138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, hann vill styrkja Alþingi o.s.frv. Þá kemur fyrsta spurningin sem ég kom hér áður að og það er varðandi kattasmölun, sem er ekkert annað en flokksræði, hvað hann haldi um slíkt. Ef þessi kattasmölun hefði borið árangur og orðið sauðasmölun sætum við sennilega uppi með samþykkt Icesave, þannig að það skiptir verulegu máli að styrkja Alþingi.

Þar sem hv. þingmaður talaði nokkuð um einkavæðingu finnst mér að menn þurfi að fara að tala um hina fyrri og hina seinni, því að það er búið að einkavæða tvo banka og það er óvíst um eigendur þeirra og það er skiljanlegt. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hefur eitthvað breyst í regluverkinu varðandi hlutafélög sem gerir það að verkum að það nákvæmlega sama geti ekki gerst eins og varðandi Icesave eða krosseignarhald eða lánveitingar o.s.frv. í þessum nýju bönkum? Hefur eitthvað verið gert í því? Hvað telur hann um það?

Síðan er einn banki eftir sem er ríkisbanki, nýi Landsbankinn, ég man bara ekki hvað hann heitir, því miður, en hann heitir einhverjum þrem stöfum. Hvað segir hv. þingmaður um tengsl stjórnmálamanna og fjármálafyrirtækja, t.d. setu stjórnmálamanna í fjármálafyrirtækjum á grundvelli þess að þeir eru stjórnmálamenn en ekki sem eigendur?