138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:39]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gera lauslega grein fyrir þingmannanefnd sem fjalla á um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og störf hennar til þessa. Nefndin var skipuð með breytingu á lögum nr. 142/2008 og er níu manna nefnd. Um hana gilda þingsköp Alþingis. Hún gefur Alþingi skýrslu um störf sín, leggur fram tillögu að þingmálum eða ábendingum og úrbótum eftir því sem hún telur þörf til. Hún getur aflað frekari gagna, og kosning þingmannanefndarinnar hefur sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Í lögum um rannsókn og aðdraganda á orsökum falls íslensku bankanna 2008 er ítarleg markmiðslýsing í 1. gr. laganna um markmið rannsóknarnefndar Alþingis, að leggja mat á mistök eða vanrækslu í framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi o.fl., varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda hrunsins, afla upplýsinga um starfsemi fjármálafyrirtækja, gera úttekt á reglum íslenskra laga um fjármálamarkaðinn, leggja mat á hvernig staðið var að eftirliti, koma með ábendingar og tillögur um breytingar á lögum, reglum o.fl. og gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum. Það er ekki síður gagnmerkt í þessari skýrslu, því ber að halda sérstaklega til haga og gera jafnhátt undir höfði, að það var ákveðið í tengslum við hana að setja á stofn sérstaka siðanefnd til að huga að hinum siðrænu hlutum og starfsháttum Alþingis. Því megum við ekki gleyma og þar geymir skýrslan gagnmerkar leiðbeiningar til þingmanna um umræðuhefð okkar, eða réttara sagt um þrætubókarlist, þ.e. að við berum ekki alltaf gæfu til að nálgast mikilvæg mál málefnalega og faglega.

Ég vek líka athygli á því að þingið mun ekki taka upp öll mál sem fjallað er um í skýrslunni. Því sem snýr að meintu misferli í fjármálastofnunum eða meintu misferli annarra í tengslum við hrunið ber nefndinni að vísa til sérstaks saksóknara og setts ríkissaksóknara. Nefndinni bar að gera grein fyrir því í skýrslu sinni. Í 7. bindi er án nafnatilgreiningar gerð ítarleg grein fyrir þeim atriðum fjármálalífsins o.fl. sem vísað hefur verið til saksóknara og hefur rannsóknarnefndin átt sérstakan fund með sérstökum saksóknara og ríkissaksóknara í þessum málum, að því er ég best veit.

Að því er varðar brot á starfsskyldum bar nefndinni líka, og hefur gert, að vísa til ráðuneyta hugsanlegum brotum á starfsmannalögum, þá er ég ekki að tala um refsiverða háttsemi embættismanna, og það ber ráðuneytum að taka fyrir í þeim anda sem starfsmannalögin mæla fyrir um.

Í meginatriðum er starf rannsóknarnefndarinnar þríþætt, í fyrsta lagi eru lagaumbætur sem ég vildi e.t.v. kalla lagauppstokkun ef marka má skýrsluna og ummæli nefndarmanna í rannsóknarnefndinni á fundi þingmannanefndarinnar í morgun.

Við verðum að horfa í öðru lagi inn á við til Alþingis, til starfshátta okkar, til þess hvernig við rækjum eftirlitsskyldur okkar. Að frumkvæði Alþingis liggur fyrir nýleg skýrsla þar um og þar er svo sannarlega úrbóta þörf. Við verðum að horfa inn á við, til þingsins og til okkar, og þar ítreka ég aftur siðanefndarskýrsluna um starfshættina og þá umræðuhefð sem hér viðgengst.

Í þriðja lagi, og þá erum við komin í allt annað hlutverk en hin venjulega þingmannanefnd, horfum við til þess hvort um ráðherraábyrgð kunni að vera að ræða. Þar förum við, þingið, allt í einu úr sporum hefðbundinnar þingmannanefndar inn í það að vera ákæruvald. Og þar verðum við sannarlega að stíga varlega til jarðar. Það er mín skoðun. Við verðum að vanda alla skoðun á því.

