138. löggjafarþing — 103. fundur,  12. apr. 2010.

skil á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingheimur, góðir tilheyrendur. Framan af árinu 1627 bjuggu, að talið er, um 500 manns í Vestmannaeyjum. Í Tyrkjaráninu illræmda drápu ræningjarnir með köldu blóði a.m.k. 36 manns og hnepptu í fjötra og fluttu nauðuga á brott rúmlega 240. Vel innan við helmingur íbúanna, sennilega um 200 manns, komst undan, gat leynst í Heimaey, var staddur í úteyjum eða uppi á landi. Þessi hrikalegi atburður lifir enn í minningu og sem hluti af sögu Vestmannaeyja og Íslands, en eyjarskeggjar gáfust ekki upp. Þó að ránið hafi markað sögu Eyjanna, ekki bara árum og áratugum heldur öldum saman, hélt lífið áfram og með vélvæðingu bátaflotans í Eyjum frá og með 1906 byrjaði nýtt ævintýri sem endaði í blómlegri 5.000 manna byggð þegar náttúran sjálf tók svo næst í taumana með eldgosi 1973 eins og sagan væri þá þegar ekki orðin nógu dramatísk. Eyjamenn urðu að yfirgefa heimabyggðina að nóttu, en þeir sneru flestir aftur, þeir gáfust ekki upp. Þeir hófu hreinsunar- og endurreisnarstarfið og á ný stendur blómleg byggð í Eyjum.

Látum stórbrotna sögu Vestmannaeyja verða okkur nú að lærdómi, hvatningu og fyrirmynd, góðir landsmenn. Ránið sem við erum að fjalla um í dag er annars eðlis. Ræningjarnir eru ekki frá fjarlægu barbaríi heldur úr okkar eigin röðum. Rán var það og rán skal það heita þegar okkar góða og farsæla, norræna velferðarsamfélagi var rænt í nafni innfluttrar, háskalegrar og mannfjandsamlegrar hugmyndafræði um einkagróðann sem drifhvöt allra hluta, þegar einkavæðing varð að vinsælla tískuorði en flest annað, þegar græðgin var gerð að dyggð og þegar oflátungshátturinn, snobbið, hrokinn og heimskan fengu nær öll völd í íslensku samfélagi.

Það er erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær þessi viðhorfsbreyting varð. Var það 1991, 1995? Sannarlega upp úr aldamótunum síðustu fara hlutirnir að fara verulega úrskeiðis. Eitt er ljóst og það er að einkavæðing bankanna og oftrú íslenskra stjórnmálamanna á skilvirkni og skynsemi hins frjálsa markaðar eru þar miðlæg. Það er sú hugmyndafræði sem hefur reynst okkur skelfilega dýr. Í nafni afskiptaleysis horfðu menn á skuldirnar hrannast upp og bankakerfið vaxa þjóðarbúinu algjörlega yfir höfuð.

Hreinar erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins fóru í fyrsta sinn í sögunni yfir 100% af vergri landsframleiðslu um eða upp úr aldamótunum. Ég ritaði þá grein í Morgunblaðið og vakti athygli á þeirri alvarlegu staðreynd. Einn maður hafði samband við mig og deildi með mér áhyggjum af því máli. Nokkrum árum síðar voru þessar tölur komnar í 450% af vergri landsframleiðslu. Skuldir heimila og fyrirtækja ruku upp og, það sem verra var, það komst í tísku að veita einstaklingum og fyrirtækjum með allar sínar tekjur í innlendri mynt lán í erlendum gjaldeyri. Hinn frjálsi markaður keyrði þjóðarbúið á kaf í skuldum og í nafni hugmyndafræðinnar mátti ekki og átti ekki að skipta sér af þeirri þróun. Frelsið fólst af hálfu stjórnvalda í eftirlits- og afskiptaleysi, hinir frjálsu litu svo á að frelsinu fylgdi engin samfélagsleg ábyrgð.

