138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

eftirlit með skipum.

243. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. samgöngunefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið nokkra gesti á sinn fund. Umsagnir bárust frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Óskari Karli Guðmundssyni útgerðarmanni, Persónuvernd, Vegagerðinni og Sjómannasambandi Íslands.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um lögskráningu sjómanna (mál nr. 244). Í frumvarpinu er lagt til að felldur verði brott 2. málsl. 3. mgr. 16. gr. laga um eftirlit með skipum þar sem ákvæðið verður óþarft fyrir skip undir 20 brúttótonnum nái frumvarp til laga um lögskráningu sjómanna fram að ganga.

Í gildandi lögum um eftirlit með skipum er gert ráð fyrir að haffærisskírteini verði eingöngu gefið út fyrir skip undir 20 brúttótonnum þegar fyrir liggur yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu. Samkvæmt frumvarpi til laga um lögskráningu sjómanna sem lagt er fram samhliða frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er lagt til að lögskráningarskylda skipa nái til allra skráningarskyldra skipa, þar með talið skipa undir 20 brúttótonnum. Nefndin vekur athygli á að gert er ráð fyrir að yfirlýsing tryggingafélags verði lögð fram við lögskráningu líkt og verið hefur um skip yfir 20 brúttótonnum. Gangi þessi breyting eftir liggur því fyrir að framlagning slíkrar yfirlýsingar við útgáfu haffærisskírteinis verður óþörf og því eðlilegt að umræddur málsliður verði látinn falla niður , eins og lagt er til í frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Þór Saari sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir álitið skrifa Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Róbert Marshall og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.