138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er þungur áfellisdómur yfir bönkum og viðskiptalífi, stjórnsýslu og pólitískri hugmyndafræði sem birtist þjóðinni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna haustið 2008. Þjóðin hefur öll beðið eftir niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar um nokkurt skeið og nú loks höfum við í höndum niðurstöðurnar í yfirgripsmiklum bókum. Skýrslan varpar ljósi á margvísleg afglöp í íslensku efnahags- og stjórnmálalífi um langt árabil sem áttu öll sinn þátt í hversu illa er komið fyrir íslensku efnahagslífi. Bólan sem sýndarhagkerfið bjó til á endanum sprakk og því miður var gervallt efnahagslíf okkar orðið afar háð þessu sýndarhagkerfi. Það útskýrir að hluta til vanda okkar núna.

Við alþingismenn og Íslendingar allir verðum að taka niðurstöður skýrslunnar alvarlega, horfast í augu við hinar raunverulegu orsakir og afleiðingar og leggja okkur fram um að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem við blasa af heiðarleika og auðmýkt, læra af þeim afdrifaríku mistökum sem gerð hafa verið og hverfa frá þeirri auðhyggju og afskiptaleysi um almannahagsmuni sem illu heilli var leiðarljós íslenskra stjórnmála um langt árabil.

Bankarnir sjálfir fóru offari í taumlausri eftirspurn eftir vexti á vöxt ofan og eins og rannsóknarnefndin bendir á fóru eigendur þeirra í raun ránshendi um fjárhirslur bankanna rétt eins og það væru þeirra eigin fjármunir sem þar var að finna þegar reyndin er sú að allur almenningur sem hefur treyst fjármálastofnunum fyrir sparifé sínu var hinn raunverulegi eigandi.

Rætur þessarar þróunar liggja víða og á þeim stutta tíma sem liðinn er frá útkomu skýrslunnar hefur ekki gefist ráðrúm til að greina það allt. Einkavæðing bankanna og sú pólitíska stefnumörkun sem var tekin þar um var augljóslega vanhugsuð og byggð á pólitískum kennisetningum fremur en umhyggju fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Ákvörðun um helmingaskipti stjórnmálaflokka á ríkisbönkunum á þannig bersýnilega sinn ríka þátt í hvernig fór.

Í ofanálag hefur eignarhald bankanna færst á æ færri hendur og taumlaus græðgi sem eigendurnir voru haldnir leitt til þess að þeir tóku á vissan hátt völdin og hömlulaus áhættusækni hélt innreið sína, m.a. í gegnum óhóflegt kaupauka- og kaupréttarkerfi.

Ákvörðunin um einkavæðingu bankanna og hvernig að henni var staðið var tekin af fámennum hópi forustumanna í stjórnmálum og Alþingi afhenti í reynd ríkisstjórninni blankó tékka í stað þess að setja nauðsynlega laga- og regluumgjörð og veita framkvæmdarvaldinu brýnt aðhald. Þetta er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndarinnar.

Skýrslan greinir frá því að það hafi verið pólitísk stefnumörkun strax eftir aldamót að láta bankakerfið vaxa óstjórnlega og lagabreytingar sem á þeim tíma voru gerðar vörpuðu fyrir róða margvíslegum öryggisventlum sem áður höfðu verið í okkar lagaumhverfi. Á árinu 2007 var enn fremur tekin pólitísk ákvörðun um að búa í haginn fyrir áframhaldandi vöxt bankakerfisins og útrás þess en sú stefnumörkun er með skýrum hætti tekin í stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar. Þetta var gert þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð og hættumerki sem höfðu komið fram þegar árið 2005. Þannig verður ekki undan því vikist að horfast í augu við hina pólitísku ábyrgð enda þótt framganga eigenda og stjórnenda bankanna hafi verið með hreinum endemum.

Efnahagsstjórnin sem hér var rekin á mörgum undanförnum árum var til þess fallin að veikja enn frekar undirstöður ríkisins, auka þenslu og draga mátt úr stjórnkerfinu. Þannig varð íslenska ríkið vanmáttugt til að takast á við þau óveðursský sem hrönnuðust upp í efnahagslífinu um miðjan áratuginn og fram að hruni. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er víða að finna vísanir í upplýsingar sem stjórnvöldum bárust um ískyggilega þróun bankakerfisins og þær skelfilegu afleiðingar sem hugsanlegt fall þess mundi hafa fyrir þjóðarbúið. En í stað þess að bregðast við, taka völdin af bönkunum og setja vexti þeirra skorður var augum og eyrum lokað og afskiptaleysi einkenndi stjórnarhætti. Flýtur meðan að ekki sekkur var eins konar kjörorð stjórnvalda. Fram kemur að í raun hafi þurft að taka í taumana árin 2005–2006 ef koma hefði átt í veg fyrir þær hrikalegu afleiðingar sem blasa við í dag.

