138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

lögskráning sjómanna.

244. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. minni hluta samgn. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um lögskráningu sjómanna og þegar hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir flutti meirihlutanefndarálit samgöngunefndar gerði hún það mjög skörulega. Hún var ekki beint að hugsa til þeirra sem skrá niður ræður hennar, af því við erum nú að tala um skráningar, því að það verður ekki létt verk eins og hraðinn var í þeirri umferð. Ég hyggst nú tala aðeins hægar en hún til þess að reyna að jafna þetta upp.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp fjallar fyrst og fremst og nánast eingöngu um að hér er verið að innleiða það að bátar undir 20 brúttótonnum falli undir sömu lög og þeir sem eru þar yfir og frá og með 1. nóvember 2010 verður lögskráning skylda. Ég vil líka vekja athygli á því að frumvarpið sem við ræddum áðan, um breytingu á lögum um eftirlit með skipum, er í raun og veru afleiðing af þessu frumvarpi hér. Ég teldi eðlilegra að það væri nú a.m.k. við 3. umr. og síðar á dagskrá þannig að ekki væri búið að samþykkja frumvarp ef hitt yrði ekki samþykkt á undan, þar yrði því eitthvert samhengi á milli hlutanna.

Minni hlutinn getur ekki stutt álit meiri hluta nefndarinnar um umrætt frumvarp um lögskráningu og telur að efni þess þarfnist mun meiri umfjöllunar við skoðunar á afleiðingum þess og vissu fyrir því að rafrænt skráningarkerfi geti annað því umfangi sem gert er ráð fyrir. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að 900–1.000 fiskiskip bætast við þau 380 sem nú falla undir lög um lögskráningu, það er nærri því þreföldun á þeim skipum sem nú er skylda að lögskrá og bætast við lögskráninguna.

Í greinargerð með frumvarpinu er ekki minnst á þetta gríðarlega aukna umfang lögskráningarinnar. Því verður að ætla að höfundar frumvarpsins hafi ekki verið meðvitaðir um það enda er stórmál á ferðinni sem vert er að vekja athygli á. (Gripið fram í.) Ég rifja hér upp að tekin var upp svokölluð rafræn afladagbók fyrir nokkrum árum og hún er ekki farin að virka enn þann dag í dag. Sú vegferð var margra ára ferli þannig að ég tel að hraðinn á þessu frumvarpi hafi verið allt of mikill.

Minni hlutinn vekur athygli á því að flest þau skip sem nú eiga að falla undir lögskráningar í fyrsta sinn eru innan raða Landssambands smábátaeigenda. Fyrir liggur vel rökstudd umsögn sambandsins þar sem það hafnar alfarið breytingum á gildandi lögum og vill að fiskiskip minni en 20 brúttótonn verði áfram undanþegin lögskráningu. Það er miður að ekki skuli tekið tillit til sjónarmiða Landssambands smábátaeigenda, það er í hæsta máta óeðlilegt að ekki skuli hafa verið samráð við sambandið við vinnslu frumvarpsins og hugað að afleiðingum fyrirhugaðra breytinga fyrir aðila þess.

Enn og aftur upplifum við að verið er að samþykkja hér frumvarp til laga án þess að það sé rætt nógu efnislega við þá aðila sem það kemur mest við. Mér finnst mjög sérkennilegt við vinnslu þessa frumvarps að ekki skuli hafa verið haft samráð við Landssamband smábátaeigenda og rætt við þá um hvaða áhrif þetta hefur á umbjóðendurna. Það segir okkur að oft og tíðum þurfum við að vanda betur vinnubrögðin við lagasetningu á Alþingi til þess að þurfa ekki að laga einhverja hnökra sem geta komið upp eftir á, þá ætti heldur að reyna að fyrirbyggja við meðferð málsins. Það eru mýmörg dæmi um að þessi vinnubrögð hafi verið viðhöfð á þeim stutta tíma sem ég hef setið hér á Alþingi.

Minni hlutinn telur þær breytingar sem gerðar voru á lögum um lögskráningu og lögum um eftirlit með skipum 2001 hafi verið vel ígrundaðar og að með þeim hafi verið komið til móts við þau sjónarmið Landssambands smábátaeigenda að tryggja með ábyggilegum hætti slysatryggingu sjómanna. Góð reynsla er komin á breytingarnar, sem sýnir sig best í því að gert er ráð fyrir að þær verði teknar upp í nýjum lögum um lögskráningu.

