138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki frekar en fyrri daginn að tala mikið um þessa kattasmölun hv. þingmanns. Hann spyr hins vegar um löggjöfina um fjármálafyrirtækin, sem er málefnalegt innlegg í þessa umræðu, og hvaða lærdóm við getum dregið af henni. Hér á vettvangi viðskiptanefndar Alþingis erum við með til umfjöllunar frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki. Mikil vinna hefur farið í að fjalla um það frumvarp á vettvangi viðskiptanefndar. Við höfum fengið fjölmarga aðila á fund nefndarinnar og fengið umsagnir, bæði formlegar, skriflegar umsagnir og einnig hafa fjölmargir komið og tekið þátt í umræðu með nefndinni um það lagafrumvarp.

Ég held að það sem mér fannst þingmaðurinn ýja að sé hárrétt, að í skýrslu rannsóknarnefndarinnar séu atriði sem eigi að koma okkur að gagni við yfirferð á þessu frumvarpi. Henni er ekki lokið í viðskiptanefnd og ég held að þar séu atriði sem sé mjög eðlilegt að taka og hafa til hliðsjónar, jafnvel sem við gætum komið inn í frumvarpið nú þegar. Ég nefndi það reyndar í máli mínu áðan, ég talaði m.a. um hluti eins og kaupauka og kaupréttarkerfin sem ákvæði er um í umræddu frumvarpi um fjármálafyrirtæki. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða þetta í ljósi þess sem skýrslan segir um þau atriði. Ég talaði um að greina með einhverjum hætti á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarlánastarfsemi, sem skýrslan fjallar líka um. Hvort það er gert með því að fyrirtækin verði að vera annaðhvort/eða eða hvort það er gert með öðrum hætti í gegnum bókhaldslegan aðskilnað eða slíka hluti tel ég að við eigum að skoða á vettvangi viðskiptanefndar. Það eru áreiðanlega fleiri slík dæmi í skýrslunni þegar grannt er skoðað sem geta komið okkur að gagni við yfirferð þessa máls á vettvangi þingsins.