138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af stóru málunum hér á þingi og úti í samfélaginu, sem eru sjávarútvegsmálin. Þessar strandveiðar eru vitanlega mjög umdeildar eins og gefur að skilja.

Ég er velta fyrir mér því magni sem er til skiptanna. Ég vil nú, frú forseti, byrja á því að segja að það er með öllu óskiljanlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki þegar vera búinn að auka kvótann þegar full þörf er á því, þegar full þörf er á þeim tekjum sem það skapar íslensku samfélagi. Það er löngu ljóst og búið að sýna fram á það að töluverð aukning aflaheimilda rúmast innan þeirra útreikninga sem Hafrannsóknastofnun notar.

Mig langar að velta upp við hv. þm. Atla Gíslason þessum orðum um að efla landsbyggðina, hleypa lífi í hafnirnar. Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að rúm 3% af aflaheimldum eru færð frá fyrirtækjum í sjávarútvegi í dag og færð inn í þetta strandveiðikerfi? Á það hefur verið bent að í sumum tilfellum geti það numið nokkurra daga upp í nokkurra vikna vinnu í landvinnslu í frystihúsum og þá um leið að sjálfsögðu hjá þeim sem eru að sækja fiskinn. Er það að auka líf í höfnunum, er það að styrkja landsbyggðina, að taka frá frystihúsinu í sjávarþorpinu eða bæjarfélaginu og flytja yfir til einhverra annarra sem eru að eltast við sama fiskinn? Er þetta stefna stjórnvalda og hvernig í ósköpunum (Forseti hringir.) getur það staðist þá fullyrðingu að þetta sé til þess að efla landsbyggðina?