138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:36]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér er um að ræða afar mikilvæga og brýna umræðu sem við tökum í dag. Fyrirkomulag umræðunnar hefur verið rætt, bæði í forsætisnefnd og eins á fundum með formönnum þingflokka, og engar sérstakar athugasemdir hafa komið fram um fyrirkomulagið. Af hálfu forseta var sagt að umræðan gæti hugsanlega staðið á morgun líka og jafnvel lengur. Ég vil, frú forseti, nefna að þetta hefur verið rætt á vettvangi beggja hópa og færi gefið á því að umræðan gæti staðið lengur en bara í dag, jafnvel á morgun og lengur ef þurfa þykir. Mér finnst rétt að taka það fram í umræðunni. Einnig vil ég nefna hér, frú forseti, að ég tel það skyldu allra þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að vera við þá umræðu sem hér fer fram í dag ef þeir mögulega geta. Þá er enginn flokkur á Alþingi Íslendinga undanskilinn.