138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er óþarfi að taka þessu illa. Þetta snýst bara um það grundvallaratriði að menn séu tilbúnir að skoða allt tímabilið, sama hversu mörg ár aftur í tímann menn telja að aðdragandi hrunsins nái, en vilji ekki eingöngu einblína á eitthvað í margra ára fjarlægð eins og hefur því miður verið hér undanfarna mánuði. Þegar menn vilja eingöngu ræða einkavæðingu bankanna, þar sem framsóknarmenn gangast sannarlega við því að mistök hafi verið gerð og hafa heldur betur gert upp þau mál, þá gleymist til að mynda hvenær Glitnir var einkavæddur, bankinn sem féll fyrst. Hvernig var ástandið í Glitni? Var það miklu betra? Nei. Getur ekki verið að með því að einblína á einkavæðingu hinna bankanna sé verið að komast hjá því að líta á raunverulega rót vandans? Er ekki stóra hættan fólgin í því ef við reynum að finna tilefni til þess að kenna hinum eða þessum um (Forseti hringir.) og komast hjá því að líta á hina eiginlegu rót vandans?