Meðan á þessari þróun stóð, frá og með aldamótunum, og tilheyrandi ójafnvægi geisaði í íslensku hagkerfi jók efnahagsstjórn ríkisstjórna á vandann með því að dæla stóriðjufjárfestingum inn í hagkerfið, með því að lækka skatta í þenslu og verðbólgu um tugi og aftur tugi milljarða, með því að hækka íbúðalán í 90% og hækka hámarksfjárhæðir. Þetta eru án nokkurs vafa mestu efnahagsafglöp síðari tíma á Íslandi — í boði Sjálfstæðisflokksins og ekki síður Framsóknarflokksins og undir lokin í boði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Eða muna menn ekki eftir hnyttnum auglýsingum Framsóknarflokksins í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 um 90% húsnæðislán mitt í þenslunni? Á sama tíma þakkaði flokkurinn sér dugnað í stóriðjumálum. „Árangur áfram – ekkert stopp“ var slagorðið. Og það er einmitt það, ekkert stopp. (Gripið fram í: Það er stopp núna.) Það kom fram í október 2008 og enginn hafði staldrað við og spurt sig á hvaða vegferð við værum. Þeim sem gagnrýndu vegferðina var ýtt til hliðar með háðsglósum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði hvað hún gat með tillöguflutningi, ræðuhöldum, greinaskrifum og bókaskrifum til að vekja athygli manna á því sem var að gerast. En við vorum afgreidd þannig að við værum á móti og vildum helst að þjóðin dundaði sér við það eitt að tína fjallagrös.

Hér í þingsalnum eru enn menn sem tóku þátt í þeim málflutningi. Þeir vilja kannski rifja upp með okkur núna hvernig þarna var staðið að málum. Við fluttum tillögu á útmánuðum 2005 þar sem við lögðum það til að dregið yrði úr eða stöðvaðar þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdir, að Fjármálaeftirlitinu yrði gert að fara í raunverulega áhættugreiningu í bankakerfinu, að Seðlabankanum yrði falið að beita bindiskyldu og öðrum stýritækjum til að hemja ofvöxt bankakerfisins, að hætt yrði við frekari skattalækkanir í þenslunni.

Í greinargerð með þeirri tillögu, sem er vel að merkja sett saman á miðju ári 2005, stendur í framhaldi af umfjöllun um það hvort hægt sé að ná mjúkri lendingu í hagkerfinu:

„Hættan er hins vegar augljóslega sú að miklu verr fari, t.d. ef ytri skilyrði versna snögglega og/eða ríkisstjórnin sér ekki að sér. Harkalegt samdráttarskeið, verðbólguskot samfara snöggri og mikilli gengislækkun krónunnar, rýrnun kaupmáttar og greiðsluerfiðleikar heimila og fyrirtækja með tilheyrandi erfiðleikum í fjármálakerfinu gæti orðið útkoman, sem sagt brotlending en ekki mjúk.“

Það varð svo sannarlega það sem því miður gerðist að lokum, brotlending, hrun, og það var varað við því og bent á það svo snemma sem á árinu 2005. Enda segir rannsóknarnefndin hér að síðustu forvöð til að grípa í taumana ef ekki hefði átt illa að fara voru á árinu 2006. Þar í liggur að mínu mati mesta ábyrgðin, mesta vanrækslusyndin, mestu afglöpin að frátöldu því að bera sjálfa stefnuna fram, að aðhafast ekkert, gera ekkert og nota ekki tímann sem menn höfðu til að taka í taumana. Það er sárgrætilegt að standa frammi fyrir því núna að svona fóru menn að ráði sínu.

