138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi hvort eitthvað hafi breyst þá held ég að það sé hárrétt sem kannski liggur undir spurningunni hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að það hefur ekki nægilega mikið breyst. Þó skal tekið fram að í þeirri uppstokkun sem hér átti sér stað, þar sem við nánast í nauðung áttum ekki bankana, þeir voru einfaldlega eign annarra og voru endurreistir af þeim sem áttu þá, héldum við eftir Landsbanka Íslands. Hann er í okkar eigu og það hefur verið gefin yfirlýsing um að þannig verði það um ókomna framtíð, a.m.k. á meðan við náum að endurreisa okkar kerfi. Það skiptir mjög miklu máli í þeirri endurreisn, samanber það sem ég hef sagt áður.

Varðandi afstöðuna til Jóhönnu Sigurðardóttur þá nefndi ég hana sérstaklega vegna þess að ég held að það sé óumdeilt að þar fari einn sá stjórnmálaleiðtogi sem hefur hvað harðast barist fyrir réttlæti í þessu samfélagi og er hvergi tengdur því hruni sem hér átti sér stað, öðruvísi en að hún hefur verið í ríkisstjórn og þingmaður allan þennan tíma og núna síðast í ríkisstjórn frá 2007. Það er alveg hárrétt að það á eftir að takast á um gagnsæi í mörgum atriðum, varðandi hvað má birta og hvað ekki og hvenær. Þar höfum við lent í því, eins og við upplifðum náttúrlega mjög vel í Icesave-málinu, að ítrekað eru settar á okkur kröfur af þeim aðilum sem við erum að semja við um að leynd sé haldið á ákveðnum gögnum, að þau séu ekki birt strax eða að fyrst þurfi að vera stjórnarfundur áður en gögnin eru birt. Oftar en ekki höfum við brotið þær reglur og leyft okkur að birta gögnin eftir sem áður. Ég get ekki svarað fyrir það sem varðar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þessu tilfelli — ég var ekki þegar sú umfjöllun átti sér stað — en við í fjárlaganefndinni höfum ákveðið að kalla eftir þessum upplýsingum og munum auðvitað ganga eftir því að fá að fylgjast með og vita hverju er unnið að á þeim vettvangi.

Varðandi aðra þætti sem voru nefndir, skattalagabreytinguna og Seðlabanka Íslands, hefði verið forvitnilegt að heyra hvort það sé mat hv. þingmanns að engin ástæða hafi verið (Forseti hringir.) til að breyta í Seðlabankanum.