138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson séum sammála um að regluverkið hefði þurft að vera skýrara og við getum líka verið sammála um að eftirlitinu var ábótavant. Ég kom ágætlega að því í mínu máli, eða vakti athygli á því, að bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hefðu ekki sinnt sínu eftirlitshlutverki sem skyldi enda kemur það mjög skýrt fram í skýrslunni. Ég ætla svo sem ekki að segja að það sem ég fer með hér sé það eina rétta. Þetta er innlegg í umræðuna og það er það sem þarf að eiga sér stað í framhaldinu, þ.e. umræða um með hvaða hætti við ætlum að endurreisa Ísland, hvernig við ætlum að taka á þeim vanda sem hér kom upp, hvernig við ætlum að bregðast við og hvernig við ætlum að stilla upp að nýju.

Eitt af því sem kemur mjög skýrt fram í skýrslunni er að þrátt fyrir lög og reglur hefur ríkt agaleysi og menn hafa sniðgengið þessi lög og þessar reglur, jafnvel vinnureglur bankanna eða jafnvel hreinlega regluverk sem var fullkomlega sniðgengið af þeirra eigendum eða þeirra stjórnendum. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál og ég tek undir með hv. þingmanni að ég var alls ekki að hvítþvo þá sem stýrðu bönkunum, þvert á móti. (Forseti hringir.) Ég sagði að þrátt fyrir allt þetta umhverfi bæru þeir gríðarlega ábyrgð.