138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu rannsóknarnefndar og ég verð að byrja á því að þakka nefndinni fyrir gott starf og þessa miklu vinnu sem hún hefur lagt af mörkum við mikinn þrýsting frá þingmönnum, þinginu og samfélaginu um að klára þá vinnu. Ég held að nefndin hafi unnið býsna gott starf sem við verðum að nýta okkur afar vel. Það er þó aldrei þannig að þessi skýrsla, frekar en aðrar, sé hafin yfir gagnrýni og ég veit það og hef heyrt það á þeim sem skrifuðu hana að þeir gera sér fulla grein fyrir því.

Það er mikilvægt að þingheimur sameinist um að horfa fram á við og læra af þeim mistökum sem hafa verið gerð undanfarin ár og jafnvel áratugi í íslenskri stjórnsýslu varðandi íslenska löggjöf og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar hér á landi. Við megum heldur aldrei gleyma því að það voru samkvæmt skýrslunni bófar og ribbaldar sem gengu lausir í íslenskum bönkum sem í raun rændu sparifé og tæmdu sjóði bankanna. Þessa menn þarf að finna og það þarf að gera upp sakir við þá. Manni er býsna heitt í hamsi. Það þýðir samt ekki, frú forseti, að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar séu undanskildir þeirri ábyrgð sem þarf að horfast í augu við. Framsóknarflokkurinn ber að sjálfsögðu sína ábyrgð eftir mörg ár í ríkisstjórn, það er kristaltært og alveg ljóst. Margt af því sem við stóðum að og komum að hefði eflaust mátt gera öðruvísi og betur.

Einkavæðing bankanna hefur oft verið nefnd. Ég held að þar hefði örugglega mátt fara öðruvísi að en ég er ekki viss um að bankarnir hefðu ekki verið einkavæddir samt sem áður. Við getum líka farið enn aftar og spurt okkur hvort götin sé að finna í EES-samningnum sem tekinn var upp löngu áður. Löggjöfin byggir á þeim samningi. Jú, við hefðum getað haft hana sterkari og ég held í raun að einhver mestu mistök sem hafi verið gerð sé að rýmka þessa löggjöf eða hafa hana ekki strangari. Það finnst mér mjög sorglegt.

Ég held að enginn hafi gert sér grein fyrir því umfangi sem sukkið í bankakerfinu var í raun og veru fyrr en við sáum þessa skýrslu. Það er sorglegt að sjá að andvaraleysið í raun alls staðar var mjög mikið. Það er líka sorglegt að sjá og það verður hreinlega að viðurkennast að það er mjög slæmt að ekki var hlustað eftir þeim varnaðarorðum sem viðhöfð voru um fjármálakerfið, ekki bara síðustu ár heldur í langan tíma. Það verður að viðurkennast. Það sem vekur líka áhyggjur, frú forseti, er: Hefur eitthvað breyst? Hefur eitthvað breyst frá bankahruninu sem skiptir einhverju máli varðandi löggjöf og vinnubrögð? Erum við ekki enn að horfa á sömu hlutina? Er ekki verið að skipa pólitískt og raða vinum og kunningjum inn í ráðuneyti og slíkt? Ég hygg að sýnt hafi verið fram á það hér í fyrirspurnatíma þingmanna að líklega hafi aldrei verið meira um slíkar aðgerðir. Er það sú breyting sem kallað er eftir? Nei, alveg klárlega ekki.

Það er tvennt sem ég vil nefna líka. Mér virðist við þann lestur — nú verð ég að hafa þann fyrirvara á — sem ég er búinn að fara í gegnum nú þegar sem fjölmiðlar og jafnvel háskólasamfélagið sleppi býsna vel í þessari skýrslu miðað við a.m.k. þá ímynd og trú sem ég hef haft á þeirra hlut. Hér þarf almenna skynsemi, það þarf að styrkja eftirlitsstofnanir þingsins og óháðar stofnanir. Það er ekki hægt að hafa alla þessa hluti annaðhvort undir framkvæmdarvaldinu eða hjá einkaaðilum. Við verðum að gera þá kröfu til okkar þingmanna og til þingsins að við sköpum það umhverfi að við sem þingmenn getum axlað þá ábyrgð sem við berum, getum fylgst með og tekið á málum sem upp koma. Ég vil taka undir þau orð sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafði uppi áðan varðandi möguleika á því að búa til nýja Þjóðhagsstofnun eða einhvers konar efnahagsnefnd sem Alþingi hefur sér til ráðgjafar. Ég held að það sé mjög vert að skoða það.

Eins og komið hefur fram þarf að fara yfir alla löggjöfina er snýr að fjármálafyrirtækjum og líka siðareglur er snúa að stjórnsýslunni og stjórnkerfinu í heild. Það er alveg ljóst. Það á ekki að bíða með að fara yfir og endurskrifa þá löggjöf sem þarf að gera, við eigum að hraða því eins og frekast er unnt. Ég verð að segja að ég veit ekki hvort sá tónn sem hefur verið gefinn í umræðunni undanfarið af okkur stjórnmálamönnum er til bóta eða hvort hann veldur hreinlega meiri skaða en orðinn er. Við verðum að nýta þessa skýrslu eða þetta bil sem myndast núna hjá okkur, þetta tækifæri sem skapast, til þess að byggja á.

