138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna þeim góðu viðbrögðum sem skýrslan um hrun bankakerfisins hefur fengið á undanförnum sólarhring. Það var alls ekki sjálfgefið að svo væri. Ísland tekur á vandasömum, viðkvæmum og umdeildum málum og svo sannarlega er hún ekki yfir gagnrýni hafin. Hún er vitaskuld enginn dómur, eins og skýrsluhöfundar hafa rækilega áréttað, og er þess vegna umræðugrundvöllur sem við getum hvert og eitt tekið afstöðu til. Skýrsluhöfundum og öðrum þeim sem stóðu að henni ber að þakka fyrir þetta mikilsverða framlag.

Nánast frá fyrsta degi bankahrunsins var farið að hyggja að því hvernig best væri að bregðast við til að varpa ljósi á hina alvarlegu atburði. Geir H. Haarde, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, varpaði fram þeirri hugmynd að skrifuð yrði eins konar hvítbók um málið til að draga fram megindrætti þess. Niðurstaðan var, og um hana var þverpólitísk samstaða, að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd og ætla henni mikið svigrúm til að vinna það mikla verk sem nú lítur dagsins ljós. Þetta var gert á grundvelli laga sem byggðust á frumvarpi sem þáverandi forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, var 1. flutningsmaður að og flutti ásamt formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Þetta er nauðsynlegt að undirstrika að um þessa málsmeðferð, nákvæmlega þessa málsmeðferð, var þverpólitísk sátt á Alþingi. Um líkt leyti lagði þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, fram frumvarp sitt um stofnun embætti sérstaks saksóknara. Á þeim tíma sá enginn fyrir hið gríðarlega umfang sakamála sem upp mundi koma í kjölfar bankahrunsins.

Í upphafi málsins var ráðgert að kostnaður við embættið gæti numið árlega um 300 millj. kr. Var gagnrýnt á þeim tíma að svo miklu fé væri ætlað að verja til þessa embættis á sama tíma og draga þyrfti saman seglin í viðkvæmum málaflokkum í fjárlögum. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að hér var síst í of lagt. Sú þróun sem síðan hefur verið, ráðning Evu Joly og fjölgun saksóknara er rökrétt framhald af þeim málatilbúnaði sem til var stofnað strax á haustdögum 2008 í kjölfar bankahrunsins og sýnir að þáverandi ríkisstjórn og Alþingi var mjög í mun að varpa sem gleggstu ljósi á allt málið og draga hvergi undan. Það er rétt sem bent hefur verið á að mjög miklu varðar hvernig við vinnum okkur áfram úr þeim málum sem þessi mikla skýrsla leggur fyrir okkur. Sú vinna er okkur sem á Alþingi sitjum mikil áskorun.

Efni skýrslunnar hlýtur að vekja upp reiði og mikil sárindi og það er ekkert óeðlilegt við það. Sú reiði er réttlát í ljósi þeirra grafalvarlegu upplýsinga sem hin mikla skýrsla hefur að geyma. Það ærir og særir réttlætiskennd venjulegs fólks, eins og góður vinur minn og samverkamaður, Einar Oddur Kristjánsson, orðaði það gjarnan, það ærir og særir að sjá hvernig eigendur bankanna hafa misnotað þá. Hvernig óráðsía og ábyrgðarleysi hefur leikið þjóðfélag okkar grátt fyrir tilverknað ábyrgðarlausra einstaklinga sem hafa varpað öllum eðlilegum siðferðilegum viðmiðum fyrir róða.

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að við reynum að draga rökrétta lærdóma af efni þessarar skýrslu. Það má ekki gefa sér niðurstöðurnar fyrir fram eins og hefur örlað á. Í skýrslunni er ekki verið að vísa markaðsbúskapnum á bug eins og ætla hefur mátt á umfjöllun sumra. Það er hvergi vikið að neinu slíku í þessari skýrslu eins og ég hef lesið. Það sem áhersla er hins vegar lögð á er að eftirlit sé nægjanlega öflugt, leikreglurnar séu skýrar, sanngjarnar og þær setji atvinnulífinu eðlilegar skorður. Undir það sjónarmið hljótum við að taka og fara rækilega yfir ábendingar sem fram koma og styðja þá viðleitni.

