138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef dálitlar áhyggjur af því að þrátt fyrir samtakamátt, ef svo má segja, í yfirlýsingum um að nú eigi allir að koma upp úr skotgröfunum og nota tækifærið til þess að læra af reynslunni sé einn flokkur í þinginu dálítið fastur í gömlum ósiðum, noti spuna, reyni að stýra umræðunni og ætli ekki að takast á við það sem flokkurinn hefur sjálfur gert heldur fá aðra upp úr skotgröfunum svo að hann geti skotið á þá. Mér fannst of mikið af því í ræðu hv. þingmanns að reynt væri að bjaga hlutina, því að eitt af því sem uppgötvaðist í 16 mánaða rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis var að Samfylkingin var víst í ríkisstjórn í aðdraganda efnahagshrunsins. Það hefur eiginlega verið þrætt fyrir þetta dálítið lengi, menn hafa alla vega ekki munað eftir þessu en þetta rifjaðist upp við rannsóknina. Það rifjaðist líka upp að líklega hefur enginn flokkur, jafnvel að Sjálfstæðisflokknum meðtöldum en hann hefur mikið verið ræddur í þessu sambandi, staðið jafndyggilega vörð um útrásina, útrásarfyrirtækin og útrásarvíkingana og Samfylkingin. Þess vegna finnst mér skorta örlítið á að menn séu tilbúnir að horfa í eigin barm.

Lítum t.d. á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar sú ríkisstjórn var mynduð. Þar segir m.a.:

„Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.“

Um skattamálin segir:

„Á kjörtímabilinu verður leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki.“ (Forseti hringir.)

Svo koma fulltrúar þess flokks hingað og virðast ætla að kenna öllum öðrum um. Það er enginn saklaus og menn verða allir (Forseti hringir.) að horfa í eigin barm en þeir verða þá líka að vera tilbúnir að taka þátt í að ríða á vaðið með slíkar yfirlýsingar.