Þegar við förum í gegnum þessa skýrslu og lesum einstaka þætti og einstök atriði vil ég hvetja stjórnmálamenn sérstaklega til þess að leita til baka í huganum og hugsa um hvað þeir hafi áður sagt og gert, hvaða ákvarðanir þeir tóku og að hverju þeir stóðu, því að mér finnst svolítið sérstakt að heyra mjög sterkar ályktanir dregnar nú strax af ákveðnum hlutum skýrslunnar, og nefni ég þar t.d. húsnæðislánin, þegar talað er um þann stóra þátt í efnahagshruninu. Það er alveg ljóst að tímasetningin hefði mátt vera önnur. Af hverju var þessi tímasetning á því að Íbúðalánasjóður bauð 90% lán? Það vitum við öll, við þurfum að viðurkenna það. Það var að sjálfsögðu vegna þess að bankarnir höfðu ruðst fram á markaðinn. Hér í sölum Alþingis var nánast einhugur um þetta. Ég er búinn að fara í gegnum ræður þingmanna úr Framsóknarflokknum, Samfylkingunni, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Þar voru að vísu mestu efasemdirnar því eins og við vitum hafði sá flokkur aðrar hugmyndir um hvernig húsnæðiskerfið átti að vera, það átti að vera meira og minna hjá bönkunum. 90% lánin voru vitanlega sett fram til þess að hjálpa fólki við að eignast húsnæði og fá þak yfir höfuðið, og að sjálfsögðu líka til þess að verja Íbúðalánasjóð. Það sýnir sig í þeim ræðum sem fluttar voru á Alþingi árið 2004 að menn gerðu sér grein fyrir því.

Það var margt sem skapaði efnahagsástandið og umhverfið eins og það var á þeim tíma en það verður að meta í réttu ljósi og af sanngirni. Við verðum líka að passa okkur á að fara ekki í þann farveg að læsa okkur í fjötrum þröngsýni eða vera með allan hugann við kreppuna, við verðum að reyna að horfa fram á við og nýta þetta plagg til þess að vinna okkur út úr þeirri efnahagskreppu sem við erum í. Þá skiptir miklu máli að stjórnvöld bregðist hratt og örugglega við með því að laga umhverfið, lagaumhverfið og stjórnsýsluna, og að það verði brugðist hratt við með því að spýta í lófana varðandi efnahagsmálin.

Ég vonast til þess og Framsóknarflokkurinn mun að sjálfsögðu ekki skorast undan því að taka þátt í allri þeirri vinnu sem hér fer fram sem getur orðið til þess að bæta þetta umhverfi sem við búum í, bæta efnahagsumhverfið og ekki síst þá löggjöf sem fjármálastarfsemin vinnur eftir. Framsóknarflokkurinn kynnti fyrir skömmu það sem kallast „Þjóðarsátt 2010. Samstaða um endurreisn“. Það er hluti af okkar tillögum, hugmyndum og því sem við höfum fram að færa til þess að byggja upp nýtt og öflugt samfélag, koma Íslandi aftur á lappirnar og öðlast traust. Það skiptir miklu að við gleymum okkur ekki í svartnættinu. Þó að við verðum vitanlega að læra af því og horfa um öxl verðum við líka að horfa fram á við og koma þeim skilaboðum til almennings, til fólksins í landinu, að við sem þingmenn höfum trú á því að jafnvel þó að þingheimur hafi brugðist á sínum tíma ætlum við að læra af því og láta það ekki endurtaka sig. Við ætlum ekki að sitja og vorkenna okkur, kvarta og kveina og draga þannig kjark og þrótt úr þjóðinni sem þarf svo sannarlega á því að halda að við stöndum saman og með henni í að vinna okkur út úr því umhverfi sem við höfum og búum við í dag.

Frú forseti. Það er mikið kallað eftir því að menn viðurkenni að þeim hafi orðið á mistök og það er ósköp eðlilegt. Ég sagði áðan að Framsóknarflokkurinn væri ekki undanskilinn í því, alls ekki. Við í hinum nýja þingflokki Framsóknarflokksins sem nú erum á þingi erum hér fyrir kjósendur Framsóknarflokksins, að sjálfsögðu fyrir þjóðina alla en í því umboði sem okkur var veitt, og störfum eftir stefnu Framsóknarflokksins. Sá flokkur hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun, m.a. vegna þess að flokksmenn voru ekki alveg sáttir við það hvernig flokkurinn hafði staðið og hvert hann hafði stefnt. Fjöldinn allur af öflugu fólki hefur tekið að sér forustustörf fyrir Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina og þeim ber að þakka fyrir þeirra störf en ekki eingöngu að gagnrýna þau en við verðum líka að þora að horfast í augu við að við gerðum mistök eins og aðrir.

Frú forseti. Að okkar mati er núna þörf á skynsamlegri nálgun á þau verkefni sem fram undan eru. Það er miðjustefnan. Við erum búin að læra af öfgunum til hægri, við fórum allt of langt til hægri með íslenskt þjóðfélag. Við megum ekki fara með það of langt til vinstri, það er alveg ljóst. Við verðum að finna hinn gullna meðalveg sem kemur samfélaginu út úr því umhverfi sem það hefur verið í yfir í heilbrigt umhverfi þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta þrifist án þess að þeim sé vantreyst um aldur og eilífð. Við verðum að byggja aftur upp traust.