138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að rannsóknarskýrsla Alþingis er komin fram. Skýrslan er mjög ítarleg og afdráttarlaus, vel unnin og ber að þakka vinnu rannsóknarnefndarinnar og alls starfsfólksins sem kom þar að verki. Það er nú verkefni okkar alþingismanna, stjórnkerfisins í heild, fjölmiðla og raunar þjóðarinnar allrar að draga lærdóm af skýrslunni og vinna að endurreisn fjármálakerfisins og stjórnkerfisins með nýjum og bættum reglum og nýjum siðferðilegum og viðskiptalegum gildum.

Við lestur á skýrslunni rifjaðist upp fyrir mér það sem ég taldi helsta ógn uppeldi barna og íslensku samfélagi fyrir rúmum áratug þegar ég var enn þá skólastjóri. Ég hafði fylgst með því hvernig börn og unglingar voru ár frá ári mannvænlegri, duglegri og áræðnari en börn og unglingar á mínum uppvaxtarárum og einnig á þeim árum þegar ég kom til starfa sem skólastjóri árið 1981. Ég var almennt bjartsýnn fyrir hönd þessa glæsilega hóps og þjóðarinnar í heild á þessum tíma. En það var eitt sem ég hafði verulegar áhyggjur af, vaxandi einstaklingshyggju. Stjórnmálin og umhverfið allt í landinu ól á þessari einstaklingshyggju, gildi breyttust, alið var á því að rétt og eðlilegt væri að gera kröfur sjálfum sér til handa, en minna fór fyrir skyldunum og ábyrgð einstaklingsins sem hluta stærri samfélags.

Í stjórnmálum þess tíma var sú hugmyndafræði ríkjandi, og alið á henni, að hvati, dugnaður og aðgerðir byggðust á einstaklingsframtaki, eigin ávinningi þar sem hagnaðarvon var talin drifkraftur allra góðra verka. Á þessum tíma ræddu menn að fé án hirðis væri til lítils gagns og alls kyns hvata- og bónuskerfi átti að vera forsenda alls góðs. Áhyggjur mínar fólust í því gagnvart nemendum mínum og framtíð þeirra að þeir lærðu ekki að axla ábyrgð og taka samfélagslega ábyrgð. Ég vildi og taldi nauðsynlegt að ala á slíkri samfélagslegri ábyrgð.

Ekki hafði ég það hugmyndaflug þá að á Íslandi næði völdum viðhorf og stefna í anda þessarar frjálshyggju þar sem einstaklingshyggja og lægstu hvatir gróðahyggju yrðu að leiðandi stjórnmálastefnu á Íslandi. Hugtakið frelsi var afbakað, einkaaðilar áttu helst að reka alla þjónustu og voru, án þess að nein bærileg rök væru færð yfir því, taldir ávallt skila betri rekstri en hið opinbera. Hin ósýnilega hönd markaðarins átti að leiða samfélag okkar til betri vegar og í framhaldi kom hugmyndafræði um að láta peningana vinna, binda þá ekki í eignum, skuldsetja sig frekar en að binda fé í fasteignum eða sparnaði. Sveitarfélag átti að selja eignir til rekstrarfélaga eða fasteignafélaga og losa þannig fjármagn. Allt var þetta gert til að auka fjármagn í umferð, breyta eignum í skuldir.

Þessi hugmyndaheimur og hagfræðikenningar leiddu til bankahrunsins. Ríkisstjórn þess tíma fór út í umfangsmikla einkavæðingu, sölu á ríkisfyrirtækjum, og við þá einkavæðingu gilti helmingaskiptaregla þáverandi stjórnarflokka. Óeðlileg pólitísk kunningja- og hagsmunatengsl réðu oft ákvörðunum. Oftrú á markaðslögmálin þar sem markaðurinn var gerður að húsbónda en ekki auðmjúkum þjóni stjórnvalda breytti hér öllu fjármálalegu umhverfi. Allar þessar breytingar höfðu verið gagnrýndar á þessum tíma, m.a. af nýstofnaðri Samfylkingu upp úr aldamótum. Samfylkingin lagði áherslu á samfélagslega ábyrgð, mikilvægi þess að markaðurinn lyti húsbóndavaldi, þ.e. skýru regluverki, og að einkavæða bæri eingöngu þau fyrirtæki sem væru í raunverulegri samkeppni. Á þeim tíma var tillaga Samfylkingar að halda eftir öðrum af stóru bönkunum í ríkiseigu þegar þeir voru seldir, eða afhentir einkavinum, 2002.

