138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Því er fljótsvarað. Slíkur samanburður hefur ekki verið gerður. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að fróðlegt væri að skoða það. Við höfum ekki mikla reynslu af þessu kerfi — í einn og hálfan mánuð í fyrra. Síðan var gerð úttekt hjá Háskólasetri Vestfjarða. Ég hygg að það væri fróðlegt eftir sumarið að leita eftir þessum samanburði og fá það upp á borðið hvað gefur hvað og hvað ekki.

Þetta verður ekki heldur allt metið í krónum og aurum, það verður líka að horfa á samfélagsmyndina og samfélagið í heild sinni. Til að halda því til haga þá fagna menn þessu kerfi vítt og breitt um landið, einyrkjarnir og aðrir. Þetta hefur haft margvísleg góð samfélagsleg áhrif og þau verða ekki öll mæld í krónum og aurum sem þar liggja. Væri fróðlegt að meta það sérstaklega hvað þetta hefur veitt mönnum ánægju og gleði. Þetta hefur veitt mönnum rétt til að stunda veiðar frá sinni heimabyggð, rétt sem hafði verið tekinn af þeim — aldagamall réttur. Frá því að land byggðist hafa menn róið frá sinni strönd. Hér er verið að feta inn á þá slóð aftur í svo litlum mæli að menn ættu að fagna þessari nýjung og þessari fjölbreytni og þessari auknu flóru. En alltaf verða stóru veiðiaðilarnir til staðar og stóru vinnslurnar, það efast ég ekki um.