138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:52]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem líður á umræðuna aukast efasemdir mínar um hvort þessi umræða sér tímabær. Það sem ég hef heyrt hérna hefur verið mjög almenns eðlis og byggir að mjög litlu leyti á þeirri skýrslu sem rannsóknarnefndin hefur skilað. Ég er ekki búinn að lesa þessa skýrslu en því lengra sem líður á lesturinn vex trú mín á að skýrslan sé eitthvert merkilegasta ritað plagg í sögu lýðveldisins.

Mér finnst skýrslan verðskulda vandaða, nákvæma og skynsamlega umfjöllun. Margt hefur eflaust skynsamlegt verið sagt í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram en hún hefur líka verið yfirfull af einhverju almennu rugli: við skulum ekki víkjast undan ábyrgð, minn flokkur mun axla ábyrgð en þá verða aðrir að gera slíkt hið sama.

Það sem ég bíð eftir að heyra frá stjórnmálaflokkunum er að þeir tali nákvæmlega út frá innihaldi skýrslunnar um þá ábyrgð sem þeir bera hver og einn og hvernig og með hvaða hætti þeir ætla að axla þessa ábyrgð og hvernig þeir ætla að bregðast við henni.

Sá sem hér talaði síðast var kannski fulltrúi þess flokks sem hvað minnsta ábyrgð ber á hruninu. Mig langar samt til að spyrja hann: Hvernig eiga stjórnmálaflokkar að axla ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í núna? Og mig langar til að vekja athygli þess sem hér talaði síðast á því að þó að flokkur hans beri hvað minnsta ábyrgð á hruninu er það sá flokkur sem mun bera hvað mesta ábyrgð á því að hér verði endurreisn.