Áform um sölu bankanna til almennings og loforð um dreifða eignaraðild breyttust í hugmynd um norrænan kjölfestufjárfesti sem ætti 15–20% hámark og að lokum enduðu áform um að selja fyrst aðeins Landsbankann með valdboði formanna stjórnarflokka þess tíma um helmingaskipti þar sem hvor aðili fékk að ráða sínum banka. Þessari atburðarás er lýst ágætlega í skýrslunni.

Skýrslan dregur enn fremur vel fram hvernig afhending á ríkisbönkunum til lítt reyndra rekstraraðila og viðhorf til eftirlitsstofnana, og regluverks sem átti að vera sem minnst og sem frjálslegast, réð miklu um þá þróun sem leiddi til hrunsins. Nýir eigendur bankanna komu með ný siðferðisviðmið, þar sem allt var leyfilegt, takmarkaða þekkingu og reynslu en með gróðasjónarmiðið sem eina leiðarljósið. Trú þeirra var að hagsmunir hluthafanna væru aðalatriðið sem þýddi í þeirra skilningi hagsmunir þeirra sjálfra sem stærstu eigenda, eigenda sem í krafti eignar sinnar sniðgengu reglur og leiðbeiningar til að ná fram eigin markmiðum.

Ég rek þetta hér því að ég tel augljósa pólitíska ábyrgð stjórnvalda þess tíma á þeirri hugmyndafræði og því regluverki sem hér var sett á laggirnar. Valin var innleiðing tilskipana Evrópusambandsins án allra íslenskra sérreglna og þær í raun rýmkaðar í samræmi við hugmyndafræðina um frelsi og samkeppnishæfi eða eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Í öllum þessum tilvikum voru reglurnar rýmkaðar og athafnafrelsi lánastofnana aukið verulega. Lágmarkskröfur tilskipana Evrópusambandsins um starfsemi lánastofnana fjölluðu ekki beinlínis um þessar auknu starfsheimildir. Íslandi var því ekki skylt vegna EES-samningsins að auka starfsheimildir innlendra lánastofnana á þennan hátt …“

Reglurnar voru innleiddar með hugmyndafræðinni þar sem frelsi var skilgreint sama sem afskiptaleysi, eins og svo vel er að orði komist í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þar sem stjórnarflokkar þess tíma treystu á kunningja og vini sína í viðskiptum og fjármálalífinu í einu og öllu. Þetta pólitíska umhverfi og regluverk afsakar þó í engu þá aðila sem fengu bankana nánast að gjöf, hvernig þeir fóru með þá eign sína, hvernig einstaklings- og gróðahyggjan réð málum eins og áður sagði. Vöxtur og útþensla varð aðalatriðið. Öll samfélagsleg ábyrgð, hvort sem var varðandi verðbólguáhrif, þensluáhrif, áhrif á gengi íslensku krónunnar eða á velferð almennings, vék fyrir hagsmunum eigenda og hagnaðarvon þeirra. Eigendur bankanna skeyttu í engu um stærð þeirra eða möguleika Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eða íslenska ríkisins til að tryggja viðskiptavini þeirra, heldur óðu áfram með eigin hagsmuni eina að leiðarljósi. Skammtímasjónarmið réðu ríkjum og undirstöðuatvinnugreinar viku í umræðunni fyrir fjármálaundrinu íslenska. Forráðamenn, stjórnmálamenn og jafnvel forsetinn mættu í klappliðið fyrir þessu fjármálaundri íslenskra bankavíkinga.

Bankarnir nýttu sér trausta stöðu ríkisins, gott lánshæfismat og orðspor ríkisins til langs tíma til að sækja sér fjármagn til stóraukinna útlána, til almennings til íbúðabygginga, til lána til fyrirtækja, en þó fyrst og fremst til að lána sjálfum sér í eigin uppbyggingu erlendis og hérlendis, til eignarhaldsfélaga og erlendra aðila til brasks með fyrirtæki og fé almennings. Rannsóknarskýrslan vekur athygli á, með leyfi forseta, að stærstu eigendur allra stóru bankanna „hafi fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé“ hjá þeim banka sem þeir áttu og „að því er virðist í krafti eignarhalds síns“ og skulduðu hreint stjarnfræðilegar upphæðir.

