138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:51]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er hárrétt hjá hv. þingmanni að tíminn er knappur, en það er markmið okkar að klára þetta á þessum tíma. En það er ekki loforð svo að það sé nú tekið fram. Það fer eftir ýmsu hvort það tekst. Í gangi eru lagaumbætur víða í kerfinu okkar í dag, mjög víða, og unnið, bæði í ráðuneytum og annars staðar, að lagauppstokkun. Ég held að það sé til of mikils mælst ef menn telja að nefndin muni skila af sér heilsteyptum lagafrumvörpum á öllum sviðum sem skýrsla rannsóknarnefndar kemur inn á, fremur munum við — nú tala ég fyrir sjálfan mig — leitast við að koma fram með ábendingar og þar fram eftir götunum. Auðvitað getum við hugsanlega komið fram með lagafrumvörp og þingsályktanir en fyrst og fremst verður þetta í formi ábendinga, þ.e. við förum yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar og komumst að því hverju við erum sammála, hverju við erum hugsanlega ósammála og reynum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um úrbæturnar og beina því til viðkomandi aðila ef þörf krefur, eða flytja slíkar beinar tillögur hér á þingi.