138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:35]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að beina nokkrum orðum til hv. síðasta ræðumanns. Það er út af fyrstu orðunum sem hann lét falla um skýrsluna og þá sérstaklega um úrvinnslu hennar.

Nú höfum við fengið þessa skýrslu í hendurnar, hún er mikil að vöxtum og eftir því sem við höfum farið núna yfir, skoðað og fengið allan gærdaginn til þess að fara í gegnum, ekki sjálf til þess að lesa heldur í gegnum kynningu á skýrslunni, sýnist mér hún ótrúlega yfirgripsmikil og vel unnin. Meðan skýrslan var í vinnslu heyrðum við þær raddir úti í þjóðfélaginu og víðar að það mundi nú ekkert koma út úr þessari skýrslu, hún yrði algjörlega marklaus og mundi draga bara fjöður yfir allt sem gert hefur verið.

Nú er reyndin sú að hvert okkar sem les hana getur séð að svo er ekki. Hún gefur að mínu mati, eftir þá kynningu sem við höfum fengið, mjög góða mynd, hefur kortlagt hrunið vel. Nú er hún komin fram. Þá heyrum við: Það verður ekkert gert með hana, ekki nokkur skapaður hlutur. Þetta verður allt saman ein froða.

Ef við ætlum að ná okkur, ekki bara efnahagslega, heldur líka sem þjóð, upp úr þeirri lægð og þeirri smán sem við erum komin í, telur þá ekki hv. þingmaður að við höfum þarna tæki í höndunum til að byggja á? Telur hann þá ekki rétt að tala þannig út til þjóðarinnar og til okkar þingmanna og þingmannanefndarinnar sem á að vinna með skýrsluna að við stöppum frekar stálinu hvert í annað og ætlumst til og trúum því að það verði unnið með þessa skýrslu og þegar upp verður staðið verðum við jafnánægð með árangurinn og skýrsluna sjálfa?