Á þeim tíma, fyrst í mars 2005, flutti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs undir forustu formanns flokksins þingsályktunartillögu um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Er skemmst frá því að segja að tillagan komst aldrei á dagskrá Alþingis. Strax sama haust var sambærileg tillaga endurflutt og var hún þá rædd og fór til nefndar. Nokkrar umsagnir bárust um þá tillögu, m.a. frá Fjármálaeftirliti, frá Seðlabanka Íslands, frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, frá viðskiptaráði, frá talsmanni neytenda. Ekki er hægt að segja að þessir aðilar hafi þá haft miklar áhyggjur af þróun mála þegar umsagnir þeirra eru skoðaðar þótt margvísleg teikn væru þá þegar á lofti um ískyggilega þróun.

Rannsóknarnefndin telur að tilteknir forustumenn í stjórnmálalífi og embættismenn í eftirlitsstofnunum hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi. Hún getur vitaskuld ýmist verið formleg að stjórnlögum eða pólitísk vegna stöðu viðkomandi. Það verður nú verkefni hinnar sérstöku þingnefndar að fjalla um þær ávirðingar og gera tillögur til Alþingis um frekari viðbrögð.

Sú saga sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar segir er saga pólitískrar hugmyndafræði sem hér var við lýði í raun og sann allt frá árinu 1991 og á löngum og samfelldum valdatíma gróf hún um sig víða í samfélaginu, ekki einvörðungu í banka- og viðskiptalífi heldur einnig í stjórnkerfinu, stjórnmálalífinu og inn í margar stoðir samfélagsins sem eiga ekki síst eðli málsins samkvæmt að vera gagnrýnar, spyrja ágengra spurninga og leggja sjálfstætt, faglegt mat á samfélagsþróunina. Þær fáu raddir sem þrátt fyrir allt heyrðust, m.a. á Alþingi, voru gjarnan úthrópaðar sem gamaldags og lummó og þeim jafnvel borin á brýn öfundsýki.

Hver man ekki umræðuna sem spannst þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson lét þau orð falla að hann vildi frekar bankana úr landi en að þeim tækist að eyðileggja innviði íslenska velferðarkerfisins? Var þeim sjónarmiðum tekið fagnandi? Nei, þvert á móti, ýmist hneykslun eða háð einkenndi almennt viðbrögðin. Svo var látið að því liggja hér í umræðum í gær að þeir sem þannig töluðu og almennt vöruðu við þessari þróun hefðu ekkert aðhafst. Þetta er söguskýring sem dæmir sig sjálf. Nú hefur komið áþreifanlega á daginn og er undirstrikað í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að menn hefðu betur lagt við hlustir.

Það fer ekki fram hjá neinum að íslensku bankarnir gengu berserksgang og fjölmargt í starfsemi þeirra virðist hafa farið í bága við lög. Um það eru margar ábendingar bæði í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og í fréttum af málatilbúnaði skattrannsóknarstjóra og sérstaks saksóknara sem við höfum heyrt af að undanförnu. Ábyrgð þeirra sem þar héldu um stjórnvölinn er sannarlega mikil og það á ekki að gera lítið úr henni. Frekari rannsókn og málshöfðanir þar að lútandi hljóta fljótlega að líta dagsins ljós í kjölfar skýrslunnar.

En það er jafnframt dómgreindarleysi að benda einvörðungu á bankana og starfsemi þeirra sem uppsprettu hrunsins. Þar verður hlutur stjórnvalda og stjórnkerfisins í heild ekki undanskilinn, hann er líka ríkur. Þegar litið er á umfjöllun erlendra fjölmiðla um skýrsluna í gær er það einmitt sá þáttur sem mesta athygli fær, ekki að ósekju, og er það nokkur annar bragur en á ýmsum nærliggjandi bæjum.

Frú forseti. Í mínum huga er alveg ljóst að það andrúmsloft meðvirkni með útrás og stjórnlausum vexti bankanna um allar þorpagrundir náði að síast inn í hugarfar þjóðarinnar í allt of ríkum mæli, m.a. á æðstu stöðum, eins og siðferðishluti rannsóknarskýrslunnar dregur glöggt fram. Hið gegndarlausa kapphlaup og samkeppni í stóru og smáu var orðið sjúkt ástand, eða eins og skáldið sagði á sínum tíma: „Allt lendir í stöðugri keppni um að koma sér að og krækja sér í nógu þægilegt sæti.“

Við þurfum öll að draga lærdóm af því sem hér fór úrskeiðis. Við verðum öll að horfast í augu við þá ábyrgð sem hvert okkar ber og við verðum öll að viðurkenna þá ábyrgð og axla hana í samræmi við tilefni í hverju tilviki. Við verðum öll að vera móttækileg fyrir nýrri hugsun og nýjum gildum. Okkar bíður mikið hlutverk við að byggja upp íslenskt samfélag upp úr öskustó hruninna viðhorfa og samfélagsgilda. Það er vandasamt starf en við eigum líka að líta á það sem eftirsóknarvert verkefni.

