138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja hv. þingmanni að mér er par sama hversu oft hann nefnir LÍÚ hér, ég hef ekki áhyggjur af því. Ég vil þó segja að ég hef töluverðar áhyggjur af því að verið sé að fara af stað í kerfi sem þetta með miklum tilkostnaði. Það er vissulega verið að nota aflaheimildir, sem í dag mundu í mörgum sjávarplássum þýða aukna vinnu nú þegar, í margbreytilegum afbrigðum þeirra útgerða og fiskvinnslna sem eru til í landinu. Hún er ekki rétt sú mynd sem stjórnarflokkarnir draga upp að hér sé einhvers konar ein útgerðartegund til á landinu sem þeir gjarnan tengja við eitthvað sem kallast LÍÚ, það er ekki þannig.

Það er fjölbreytileg atvinna í kringum sjávarútveginn, stór fyrirtæki, lítil fyrirtæki, einstaklingar með marga í vinnu í fyrirtækjum sínum, einstaklingar með fáa í vinnu. Það er verið að vinna fiskinn, það er verið að selja hann ferskan. Það er mjög mikill fjölbreytileiki í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef miklar áhyggjur af þessari sýn sem virðist vera komin núna, það er vissulega verið að færa hlutina frá einum sem er að vinna fiskinn yfir til annarra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur verið gerður samanburður á ávinningi af þessum strandveiðum og hinum hefðbundnu veiðum sem við stundum í dag og fiskvinnslu í landi? Hefur verið borinn saman ávinningur samfélagsins, þ.e. skatttekjur ríkisins, skatttekjur sveitarfélaga, launatekjur fólks, hefur þessi samanburður verið gerður? Það væri gaman að fá að vita það.