Það er augljóst og þarf ekkert um að þræta að það fór mjög margt úrskeiðis hjá okkur og rétt eins og í skýrslunni segir felst meginskýringin á falli bankakerfisins í örum vexti þess og ofurstærð miðað við stærð hagkerfis okkar. Ábyrgðin í þessum efnum hlýtur að liggja hjá gerendunum sjálfum, stjórnendum og eigendum bankanna sem höfðu það að yfirlýstu markmiði sínu að stækka efnahagsreikninginn. Ábyrgð þeirra einstaklinga sem höfðu stjórn bankanna með höndum verður aldrei hægt að varpa af herðum þeirra sem þessar ákvarðanir tóku. Veit ég vel að slíkt reyna menn hins vegar oft að gera. Menn kenna eftirlitskerfinu um þegar þeir fara ekki sjálfir fram af nægjanlegri ábyrgð.

Þá er fróðlegt að rifja það upp að engir stjórnmálaflokkar höfðu það á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar 2007 að takmarka umsvif bankanna. Frá því á síðari hluta árs 2007 var það hins vegar yfirlýstur vilji stjórnvalda að bankarnir drægju úr starfsemi sinni, seldu eignir og minnkuðu efnahagsreikning sinn, samanber skýrslu finnska bankasérfræðingsins Kaarlos Jännäris sem ríkisstjórnin kallaði sér til ráðgjafar. Fram hefur komið að forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hafi öll lagt á þetta áherslu í samtölum við forsvarsmenn fjármálafyrirtækjanna og vera má að slíkar fortölur hafi haft áhrif á að íslenska fjármálakerfið dróst saman um 7% í evrum talið og ekki varð úr áformum bankanna um frekari stækkun. Hitt er jafnljóst að nauðsynlegt hefði verið að bankarnir minnkuðu umsvif sín bæði hraðar og meir, eins og allir sjá núna.

Það er hrollvekjandi að lesa hvernig tilteknir eigendur bankanna hafa beitt eigandavaldi sínu af ótrúlegri óskammfeilni til að ryksuga til sín fjármuni úr bönkunum og það jafnvel án þess að gerð væri krafa um eðlileg veð. Almennum viðskiptavinum var gert að leggja fram ýtrustu veðtryggingar en það var ekki látið gilda um þá sem mestu umsvifin höfðu. Stærstu eigendurnir virðast hafa litið á bankana sem prívatsparibauka sem eðlilegt væri að nota til að fjármagna kaup og yfirtökur á fyrirtækjum og eignum út um allar þorpagrundir. Það eru engar eðlilegar viðskiptalegar skýringar á því að þegar einstakir fjárfestar komu höndum yfir bankana ruku upp útlánin úr sömu bönkum til fyrirtækja þeirra. Það er t.d. ein af hinum ótrúlegu frásögnum úr skýrslunni að einn og sami aðilinn, fyrirtæki Baugs, skuli hafa verið með lán hjá stóru viðskiptabönkunum sem svarar 53% af eiginfjárgrunni þeirra. Og þegar sérstaklega er skoðaður banki sem fyrirtækjasamsteypa réð voru þessar tölur um tveir þriðju af eiginfjárgrunninum og nær 90% þegar við er bætt lánum til nánasta viðskiptafélagsins. Þetta sýnir okkur að nauðsynlegt hefði verið að gera ríkari kröfur um dreifingu eignaraðildar. Því miður féllu menn frá slíkum kröfum við einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka. Það voru mistök. En það hefði þó ekki breytt stöðunni vegna Glitnis eða Íslandsbanka sem hafði orðið til mun fyrr við sameiningu og sölu. Krafan um dreifingu eignarhalds hefði þó stuðlað að minni áhættu eins og við sjáum.