Við lagabreytingarnar 2001 var ekki talið að gera þyrfti aðrar breytingar á þáttum er varða öryggi sjómanna og eftirlit með réttindum skipstjórnarmanna. Engar breytingar hafa orðið frá þeim tíma sem kalla á fyrirhugaðar breytingar, ef undan er skilið aukið skilyrði fyrir eftirliti með rafrænum hætti.

Þegar menn fjölluðu um þetta var brotalöm í lögunum varðandi tryggingar þeirra sjómanna sem voru á smábátum. Þau lög sem ég vísa í voru samþykkt árið 2001. Nú er það þannig, virðulegi forseti, að maður fær ekki haffærisskírteini á bát undir 20 brúttótonnum nema vera búinn að leggja inn áhafnartryggingu. Það er búið að girða fyrir þann stóra galla sem var á þessu áður en lögin voru samþykkt árið 2001. Menn ræddu þetta einmitt á þeim nótum sem við gerum hér með lögskráninguna. Þá var það með þeim hætti að þessu nýja kerfi árið 2001 var komið á og útgerðarmenn fengu ekki haffærisskírteini á bátana nema leggja inn áhafnartryggingu áður. Það var því búið að girða fyrir versta gallann með því tryggja það að sjómenn á smábátum eða bátum undir 20 brúttótonnum væru tryggðir.

Í 5. gr. frumvarpsins er tekið fram að ekki megi lögskrá í skipsrúm nema fyrir liggi staðfesting á því að skipverjar hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna. Þar sem margoft hefur þurft að fresta gildistöku þessa ákvæði vegna langs biðlista að Slysavarnaskóla sjómanna er útilokað að skólinn geti annað þeim fjölda sem bætist við verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Skal í þessu sambandi vakin athygli á að vegna fjársveltis verður ekkert af árlegri hringferð Sæbjargar til námskeiðshalda á komandi sumri eins og verið hefur. Minni hlutinn benti á þetta atriði í vinnu nefndarinnar við frumvarpið. Gerir minni hlutinn að tillögu sinni ákvæði nýrra laga um lögskráningu skipa minni en 20 brúttótonn, komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. nóvember 2010. Á þeim tíma gefst tækifæri til að reyna til hlítar hið nýja kerfi og sjá hvort skilvirkni þess uppfylli kröfur sem til þess eru gerðar um öryggisþætti og hagræðingu. Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn til þá breytingu að lögin taki gildi 1. nóvember 2012.

Það er reyndar kveðið á um það í reglugerð í lögunum, í 7. gr., hvernig þetta yrði gert til þess að mæta þessum vandamálum sem eru fyrirséð. Verði þetta að lögum má ekki skrá á þessa báta nema menn hafi farið í Slysavarnaskóla sjómanna. Það tel ég mikið framfaramál. Auðvitað á það að vera skylda að það sé gert en það þjónar engum tilgangi að setja lög þegar við vitum það fyrir fram að þau munu ekki virka fyrr en eftir mjög langan tíma. Ef við settum hins vegar, eins og ég bendi á í minnihlutaálitinu sem ég flyt hér, inn ákvæði 2012, sæjum við fram á að þetta væri hugsanlega framkvæmanlegt á þeim tíma. Fyrir þann tíma tel ég útilokað að þetta sé framkvæmanlegt, algjörlega útilokað.

Það er líka annað sem verður að skoða frekar, vegna þess að menn hafa ákveðnar heimildir til að vera skráðir í stuttan tíma áður en þeir uppfylla þær kröfur að fara á öryggisnámskeiðið. Menn geta í raun og veru komist hjá þessu í ákveðinn tíma, sérstaklega í ljósi þess að svokallaðar strandveiðar eru hafnar. Þetta þyrfti að skoða í heild sinni áður en lögin taka gildi. Þess vegna tel ég mikilvægt að við gerum það þannig að lögin taki gildi 1. nóvember 2012.