Íslendingar hafa oft í sögu sinni þurft að takast á við áföll. Iðulega hefur okkur tekist að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem að hafa steðjað. Við getum einnig gert það nú. Forsenda þess er þó að við viðurkennum og horfumst heiðarlega í augu við vandann og orsakir hans og fetum okkur svo inn á nýja braut. Endurmótun samfélagsins þarf að byggja á nýrri sýn og hugmyndafræði sem hefur hagsmuni almennings að leiðarljósi en hafnar sérhagsmunum. Endurmótunin þarf að ná til stjórnkerfisins og stofnana, hún þarf að ná til fjármálalífsins í heild sinni og hún þarf að ná til stjórnskipunarinnar. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að við förum rækilega yfir lög og reglur og stjórnarskrána sjálfa.

Fjármálamarkaðnum þarf að setja eðlilegar skorður og greina skýrt á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi en rannsóknarnefndin gerir þetta samkrull að sérstöku umfjöllunarefni. Fjármálaeftirlitið þarf að efla og gera því kleift að rækja mikilvægt hlutverk sitt á grundvelli almannahagsmuna. Seðlabankinn þarf bersýnilega á sérstakri athugun að halda og þótt Alþingi hafi á síðasta ári sett ný lög um bankann er óhjákvæmilegt að starfsemi hans sæti endurskoðun og hlutverk hans við að tryggja fjármálastöðugleika þarf að styrkja. En hert lög og reglur er ekki nægilegt ef því fylgir ekki breytt hugarfar, ef við drögum ekki réttar ályktanir af því sem rannsóknarnefndin, þar með talið siðfræðihlutinn, dregur fram í dagsljósið um orsakir hrunsins, ef við nýtum ekki krafta allra, kvenna jafnt sem karla.

Um leið verðum við að huga að því að koma á laggirnar óháðum aðilum, eins og Þjóðhagsstofnun var, til að fylgjast með þróun efnahagsmála og veita stjórnvöldum og fyrirtækjum á markaði nauðsynlegt aðhald og veita almenningi og fjölmiðlum hlutlausar upplýsingar og ráðgjöf. Alþingi sjálft verður að rýna í sín vinnubrögð og starfshætti. Það er að mínu mati brýnt að styrkja sjálfstæði Alþingis þannig að það sé í stakk búið að leggja eigið faglegt og pólitískt mat á þau mál sem frá framkvæmdarvaldinu koma og að þingið dragi ekki síður en aðrar stofnanir nauðsynlegan lærdóm af því sem miður hefur farið. Samskipti hins opinbera og einkageirans, eins og þeim er m.a. lýst í tengslum við einkavæðingu bankanna, verður að taka til gagngerrar endurskoðunar og ég vil hér lýsa því sjónarmiði að Alþingi eigi að sjá til þess að mótaðar verði siðareglur í samskiptum opinberra aðila við einkaaðila, það virðist ekki vanþörf á. Þegar á heildina er litið verður að innleiða miklu meiri fagmennsku inn í íslenskt stjórnmálalíf og embættismannakerfi, að ekki sé talað um viðskiptalífið.

Frú forseti. Endurmótunin þarf að snúast um uppgjör við allt það sem olli því skelfilega hruni sem hér varð haustið 2008 og átti sér langan aðdraganda þegar vel er að gáð. Uppgjörið þarf að vera heiðarlegt og málefnalegt, öfgalaust og falslaust, fumlaust og uppbyggilegt. En endurmótunin þarf einnig að snúast um pólitík. Hún þarf að snúast um að ná sátt í samfélaginu um þá samfélagsgerð sem við viljum byggja upp og búa við á Íslandi til langrar framtíðar, þjóðfélag sem byggir á samkennd og jöfnuði, velferð fyrir alla og samfélagslegri ábyrgð, hófsemi og stöðugleika.

Frú forseti. Vinna rannsóknarnefndarinnar er ítarleg og gagnmerk. Það dylst engum að gríðarleg vinna og alúð liggur þar að baki. Ég vil nota þetta tækifæri til að færa öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg við þessa miklu vinnu þakkir fyrir ómetanleg störf í þágu þjóðarinnar. Nú tekur við starf á vettvangi Alþingis við að rýna skýrslu rannsóknarnefndarinnar og leggja drög að viðbrögðum Alþingis. Sú vinna er falin sérstakri þingnefnd sem er skipuð níu þingmönnum allra flokka undir forustu Atla Gíslasonar, sem ég ber mikið traust til. Það er mikilvægt að allir alþingismenn standi þétt við bakið á þeirri nefnd og styðji hana í hvívetna í vandasömum störfum. Þjóðin þarf á því að halda að við leggjum okkur öll fram um að vinna af heilindum, hvar í flokki sem við stöndum, að því að starf rannsóknarnefndarinnar komi að notum við það mótunar- og uppbyggingarstarf sem þegar er hafið en mun taka langan tíma enn.

Við þurfum ekki bara að koma efnahags- og atvinnulífinu á réttan kjöl, við verðum ekki síður að efla sjálfsmynd þjóðarinnar sem hefur beðið hnekki. Það getum við gert ef við leggjumst öll á eitt. Við göngum til móts við komandi tíma með dýrmæta reynslu í farteskinu. Vítin eru til að varast en af þeim skulum við læra og byggja réttlátt þjóðfélag.