138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, strandveiðar.

Í álitinu eru nefndir þeir einstaklingar sem komu á fund nefndarinnar og enn fremur frá hverjum umsagnir bárust og ég vísa til álitsins þar að lútandi.

Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að heimild til strandveiða verði lögfest og fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum eins og það fyrirkomulag sem komið var á með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 66/2009. Gert er ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 tonnum af óslægðum botnfiski. Er landinu skipt í svæði og gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um skiptingu landsvæða og þær aflaheimildir sem heimilt er að veiða á hverju landsvæði í hverjum mánuði.

Vorið 2009 voru fyrstu hugmyndir um svokallaðar strandveiðar kynntar. Þá um sumarið voru samþykkt lög nr. 66/2009, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, ásamt bráðabirgðaákvæði sem heimilaði strandveiðar. Bráðabirgðaákvæði þetta gilti aðeins til loka fiskveiðiársins 2008/2009 en boðað var að á grundvelli þeirrar reynslu og lærdóms sem draga mætti af þessum veiðum yrði tekin ákvörðun um framhald strandveiða. Var Háskólasetur Vestfjarða fengið til að gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna. Niðurstöður úttektarinnar sýna að almenn ánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag veiða meðal þeirra sem þær náðu til. Sjálfur get ég fullyrt að strandveiðarnar hafi hleypt miklu lífi í sjávarbyggðir víða um land og verið atvinnuskapandi.

Meiri hlutinn telur mikilvægt skref að festa strandveiðar í sessi eins og boðað er í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar. Úttekt á reynslu síðasta fiskveiðiárs sýnir að tilraunin með strandveiðarnar gekk vel og framhaldið lofar góðu. Yfirlýst markmið með heimild til strandveiða er nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum er gert mögulegt að stunda veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Kerfið er til þess fallið að ná fram þessum markmiðum auk þess, eins og fram hefur komið áður, sem það ríkir almenn ánægja um þessa ráðstöfun. Ég vil bæta því við að frumvarp þetta er til þess fallið að auka nýliðun í sjávarútvegi á meðal sjómanna og útgerðarmanna.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að 6. tölul. 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði samhljóða sambærilegum tölulið í bráðabirgðaákvæði laga nr. 66/2009, sem samþykkt voru síðasta sumar. Þar var gert ráð fyrir að aflinn væri veginn og skráður hér á landi og að um vigtun, skráningu og meðferð aflans færi að öðru leyti eftir ákvæðum laga um umgengni um nytjastofna sjávar og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.

Í öðru lagi er lagt til að við frumvarpið bætist grein til breytingar á 24. gr. laganna á þann veg að Fiskistofu verði heimilt að svipta skip leyfi til strandveiða fyrir brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er mælt fyrir í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að slíkt ákvæði sé fyrir hendi en leggur áherslu á að þrátt fyrir fullyrðingar ákveðinna hagsmunaaðila um annað kom fram á fundum nefndarinnar að sjómenn hafa almennt virt kerfið og lítið hefur verið um brot í fyrra sem styður enn þá niðurstöðu, sem ég hef hér lýst, að rétt sé að lögfesta þetta kerfi til frambúðar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr. 6. tölul. 5. efnismgr. orðist svo: Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.

2. Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi: Fyrsti málsliður 24. gr. laganna orðist svo: Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, eða eftir atvikum leyfi til strandveiða, fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er mælt fyrir í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar.

Hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.

Undir nefndarálitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og framsögumaður, Ólína Þorvarðardóttir, Ögmundur Jónasson, Róbert Marshall, Ásmundur Einar Daðason og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, með fyrirvara.