Ég sagði við 1. umr. þegar hæstv. samgönguráðherra kynnti þetta frumvarp að ég saknaði þess að það væri ekki skylda að hafa björgunarbúninga um borð í bátum undir 12 metrum, sem er sá bátaflokkur sem við fjöllum um um hér í dag. Ég lít á það sem öryggismál sjómanna sem við fjöllum um hér, að tryggja það með lögskráningunni að allir fari í Slysavarnaskóla sjómanna. Ég sagði það hér við 1. umr. að ég hefði viljað sjá það inni í þessu frumvarpi og það er mjög sérstakt eins og staðan er í dag að svo skuli ekki vera. Það er mjög sérkennilegt að hæstv. ráðherra hafi ekki fallist á að setja það þarna inn þó að það hafi reyndar verið búið að mæla fyrir frumvarpinu þegar ég benti hæstv. ráðherra á þetta. En það mjög sérkennilegt að á árinu 2010 skuli ekki vera skylt að hafa björgunarbúninga á skipum undir 12 metrum þótt þeir hafi sannað gildi sitt svo um munar, líka í ljósi þess að verið er að auka róðra á þessum minni skipum í sambandi við boðaðar strandveiðar. Þess vegna sakna ég þess þegar við setjum fram svona frumvarp að við skulum ekki skoða hlutina algjörlega ofan í kjölinn, hvað megi fara betur, í stað þess að setja fram eitthvert frumvarp sem tekur gildi 1. nóvember 2010. Það er fyrirséð að lögin fara ekki að virka fyrr en í fyrsta lagi eftir sirka tvö ár. Það er alveg hreint með ólíkindum að þetta skuli ekki hafa verið komið inn fyrr, að það sé skylda að hafa björgunarbúninga í skipum undir 12 metrum.

Ég lít svo á að það sem verið er að hugsa hér er bæði eftirlit með réttindum í gegnum lögskráninguna og setja það inn í kerfi eins og er verið að gera hér með rafrænni skráningu. Maður getur reyndar áfram skráð hinsegin. Það veit þó enginn hvort kerfið er undir það búið að geta tekið við öllu þessu álagi, fyrir utan það að það kemur fram í kostnaðargreiningu frumvarpsins að sá kostnaður sem mun falla á vaktstöð siglinga verður ekki það mikill. Ég tel að það sé of lítið gert úr þeim þætti. Það er mjög sérkennilegt að þegar við erum með 380 skip skráð og bætum við við tæplega þúsund skipum til viðbótar, að menn skuli ekki skoða þetta ofan í kjölinn og gera sér grein fyrir því hvort þetta kerfi sem lagt er til komi til með að virka. Það er líka mjög sérkennilegt í ljósi þess að við höfum reynslu af svokallaðri rafrænni afladagbók, eins og ég nefndi hér áðan.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um öryggismál sjómanna. Það sem kom fram á fundi samgöngunefndar í gærmorgun, og ég tók það upp í liðnum Störf þingsins í gær, að hér á Íslandi árið 2010 er einungis reiknað með að það verði tvær björgunarþyrlur eftir einn mánuð. Nú er liðinn einn þriðji hluti af árinu og við höfum getað verið með tvær vaktir mannaðar. Nú eftir mánuð fer þriðja þyrlan, sem er á leigu hjá Landhelgisgæslunni, úr landi. Það þýðir það að það munu einungis vera tvær þyrlur og við getum aðeins haft eina vakt mannaða, það erum við að festa í sessi. Það voru mjög sláandi þær upplýsingar sem komu fram á fundi samgöngunefndar í gær að á síðustu 15 árum er búið að bjarga 332 sjómönnum með þyrlu. Í 75% þeirra tilfella var nauðsynlegt að hafa tvær vaktir. Þetta þýðir það að það eru um 22 sjómenn á ári sem við erum ekki tilbúin að bjarga og getum ekki bjargað þeim við þær aðstæður eru uppi í dag. Það er grafalvarlegt mál. Það er hinn kaldi veruleiki.

Það er rosalega dapurlegt til þess að hugsa og áhyggjur manna af þessu komu fram á þessum fundi í gær, að það er ekki spurning hvort, heldur hvenær þær aðstæður koma upp að við getum ekki bjargað lífi sjómanna út af þessu ástandi. Það er rosalega dapurlegt. Ég hugsa til þess með hryllingi að það þurfi í raun og veru að verða hér eitthvert hörmulegt slys til þess að geta breytt þessu. Það verður að breyta þessu. Það verða að vera hér varanlega þrjár þyrlur þannig að við getum verið með tvær vaktir mannaðar. Það er skelfilegt að geta ekki bjargað sjómönnum ef það kemur neyðarkall frá skipi utan 20 sjómílna. Það er bara sagt: Því miður, ekki hægt að bjarga ykkur, aðstæðurnar eru þannig í þessu landi.