Þessi rannsóknarskýrsla dregur upp hrollvekjandi mynd af sambúð tiltekinna stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og fjármagnseigenda, af sambúð og samskiptum bankanna og eigenda þeirra, af andvaraleysi og aðgerðaleysi og loks úrræðaleysi og lömun íslenska stjórnkerfisins þegar að hruninu kom. Yfir þetta þurfum við nú allt að fara. Heiðarlegt og einart uppgjör við það sem leiddi til hrunsins haustið 2008 er mikilvægt og óumflýjanlegt sem hluti af því að komast í gegnum og sigrast á erfiðleikum okkar. Það er óendanlega dapurlegt að lesa, og þó á hlaupum sé enn sem komið er, áfellisdóminn sem skýrslan birtir okkur. Hitt skiptir samt öllu máli, hvernig okkur gengur að vinna okkur í gegnum og út úr þessum erfiðleikum. Það er okkur þrátt fyrir allt að takast þó að ýmislegt sé enn mótdrægt. Við gerum hvað við getum í þeim efnum og vinnum að því dag og nótt, þau okkar sem hafa fengið það öfundsverða hlutskipti eða hitt þó heldur að taka við þrotabúi nýfrjálshyggjunnar og reyna að greiða úr þeim málum.

Það eru sem betur fer ýmis jákvæð teikn á lofti, 24% fjölgun farþega hjá stærsta flugfélagi landsins frá áramótum, 5% fleiri erlendir ferðamenn frá áramótum, innlend framleiðsla, útflutnings- og samkeppnisgreinar, afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd, með öðrum orðum raunhagkerfið íslenska spjarar sig að stórum hluta aðdáunarlega vel þegar gervihagkerfið er fallið, þegar froðan er fokin burt.

Nú verðum við hvert og eitt og öll saman að axla ábyrgð, ekki bara einstakir stjórnmálamenn heldur stjórnmálaflokkar og talsmenn hugmyndafræði, stjórnsýslan öll vissulega en líka fjölmiðlar, líka háskólasamfélagið. Hvað með heildarsamtök, hvað með Verslunarráð sem hældi sér af því að 90% af frjálshyggjuhugmyndum þess hefðu náð fram að ganga og lagði til að við hættum að kenna okkur við hin Norðurlöndin enda stæðum við þeim svo miklu framar? Forseti lýðveldisins var ferðafélagi útrásarvíkinganna, bæði efnislega og andlega. Okkar elskaða handboltalandslið missti heiðurstitilinn, drengirnir okkar, um sinn til útrásarvíkinganna. Svona var þetta, svona er þetta. Við verðum að horfast heiðarlega í augu við okkur sjálf. Annars komumst við aldrei yfir þennan kafla og frá honum í okkar sögu, það er ósköp einfalt mál. Verum stór, verum ekki lítil, viðurkennum mistökin. Þau eru okkar, alveg eins og afrekin sem við státum af á tyllidögum.

Íslensk þjóð hefur sem betur fer svo óendanlega mikið til að vera stolt af. Það gerir okkur ekkert nema gott, og er hollt að játa mistök á þessu skeiði í sögu okkar. Við getum eftir sem áður státað af ævintýralegu uppbyggingarskeiði nær samfellt alla 20. öldina sem reisti Ísland úr öskustó fátæktar og niðurlægingar á síðmiðöldum og til þess að komast í fremstu röð við lok aldarinnar sem leið. Foreldrar okkar, afar okkar og ömmur voru hetjur sem unnu ótrúlegt þrekvirki á æviskeiði sínu. Ísland er fullt af hvunndagshetjum. Þið sem glímið við erfiðleika dagsins, eruð án atvinnu eða verðið að leita tímabundið til hjálparstofnana, þið eruð hetjur. Biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd eru þeim til skammar sem fóru svona með okkur en ekki ykkur sem þar standið. Berum höfuðið hátt. Íslendingar geta það þótt á bátinn hafi gefið. Við gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við sigrumst á þessum erfiðleikum eins og öllum öðrum í okkar sögu.

Ég þakka rannsóknarnefndinni og ekki síður siðfræðihópnum fyrir vel unnin störf. Nú hefst annar kafli og hann er ekki síður mikilvægur, að vinna úr þessum miklu gögnum og gera allt það sem gera þarf og gera verður til að uppgjörið verði heiðarlegt, málefnalegt, yfirvegað — en þó eins vægðarlaust og sársaukafullt og það því miður sýnist þurfa að verða til að standa undir nafni.