138. löggjafarþing — 103. fundur,  12. apr. 2010.

skil á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

[15:58]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Aldrei í sögunni hefur nokkur þjóð beðið af jafnmikilli óþreyju eftir jafnvondum fréttum eins og íslenska þjóðin hefur beðið eftir þeirri skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nú loksins hefur verið afhent þingi og þjóð. Ég hef ekki frekar en aðrir í þessum sal lesið þessa skýrslu, á því hef ég ekki haft nein tök. Hún er á þriðja þúsund blaðsíður að lengd svo ég ætla ekki að fjalla um hana í löngu máli vegna þess að á þessari stundu hef ég ekkert um hana að segja nema það sem almennt er og skiptir engu máli á þessari stundu.

Venjulega er það hlutverk fjölmiðla að skýra þjóðinni frá störfum þingsins. Að þessu sinni ætla ég að snúa dæminu við og segja þinginu frá störfum fjölmiðla. Ég ætla að segja í stuttu máli frá því sem fjölmiðlar hafa verið að fjalla um í morgun. Ég sagði að þjóðin hefði beðið lengi eftir vondum fréttum og vondar fréttir eru ær og kýr fjölmiðla og af vondum fréttum hefur ekki verið neinn skortur það sem af er þessum degi og með leyfi forseta ætla ég að vitna í örfáar fyrirsagnir:

„Skuldaði hálfan milljarð, fór í boðsferð og veiddi lax“, „Exista, Kjalar, Baugur og Jötunn ryksuguðu gjaldeyrismarkaðinn. Orsakaði hrun krónu“, „Ráðherrar og stjórnendur FME og Seðlabanka sýndu af sér vanrækslu“, „Seðlabanki braut eigin reglur“, „SUS: Vissu ekki um tugmilljónastyrk“, „Geir var skíthræddur við Davíð“, „Forsetinn gekk mjög langt — setja þarf siðareglur um forsetaembættið“, „Í golfferð með Glitnisþotu“, „Allsber í World Class þegar Glitnir féll“, „Lán til stjórnmálamanna: Sjö sjálfstæðismenn á topp 10“, „Fyrrverandi ráðherrar, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjórar sakaðir um vanrækslu“.

Svona heldur þetta áfram. Endalausar vísbendingar um siðleysi, heimsku, afglöp, græðgi og valdafíkn. Þessar vísbendingar eru fleiri en tölu verður á komið. Það sem er kannski sorglegast af þessu öllu er að fyrsta niðurstaða fjölmiðlanna er súmmeruð upp í einni frétt og hún er svona, með leyfi forseta:

„Enginn gekkst við ábyrgð. Enginn þeirra sem rannsóknarnefnd Alþingis telur að hafi gerst sekir um vanrækslu í starfi gekkst við ábyrgð sinni í andsvörum sínum til nefndarinnar.“

Enginn. Við þennan lestur á fréttum vefmiðla veit ég ekki hvort maður er nær því að hlæja eða gráta. Samt hef ég aðeins tæpt á fyrstu fréttum af skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Að fjalla um skýrsluna sjálfa er eftir og hún er mun lengri en fréttir dagsins. Hún er álíka löng og allar Íslendingasögurnar samanlagt.

Það er í verkahring okkar sem sitjum á Alþingi að láta þá sæta ábyrgð sem hana eiga að bera, burt séð frá því hvað þeim sjálfum finnst. Það þarf að endurreisa efnahags- og atvinnulífið á heilbrigðum grunni og það sem vandasamara er, það þarf að sýna þjóðinni fram á að við ætlum að búa við réttlæti. Þótt sakamenn flýi úr landi mun réttlætið áfram eiga lögheimili á Íslandi og vera þar að störfum. Hér er verk að vinna og til að vinna það verk þurfum við sterka og samhenta ríkisstjórn. Það er skylda okkar sem hér störfum að sjá landinu fyrir slíkri stjórn.