Það er rosalega dapurlegt þegar við erum að fjalla hér um frumvarp sem tekur ekki á þessum efnisþætti, öryggismálum sjómanna, að menn taki ekki hlutina og skoði þá í heild sinni. Það mun ekki þýða fyrir þá sem ráða hér á hinu háa Alþingi að segja að þeir viti ekki um þetta, þeir geta ekki komið fram fyrir alþjóð og sagt að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir þessum aðstæðum því að þær blasa við okkur og við vitum af þeim. Ég held að þetta sé í fjórða sinn sem ég vek athygli á þessari dapurlegu stöðu, forgangsröðuninni. Á meðan maður stendur hér í ræðustól Alþingis og vekur máls á þessu og vekur fólk til umhugsunar um hvað það þýðir að ekki sé hægt að bjarga sjómönnum úr sjávarháska er verið að reisa tónlistarhús fyrir tugi milljarða hér fyrir aftan mig. Er þetta hið nýja Ísland sem allir eru að kalla eftir? Ég hef ekki kallað eftir þessu. Þetta er dapurleg staðreynd, virðulegur forseti.

Ég vil líka vekja athygli á því að við samþykktum hér mjög umdeilt frumvarp nú fyrir stuttu, svokallað skötuselsfrumvarp, ég ætla þó ekki að fara að gera skötusel að umræðuefni undir þessum dagskrárlið. Þar voru líka samþykkt til viðbótar nokkur önnur atriði sem minna hafa verið rædd því að þau hafa ekki komist að fyrir þessum blessaða skötusel, því óargadýri bæði til lands og sjávar. Þar var verið að auka línuívilnun úr 16% í 20%. Ég hef bent á það í umræðu um það frumvarp að nú er línuívilnun þannig upp sett að maður hefur sólarhring og fer höfn úr höfn. Ég hef bent á það og hvatti hæstv. ráðherra til þess að breyta því með þeim hætti að maður verði að fara í land í sömu höfn og maður fer úr. Nú koma oft upp þær aðstæður úti á sjó að menn þurfa kannski að fara í aðra höfn og ég benti á það að auðvitað væri eðlilegast að hafa tímamörkin enn þá þau sömu, en ef menn færu í aðra höfn gætu þeir samt sem áður nýtt sér þessa ívilnun. Það hefur því miður orðið hörmulegt slys þar sem menn fórust, það er rakið til þess sem menn hafi hugsanlega verið að reyna að nýta þessa heimild. Ég er ekki að halda því fram að það sé því að kenna. Auðvitað reyna allir að fara í öruggustu höfnina en þegar við erum að fjalla um öryggismál sjómanna verðum við að fjalla um þau í víðari skilningi en við gerum oft. Það er gríðarlega mikilvægt.

En ég vil segja það um þetta frumvarp hér að það er ekki mikill pólitískur ágreiningur um frumvarpið sem slíkt. Það eru líka fínir punktar í því eins og t.d. það menn ætli að þróa þessa rafrænu lögskráningu. Ég tel það til hagsbóta en ég tel það ekki til hagsbóta ef menn setja lög á Alþingi þótt það sé reglugerðarheimild inni í lögunum um það hvernig ráðherra getur brugðist við slíkum aðstæðum, þegar það er nánast vitað fyrir fram að það getur ekki virkað. Tel ég mun skynsamlegra að menn láti lögin gilda frá þeim tíma sem raunhæft er að miða við. Það er alveg fyrirséð, eins og ég rakti örstutt í ræðu minni áðan og ætla að hnykkja hér betur á, að Slysavarnaskóli sjómanna mun ekki geta annað því að allir þeir sem þurfa réttindi sem ekki hafa þau í dag fái þau þegar þeir þurfa. Það eru reyndar töluvert margir sem hafa þessi réttindi en skólinn mun ekki geta annað því fyrir gildistöku laganna. Ég benti líka á að Slysavarnaskóli sjómanna fer ekki sína árlegu hringferð núna vegna niðurskurðar þannig að það mun ekki vera hægt að gera þetta með þessum hætti.

Ég vona svo sannarlega, virðulegi forseti, að menn ræði þetta á milli 2. og 3. umr. Ég óska eftir því að frumvarpið verði kallað inn í hv. samgöngunefnd milli 2. og 3. umr., að menn ræði þetta á þeim grunni að við getum frestað gildistöku laganna eins og lagt er til í breytingartillögu sem ég hér flyt. Ég hefði viljað að menn hefðu til viðbótar sett inn í frumvarpið að bátar undir 12 metrum, þ.e. 20 brúttótonna bátar, væru skyldugir til að hafa björgunarbúninga. Við þurfum nefnilega að ræða öryggismál sjómanna á miklu víðari grunni en við gerum og fara nákvæmlega ofan í stóru atriðin, ekki vera í þessu smáa.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að þetta verði skoðað mjög vel í hv. samgöngunefnd milli 2. og 3. umr.