Í ljósi þessa vekur það furðu að menn virðast ekki ætla að læra af reynslunni. Nú er búið að ganga frá sölu eða yfirtöku lánardrottna á Íslandsbanka og Arion banka. Engin veit í dag hverjir hinir nýju eigendur eru. Hversu dreift er eignarhaldið? Eru þar á ferðinni einhverjir kjölfestufjárfestar sem mögulega geta leikið sama leikinn og iðkaður var við bankana á útrásartímanum? Hvers vegna í ósköpunum þverskallast núverandi stjórnvöld við því að upplýsa um þessi mál þrátt fyrir þrábeiðni þingmanna og fleiri aðila um þær upplýsingar. Hér er þó hægt að sýna svart á hvítu viljann til að draga lærdóm af því sem fór úrskeiðis og allir virðast vera sammála um.

Eitt af því sem er gagnrýnt í skýrslunni er að ekki hafi verið nægilegt aðhald í ríkisbúskap og peningamálum okkar á þeim þenslutímum sem fjallað er um. Þar er sitthvað nefnt. Kárahnjúkavirkjun, skattalækkanir og aukin sókn Íbúðalánasjóðs inn á íbúðamarkaðinn auk þess sem Seðlabankinn hefði átt að halda uppi hærra vaxtastigi í aðhaldsskyni. Um þetta má sitthvað segja. Gleymum því ekki að ávinningur ríkissjóðs af auknum umsvifum í efnahagslífinu var notaður til að borga niður ríkisskuldir á þessum tíma, þar með talið lífeyrisskuldbindingar ríkisins. Mig rekur ekki minni til að á þessum tíma hafi verið mikil krafa uppi hér á Alþingi um hærra aðhaldsstig í ríkisfjármálum. Þeir sem mótmæltu skattalækkunum, sem var mikill minni hluti þingmanna, gerðu það til að skapa svigrúm til frekari útgjalda ríkisins. Almenn krafa var uppi a.m.k. hjá fjórum af fimm stjórnmálaflokkum um skattalækkanir en ágreiningur var um útfærslur. Varðandi íbúðalánin er það rétt að þar var mjög óvarlega farið og við sjálfstæðismenn vöruðum við því. Á þeim tíma var hins vegar alveg klár meiri hluti fyrir því á Alþingi að auka útlánaheimildir sjóðsins og sú gagnrýni sem kom fram á þeim tíma m.a. frá flokki hæstv. forsætisráðherra og ekki síst frá hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sjálfri laut fremur að því að auka þær heimildir. Jafnvel svo seint sem um mitt ár 2008 var ákveðið að tillögu þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, að hækka hámarkslán og miða við kaupverð eigna en ekki brunabótamat til að stuðla að hærri lánum frá sjóðnum.

Ég setti á þessum tíma fram beinharða tillögu um aðhaldsaðgerðir í húsnæðismálum sem fengu mjög neikvæðar viðtökur bæði innan þáverandi samstarfsflokks okkar sjálfstæðismanna, Framsóknarflokksins, og stjórnarandstöðunnar sem þá var sem sýnir að í raun var ekki mikill hljómgrunnur fyrir aðhaldsaðgerðir á þessum sviðum.

