138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi einkavæðinguna er í sjálfu sér fróðlegt að heyra að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að hún sé góð og besta leiðin áfram. Það er mat hv. þingmanns en við erum ekki sammála um það. Það verður þá hluti af því sem við þurfum að ræða þegar við gerum uppgjör á því hvað gerðist, hvaða leiðir eru bestar og hvaða regluverk á þá að gilda. Það hefur verið gerð tilraun til þess í þeirri einkavæðingu sem átt hefur sér stað síðan, eins og hv. þingmaður kallar það þegar bankarnir voru yfirteknir af þeim sem áttu þá í raun, sem voru kröfuhafarnir. (Gripið fram í.) Þegar við tölum um þessa banka þá voru það þeir sem hv. þingmaður vitnaði í. Þar settum við upp regluverk eins og Bankasýsluna til þess að koma þessu armlengd frá stjórnmálamönnunum til þess að hindra að menn geti stjórnað með því foringjaræði sem var áður. Hvort það dugir skulum við skoða í framhaldi af þessari skýrslu sem hér kom fram með heiðarlegri umræðu og gagnrýninni. Ég get þó ekki sagt að við ætlum að gera það með því að nálgast þetta allt upp á nýtt með sama hætti og var áður og treysta því að regluverkið eitt muni leiða til þess að (Forseti hringir.) betur verði gert í seinni lotunni. Við þurfum breytt viðhorf.