138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir andsvarið. Varðandi hvort gengið hefði verið langt í einkavæðingunni tel ég að svo hafi verið. Ég get nefnt nokkur dæmi. Í fyrsta lagi held ég að menn hefðu aldrei átt að láta báða bankana frá sér á einu bretti. Það voru tvær leiðir, önnur var að halda öðrum eftir einfaldlega vegna þess að ýmis sjónarmið sem réðu við bankareksturinn fyrir einkavæðingu, m.a. það að við bankareksturinn þyrfti að gæta að verðbólgumarkmiðum og hagsmunum þjóðfélagsins í heild, viku þegar einkavæðingin tók við. Ef ríkið hefði átt annan bankann hefði það getað skapað eðlileg viðmið og verið hindrun gegn því að menn keyrðu úr hófi fram, a.m.k. var þá banki á boðstólum til hliðar við hinn bankann hvað það varðar.

Ég sat í bankaráði á þessum tíma þó að ég hafi ekki komið að sölunni vegna þess að það var ríkisstjórnin sem seldi bankana, en ég þekki atburðarásina mjög vel. Hin leiðin hefði verið sú sem víða var farin og ýmsir vöktu athygli á: Af hverju áttum við ekki 30% í báðum bönkunum, jafnvel þó að það væri víkjandi hlutur sem menn létu vera óvirkan en við gætum þá alltaf gripið inn í ef á þyrfti að halda? Við hefðum betur haft þau úrræði þegar seinna kom til þess að veita eðlilegt aðhald og eftirlit með þeim bönkum sem hér störfuðu.

Önnur dæmi um mistök í einkavæðingu er grunnnetið, sem ég held að hafi verið mistök að hafa einkavætt á sínum tíma. Við áttum að halda lagnaleiðunum út af fyrir sig og hafa samkeppnina í sölu á því neti. Við getum líka skoðað það form sem ég nefndi sem er að telja sér trú um að losa alltaf eignir, búa til eignarhaldsfélög og nota peningana til rekstrar. Þar höfum við gengið of langt. Þar höfum við ekki sparað.

Varðandi Evrópusambandið hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé eitt af verkfærum okkar. Það er ekki það sem við ætlum að ganga undir og gefast upp fyrir. Við getum aðlagað ýmislegt að okkar reglum. Það hefur sýnt sig og kom m.a. í ljós varðandi hvernig við höguðum raforkusölukerfinu á sínum tíma að það hefði mátt gera með öðrum hætti. Fyrrverandi þingmaður, Björn Bjarnason, vakti einmitt athygli á því eftir að (Forseti hringir.) hafa verið í Brussel að það hefði verið byggt á misskilningi að við þyrftum að innleiða það kerfi með þeim hætti sem við gerðum.