Varðandi Kárahnjúka er alveg ljóst að efnahagsleg áhrif þeirrar framkvæmdar á þeim tíma voru mjög lítil í samanburði við þá miklu fjármuni sem streymdu inn í landið vegna hins háa vaxtastigs í landinu í samanburði við útlönd. Kárahnjúkaframkvæmdirnar og meðfylgjandi stóriðja gagnast okkur nú gríðarlega við gjaldeyrisöflun og tekjuöflun fyrir þjóðarbúið. En þessi samanburður stóriðjuáhrifanna og fjárstreymis frá útlöndum af öðrum orsökum varpa líka ljósi á þann vanda sem við er að glíma við peningamálastjórn okkar þegar fjármagnsflæði er óheft á milli landa eins og Evrópusambandsreglurnar gera ráð fyrir og hefur verið við lýði hér frá því að við gerðumst aðilar að EES. Það var einmitt hið háa vaxtastig sem laðaði hingað erlent fé, sem aftur á móti styrkti svo gengið og bjó til falskan veruleika í efnahagslífi okkar.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er að því fundið að ekki hafi verið nægjanleg formfesta varðandi undirbúning ýmissa aðgerða sem grípa þurfti til. Það er mikilvægt að við förum rækilega yfir þessar ábendingar og reynum að bæta þar úr. En jafnvel þótt þar hefði enginn pottur verið brotinn olli það ekki bankakreppunni. Á því er hins vegar nauðsynlegt að vekja athygli að eftir hina svokölluðu „míníkreppu“, sem svo er kölluð og skall á okkur árið 2006, var settur á laggirnar sérstakur samráðshópur forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytis auk Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Þarna má segja að formgert hafi verið það nauðsynlega samráð sem þessir aðilar þurfa að hafa sín á milli. Þessi samráðsvettvangur tryggði að þau ráðuneyti og þær eftirlitsstofnanir sem málið varðar fyrst og fremst hafi fengið möguleika á að bera sama bækur sínar og upplýsa. Það verður þess vegna ekki annað sagt en að þar með hefði átt að vera tryggt að þau stjórnvöld sem í hlut eiga hafi haft sambærilega möguleika á upplýsingum rétt eins og eðlilegt er.

Til viðbótar við þetta fóru fram fundir forustumanna ríkisstjórnarinnar með til að mynda Seðlabankanum og þar voru viðstaddir aðrir ráðherrar sem forustumenn stjórnarflokkanna kusu að kalla til. Þetta er samkvæmt áratugavenju helguðu fyrirkomulagi alveg eins og rakið er í skýrslunni.

Árið 2008 fór fram margháttuð viðleitni af hálfu stjórnvalda til að bregðast við þeim lausafjárvanda sem herjaði á bankakerfi okkar eins og rakið er rækilega í svarbréfi þáverandi hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes til rannsóknarnefndarinnar og er birt í fylgigögnum nefndarinnar. Þar kemur glöggt fram að mjög var reynt að bregðast við þeim vanda sem við var að glíma og þess vegna er alls ekki rétt né sanngjarnt að tala um vanrækslu af hálfu stjórnvalda í þessum efnum. Nær sanni er sennilega það sem Geir H. Haarde, þáverandi hæstv. forsætisráðherra hefur sagt um þessi mál að á þeim tíma var líklega verið að reyna hið ómögulega. Vandi bankanna var greinilega orðinn nánast óviðráðanlegur. Þar spilar ekki síst inn í að útlán bankanna voru í ótrúlega mörgum tilvikum afar hæpin, rétt eins og skýrslan sýnir okkur fram á, og þess vegna varð ekki við neitt ráðið. En það er athyglisvert að alveg fram á haustið 2008 bentu athuganir matsfyrirtækja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og síðast en ekki síst endurskoðuð ársuppgjör uppáskrifuð af hinum virtustu endurskoðunarfyrirtækjum til þess að staða bankanna væri allt önnur og betri en raun hefur borið vitni um síðar. Þetta er grafalvarlegt og slævði auðvitað nauðsynlega árvekni og eftirlit m.a. okkar sem fjær stóðum, þar með talið á Alþingi. Hvernig stóð t.d. á því að ekki lá fyrir í úttektum og ársreikningum að umtalsverður hluti eigin fjár bankanna var uppblásinn af hlutafjárkaupum í þeim og með lánveitingum frá þeim sjálfum? Þetta skapaði auðvitað áhættu og skekkti hina raunverulegu mynd.

Virðulegi forseti. Jafnuppbyggileg og yfirgripsmikil sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar er er hún dapurlegur lestur. En fyrst og fremst er hún lexía, lexía sem við þurfum að læra af. Við þurfum að kalla til ábyrgðar þá sem ábyrgðina bera. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki víkja sér undan slíkri ábyrgð á því sem honum ber. En um leið og við notum skýrsluna til að gera upp við fortíðina og læra af henni þurfum við að nýta okkur efni hennar til uppbyggingar okkar og beina réttlátri reiði samfélagsins í jákvæðan farveg til heilla fyrir framtíðina og okkur öll.