Ég tek fram að forsætisnefnd hefur að mínu mati einhuga skapað þingmannanefndinni mjög góða umgjörð og mjög góð starfsskilyrði. Hún hefur lagt sig í líma við það. Við höfum til aðstoðar þrjá ritara og við höfum aðgang að þremur utanaðkomandi sérfræðingum, prófessorunum Bryndísi Hlöðversdóttur, Jónatan Þórmundssyni og Ragnhildi Helgadóttur. Við fundum tvisvar í viku og nefndin hefur þegar haldið 15 fundi, þ.e. 14 fundi til undirbúnings og síðan mjög góðan og gagnlegan fund í morgun með rannsóknarnefndinni, Páli Hreinssyni, Sigríði Benediktsdóttur og Tryggva Gunnarssyni, og annar er fyrirhugaður á föstudaginn. Við hyggjumst funda mjög fljótlega og sérstaklega með siðanefndinni sem við teljum að hafi sent frá sér jafnmikilvæga og -vandaða skýrslu og rannsóknarnefndin gerði.

Undirbúningurinn hefur komið sér einkar vel að mínu mati. Við erum í brautryðjendastarfi. Við höfum samið verklagsreglur sem hafa verið birtar á netinu. Við höfum kallað til sérfræðinga. Við fórum til að mynda mjög ítarlega í ákvæðið um ráðherraábyrgð og landsdóm og huguðum að ýmsum vafaatriðum þar. Ég held að við höfum komist að því að þau lög duga enn þótt gömul séu. Við höfum farið yfir lagareglur á Norðurlöndum og horft til sambærilegra dæma. Við höfum farið yfir Tamílamálið í Danmörku o.fl. og viðað að okkur ítarlegum gögnum. Það sem er fyrir mestu er að við höfum talað okkur saman, við höfum náð góðri samstöðu og við höfum náð málefnalegri umræðu sem lofar góðu. Nefndin, nú tala ég að ég hygg fyrir hönd hennar allrar, hefur heitið sér því að vinna faglega að málinu og af hlutlægni. Við erum þar ekki að vinna fyrir flokkshagsmuni, heldur fyrir þjóðina og þjóðarhag, svo því sé haldið til haga.

Verkefnið er afar umfangsmikið og tímaramminn knappur, þ.e. til þingloka í september, og knappari en ráðgert var fyrir þær sakir að það dróst að afhenda skýrsluna. Sá dráttur sem var gagnrýndur nýttist okkur afar vel. Satt best að segja er ég þakklátur fyrir hann. Ég held að sá tími sem rannsóknarnefndin tók sér í verkið hefði ekki mátt vera knappari. Það var betra að fá þessa vönduðu skýrslu en gloppótta skýrslu. Ég held að allir geti verið sammála um það, sérstaklega eftir að skýrslan hefur litið dagsins ljós.

Við erum sem sé að vinna brauðryðjendaverk og við erum að skapa sögu. Það er afar mikilvægt fyrir þjóðina að vel takist til hjá þingmannanefndinni og, vel að merkja, að hún starfi í þeim anda og eftir þeim mælistikum sem siðferðisnefndin leggur áherslu á að þingmenn geri í mikilvægum málum.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka rannsóknarnefndinni og siðanefndinni afar vandaða, ítarlega, faglega og vel framsetta skýrslu og ekki síður fyrir þrotlausan dugnað þeirra í þessu verkefni, bæði við rannsóknina, úrvinnsluna og síðan ekki síður skýrslusamninguna, en skýrslan er að mínu mati aðgengileg og samin á skiljanlegu máli. Það er í raun með ólíkindum að unnt hafi verið að klára þessa viðamiklu rannsókn á 15 mánuðum og hafi rannsóknarnefndin og siðanefndin hugheilar þakkir fyrir störf sín.

Til samanburðar vil ég geta þess að ég held að rannsókn á hruni Lehman-banka, sem kostaði um þrjá milljarða, sé ekki lokið eða hún tók a.m.k. umtalsvert lengri tíma. Hér hefur verið unnið nánast kraftaverk sem sýnir okkur að við höfum getu til þess að byggja upp nýtt Ísland.