Ljóst er af skýrslunni að margt hefur farið úrskeiðis og það er grundvallaratriði að þeir verði látnir svara til saka og sæta ábyrgð sem með vísvitandi misnotkun á bönkunum leiddu okkur í þann vanda sem við erum í. Íslensk stjórnvöld þess tíma kyntu síðan bálið með röngum hagfræðilegum ákvörðunum sem ágætlega er gerð grein fyrir í rannsóknarskýrslunni, ákvörðun um 90% húsnæðislán Íbúðalánasjóðs, skattalækkanir á sama tíma og settar voru í gang stærstu framkvæmdir á lýðveldistíma sem kyntu undir þenslunni og svo virðist sem samfélagið hafi flogið áfram á ljósrauðu draumaskýi gróðavonar og peningahyggju.

Rannsóknarskýrslan rekur vel þennan aðdraganda, þann ofvöxt sem hljóp í bankakerfið eftir einkavæðingu þar sem bankarnir 20-földuðust á sjö árum og þá hvað mest á árunum 2004–2005. Fullyrt er í skýrslunni að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 ef koma hefði átt í veg fyrir fall bankanna. „Inngrip síðar hefði þó getað minnkað skaðann af bankahruninu“ segir í skýrslunni og þar ber Samfylkingin, ráðherrar og þingmenn, að sjálfsögðu sína ábyrgð. Leiddar eru líkur að því að ef harðar hefði verið gripið inn í af eftirlitsstofnunum og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og t.d. gengið fast eftir að svokallaðir Icesave-reikningar hefðu verið færðir til dótturfélaga erlendis í stað þess að vera í útibúum, svo vitnað sé í skýrsluna, hefði mátt minnka tjónið. Samfylkingin hefur ítrekað beðist afsökunar á mistökum sínum á þessum tíma og við þingmenn berum okkar ábyrgð á sofandahætti og ofmati á skýrslum og yfirlýsingum frá bönkunum sjálfum og frá þar til bærum stofnunum, svo sem Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.

Rannsóknarskýrslan er áfellisdómur yfir eigendum bankanna og hagstjórn íslenska ríkisins á árunum frá einkavæðingu fram til hrunsins. En skýrslan er líka alvarleg áminning um vanrækslu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Neikvætt viðhorf til eftirlits almennt réð þar miklu. Hugmyndafræðin um að markaðurinn sæi um þetta sem og eigendur fjármagnsins og hluthafar réð ríkjum. Seðlabankinn er í skýrslunni harðlega gagnrýndur fyrir hagstjórnina, fjölmörg atriði eru tilgreind og m.a. er sagt, með leyfi forseta:

„Stefna Seðlabankans var heldur ekki nægjanlega aðhaldssöm og aðgerðir of takmarkaðar til þess að skila árangri í baráttunni við vaxandi skuldsetningu og undirliggjandi verðbólgu.“

Í skýrslunni er enn fremur minnt á hve óheppilegt var að umdeildur stjórnmálamaður skyldi ráða ríkjum í Seðlabankanum þegar mest reið á þar sem tortryggni og persónuleg afstaða réð meiru en fagleg stjórnun og vönduð ákvarðanataka. Í skýrslunni er einnig hörð gagnrýni á stjórnsýsluna í heild, regluverkið, siðferðileg atriði o.fl. þar sem ráðherraræði, óklárar boðleiðir og slök skilgreining ábyrgðar þvælast fyrir. Lítið virðist um skráningu fundargerða og skýra ákvarðanatöku. Svo virðist sem sumum, jafnvel ráðherrum, hafi verið haldið utan við upplýsingagjöf eða ákvarðanatöku, óformlegir fundir haldnir á einkaheimilum þar sem ákvarðanir voru jafnvel teknar en ekki skráðar. Allar þessar upplýsingar í skýrslunni gefa tilefni til gagngerrar endurskoðunar á stjórnkerfinu með aukinn aga og betra skipulag að leiðarljósi.

