálfsögðu að gerast með þeim hætti að um sé að ræða sjálfbæra nýtingu á náttúruauðlindum, svo ég endurtaki það nú. Það verður ekki þessi lífskjarabati nema það gerist sem ég sagði hér áðan, að tækniframfarir eigi sér stað, að framleiðniaukning verði, að við náum að gera meira úr því sem við höfum milli handanna eða að skapa eitthvað nýtt.

Vandi Evrópu er sá að framleiðniaukningin á undanförnum árum og sennilega rúmlega síðasta áratuginn, hefur verið allt of lítil. Menn bæta því við að álfan stendur frammi fyrir þeim vanda að það eru allt of margir komnir á efri ár miðað við þá sem eru á vinnumarkaði, þá stöndum við frammi fyrir vanda. Eina leiðin til að leysa þann vanda — eina leiðin, og þetta snýr ekkert að því hvort maður sér inn í framtíðina — er að samkeppnin laði fram meiri framleiðni. Það er grundvallaratriði. Það er ekki sama hvernig sú samkeppni á sér stað. Og enn og aftur, það þarf að vera með sjálfbærum hætti sem við nýtum okkur auðlindir, en undan þessu verður ekki vikist.

Þegar ég segi: Það er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina sem nú er á Íslandi og fyrir þær sem á eftir henni koma, að átta sig á því að þeir fyrirvarar sem við höfum sett um þjónustutilskipunina, munu þegar fram líða stundir gefa eftir. Ég er algjörlega sannfærður um það, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.