138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að við fáum tækifæri til að ræða aðeins sérmálin út frá þessari skýrslu sem komin er út. Það er hins vegar alveg ljóst að þessi umræða, frú forseti, er hvorki upphaf né endir — er a.m.k. ekki endir á umræðunni. Vitanlega var upphafið í gær. Við ætlum ekki að hætta að ræða þessa skýrslu þó að við tölum í dag og á morgun, það er alveg ljóst. Við þurfum að læra af henni, við þurfum að vinna út frá henni. Hún á eftir að koma fyrir í mörgum ræðum það sem af lifir þessu þingi og væntanlega fleiri þingum. Það sem skiptir núna máli er að við kynnum okkur efni hennar og ég veit að fjölmargir þingmenn sitja og eru að lesa eða ætla að fylgjast með umræðum á skrifstofum sínum þar sem þeir eru að fara yfir efni skýrslunnar. Ég veit að þeir ætla að tala á morgun, sumir hverjir, þannig að mér finnst eðlilegt að við byrjum þessa umræðu á þeim nótum sem við enduðum hana á í gær, með almennri yfirferð. Það er alveg ljóst að við höfum ekki getað farið gaumgæfilega yfir skýrsluna enn sem komið er. Við vitum meginniðurstöðurnar og að sjálfsögðu munum við tala út frá þeim.