Ég hef aðeins nefnt fáein atriði sem fram koma í þessari skýrslu. Ég hef eins og margir aðrir aðeins náð að lesa lítinn hluta af þessu gríðarlega umfangsmikla verki. Umfjöllun um skýrsluna er rétt að hefjast. Skýrslan dregur fram ótrúlega mynd af fjármálalífi, stjórnmálum og stjórnkerfi síðasta áratugar og verður að kalla fram vandaða og ítarlega umfjöllun um einkavæðinguna, helmingaskipti fyrrverandi stjórnarflokka sem stýrðu saman um langt árabil, og ranga hagstjórn, ótrúlega siðblinda hegðun eigenda og stjórnenda bankanna. Því þarf að fara í gegnum allt lagalega umhverfið, endurskilgreina siðferðileg viðmið og herða á reglum um tengsl stjórnmála- og fjármálalífs. Í skýrslunni er tekið á mörgum af þessum atriðum og lærdómur dreginn af því fyrir okkar hönd og það þurfum við að skoða vel.

Öll spyrjum við: Hvernig gat þetta allt saman gerst? Hver brást á vaktinni? Samfylkingin mun af fullum heilindum taka þátt í skoðun á þeirri gagnrýni sem fram kemur í skýrslunni, leggja mat á efnisatriði og draga nauðsynlegan lærdóm þar af. Það er skylda allra stjórnmálaflokka, allra alþingismanna, að taka af festu á þeim atriðum sem lagfæra þarf. Vonandi næst samstaða um hvað gera þarf. Sú samstaða getur þó aldrei orðið um að endurreisa hér frjálst og einkarekið fjármálakerfi sem lýtur eigin lögmálum. Samstaðan getur aðeins náðst ef Alþingi sameinast um að endurskoða og endurbæta alla þá þætti sem gagnrýndir hafa verið, hvort sem þeir varða siðferðileg viðmið og grundvallarhugmyndafræði, lagalegt umhverfi fjármálalífsins og bankanna, stjórnsýsluna í heild, þar með talið ráðherraræði, og bæði Fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Endurskoða þarf verkaskiptingu og ábyrgð, boðleiðir og samskipti sem og tengsl atvinnu- og fjármálalífs við stjórnmálamenn.

Samfylkingin hefur frá upphafi barist fyrir réttlæti, jafnrétti og gegnsæi í stjórnarháttum og lýðræðislegri umfjöllun við afgreiðslu mála. Þessi gildi mega ekki týnast í umræðunni. Á þessi gildi féll ryk í stjórnarsamstarfinu á árunum 2007–2008. Því skal heitið að þessum gildum verður haldið á lofti að nýju í endurreisninni af okkar fólki í þeirri þingnefnd sem nú tekur skýrsluna til sérstakrar skoðunar en einnig af okkur hinum sem vinnum að lagasetningu og bættri stjórnsýslu. Mikið hefur þegar áunnist og margar mikilvægar úrbætur eru í umfjöllun í nefndum þingsins en meira þarf til.

Rannsóknarskýrslan er gott veganesti í vandaða umfjöllun. Fram undan er uppgjör en fyrst og fremst vinna við endursköpun íslensks samfélags. Íslenskt samfélag hefur ótrúlega marga styrkleika og mun verða endurreist á næstu mánuðum með nýju regluverki og nýjum siðferðilegum gildum, vonandi í góðri sátt alls þingheims undir öruggri stjórn núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórninni er stjórnað af konu sem er þekkt fyrir baráttu gegn spillingu, baráttu fyrir réttlæti og lýðræði, konu sem hefur um árabil varað við samþjöppun á eignarhaldi bankanna, skertu regluverki í fjármálalífinu og ofþenslu í kerfinu. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ávallt talað fyrir gegnsæi og lýðræði og undir hennar stjórn þarf að leiða Alþingi, stjórnsýsluna og þjóðina inn á heilbrigðara umhverfi atvinnulífs og fjármálalífs. Öllum þessum markmiðum deilir Samfylkingin með samstarfsflokknum Vinstri grænum og ég trúi ekki öðru en að aðrir stjórnmálaflokkar fylki sér á bak við endurreisn íslensks samfélags í þessum anda.

Þá er ekki til einskis þessi rannsóknarskýrsla og sú gagnrýni sem réttilega er sett fram í henni.