138. löggjafarþing — 103. fundur,  12. apr. 2010.

skil á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

[15:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Birting skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fagnaðarefni af ýmsum ástæðum. Eflaust er hún ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk en við eigum ekki að einblína á það núna heldur nýta þetta tækifæri til að læra af reynslunni. Ég held að flestir flokkar, líklega allir, séu sammála um það. Hins vegar varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum með ræður formanna stjórnarflokkanna hérna áðan, annars vegar undarlega söguskýringu forsætisráðherra og hins vegar ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem bar merki þess að þar færi maður sem talaði fyrir flokk sem virðist ætla að byggja pólitíska framtíð sína, ekki á því hver hann er eða hvað hann ætlar að gera, heldur hver hann er ekki og hvað hann hefur ekki gert.

Við þurfum að nota tækifærið núna til þess að fara að horfa til framtíðar en vissulega er alveg rétt að ef menn ætla að horfa til framtíðar og ná árangri til framtíðar þarf að læra af reynslunni. Mikil mistök hafa verið gerð á Íslandi, en það vissum við reyndar fyrir. Við vissum kannski ekki alveg hversu umfangsmikil mistökin hefðu verið en við eigum ekki að láta eins og þetta komi okkur allt saman á óvart. Við verðum þvert á móti að viðurkenna það að margt af þessu var vitað fyrir fram. Stórkostleg óábyrg útþensla bankanna og krosseignatengslin, um þetta var skrifað aftur og aftur og varað við þessu aftur og aftur. Þess vegna verðum við að spyrja okkur: Hvers vegna var ekki brugðist við viðvörununum?

Allir flokkar verða að líta í eigin barm, líka þeir flokkar sem aðhöfðust ekki neitt og ætla núna að byggja fyrst og fremst á því. Framsóknarflokkurinn mun svo sannarlega fara yfir sinn hlut í þessu máli. Ég hef reyndar þegar heyrt í nokkrum framsóknarmönnum sem tala á þeim nótum að þeim sé létt yfir niðurstöðunni, en okkur á ekkert sérstaklega að vera létt. Það á engum að vera létt. Við eigum að skoða þetta allt saman í þaula og halda áfram því uppgjöri sem Framsóknarflokkurinn er kominn lengst allra flokka með. Enginn flokkur í sögu íslenskra stjórnmála hefur farið í eins afdrifaríka og afgerandi endurnýjun og það er mikilvægt að hafa í huga að sú endurnýjun snerist ekki bara um að skipta út mönnum, hún snerist um að skoða stefnuna og viðurkenna það að menn hefðu farið út af sporinu, viðurkenna að menn hefðu sveigt of langt til hægri og viðurkenna að menn þyrftu aftur að ná inn á hinn gullna meðalveg. Einungis þannig komumst við áfram, út úr vandræðunum. Einungis þannig getum við byggt upp til framtíðar.

Þetta þurfa íslenskir stjórnmálaflokkar allir að hafa í huga og hugleiða það hvernig hin ýmsu mistök íslenskra fyrirtækja geta líka átt við í stjórnmálunum, hvernig það er ekki hægt að byggja til framtíðar á loftbólum, hvernig menn þurfa að huga að rökum, raunverulegum staðreyndum, plúsum og mínusum, í stað þess að reyna að kaupa ímynd, reyna að endurfjármagna eins lengi og hægt er í þeirri von að hlutirnir reddist einhvern veginn ef ímyndin bara skánar. Menn þurfa að líta til staðreynda. Ef við gerum það í auknum mæli og beitum fyrir okkur almennri skynsemi eru svo sannarlega mikil tækifæri á Íslandi.

Hvað fór úrskeiðis? Eitt af því sem fór úrskeiðis og er nefnt í skýrslunni var það að á þenslutíma brást ríkið ekki við með því að draga úr þenslunni. Þetta er grundvallaratriði í miðju skynsemishagfræði sem hefur verið þekkt um áratugaskeið. Þessu gleymdu menn. Það þýðir hins vegar ekki að menn eigi að bregðast við því með því að sveiflast yfir í hinar öfgarnar. Og núna er kreppa. Og hvernig á að bregðast við því samkvæmt þessum sömu kenningum og raunar má segja staðreyndum? Það á ekki að bregðast við því með því að hækka skatta út í hið óendanlega, með því að draga saman seglin. Nei, nú þurfum við að sýna að við höfum lært af reynslunni og getum horft líka á hina hliðina. Nú þurfum við að hefja sókn. Þessi skýrsla er tækifærið til þess að þjóðin geti sameinast um það að hefja sóknina og horfa til framtíðar.

Við þurfum líka að leita í auknum mæli til sérfræðinga, þeirra sem þekkja til á hverju sviði. Við sjáum að það hefur allt of oft gleymst í íslenskum stjórnmálum og því miður finnst mér menn enn þá vera fastir í því að fela fyrst og fremst traustum flokksmönnum erfið hlutverk, frekar en að þora að leita til þeirra sem munu segja þeim sannleikann.

Það eru ýmsar hættur fram undan, enda þó að við ætlum að sameinast um að læra af reynslunni og bæta að einhverju leyti eins og hægt er fyrir mistökin. Hætturnar eru kannski ekki hvað síst hugsanlegar innbyrðis deilur því að ef þjóðin festist í endalausum innbyrðis átökum til framtíðar verður skaðinn af því líklega miklu meiri en af efnahagshruninu sjálfu. Þess vegna verðum við að nota þetta tækifæri sem nú gefst til að hefja sókn saman.

Það er líka ákveðin hætta á því að við sveiflumst úr einum öfgunum yfir í aðrar eða að við verðum hnípin, förum að skammast okkar svo fyrir að vera Íslendingar að úr okkur fari allur kraftur. Þetta er raunveruleg hætta og því miður hafa jafnvel ráðherrar í ríkisstjórninni talað þannig, m.a. á blaðamannafundum erlendis, að Íslendingar sem þjóð beri ábyrgð á því hvernig fór, að þetta sé einhvers konar þjóðarskömm. Reyndar er ýmislegt sem íslenska þjóðin getur lært af því sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum. Það verður hver að horfa í eigin barm en það er algjörlega óásættanlegur málflutningur þegar menn halda því fram að íslenskur almenningur, íslenskir kennarar, sjómenn, hjúkrunarfræðingar, beri ábyrgð á því að stórir, erlendir áhættufjárfestar, stórir erlendir bankar, töpuðu hér þúsundum milljarða króna. Að halda því fram að íslenskur almenningur beri meiri ábyrgð á því að þessi fyrirtæki veittu peninga hingað, lán, en starfsmenn þessara banka sem höfðu aðgang að, vel að merkja, stórum hluta þeirra upplýsinga sem birtast í þessari skýrslu voru hámenntaðir doktorar í fjármálaverkfræði og guð má vita hvað en töldu sig geta grætt á Íslandi og lánuðu hingað peninga, til íslensku bankanna sem svo notuðu þá því miður ekki til að byggja upp íslenskt samfélag, heldur lánuðu áfram til annarra áhættufjárfesta sem veltu peningunum síðan áfram til útlanda. Að halda því fram að íslensk þjóð beri ábyrgð á þessu er algjörlega óásættanlegt.

Við verðum líka að setja hlutina í samhengi. Það reyndar þýðir ekki að við séum betri en aðrir en ef við berum stöðuna hér saman við það sem hefur gerst og er enn að gerast víða erlendis, t.d. í City í London eða Wall Street, hvernig er þá sá samanburður? Financial Times fjallar um þetta, þeir benda á að, jú, gírun hafi verið gríðarlega mikil hjá íslenskum bönkum, þ.e. óhófleg lántaka, en hún sé hlutfallslega enn meiri hjá bandarísku bönkunum og krosseignatengslin þar séu alveg gífurleg. Þess vegna eigum við ekki að líta á þetta sem eitthvert séríslenskt vandamál, þetta er vandamál um allan heim, vandamál fjármálakerfis sem fær ekki staðist, og þar höfum við Íslendingar tækifæri til að verða fyrirmynd annarra. Og við erum þegar að verða það með þessari skýrslu sem birtist hér í dag þar sem við, eins og Financial Times bendir á, fyrstir og einir þjóða höfum tekist á við þennan vanda og viðurkennt að þetta kerfi sem fjármálakerfi heimsins hefur byggt á undanfarin ár sé ekki sjálfbært, fái ekki staðist. Og að við ætlum að læra af því. Financial Times segir að Íslendingar hafi þó þetta fram yfir allar aðrar þjóðir.

Ef okkur tekst að læra af mistökunum höfum við tækifæri til að byggja upp sjálfbært hagkerfi sem framleiðir miklu meira en nóg af verðmætum fyrir rúmlega 300.000 íbúa þessa lands og byggja á því samfélag sem getur orðið fyrirmynd annarra samfélaga um allan heim.