138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir mér er það svo sem ekkert trúaratriði hvort ríkið á eða á ekki einhvern hlut í fjármálafyrirtækjum. Reyndar hef ég sagt það opinberlega, m.a. í ræðu á nýliðnum ársfundi Seðlabankans, að við hefðum prófað tvö fjármálakerfi á Íslandi á undanförnum áratugum og þau hefðu bæði brugðist, hið síðara reyndar með meiri látum en hið fyrra en hið fyrra var engu að síður ekkert mjög þesslegt að við vildum endurreisa það. Við viljum ekki endurreisa fjármálakerfið sem hrundi en við viljum heldur ekki endurreisa það fjármálakerfi sem var hér lengst af eftir stríðsárin þar sem hið opinbera átti flest fjármálafyrirtæki og stýrði þeim oft með talsverðum pólitískum afskiptum.

Það breytir því ekki að það kann að vera eðlilegt að hið opinbera, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, sem eiga stundum hlut í sparisjóðum, eigi einhvern eignarhlut í fjármálafyrirtækjum fyrst um sinn a.m.k. og hugi svo að því hvort vilji sé til að selja hann. Ég held að það skipti ekki höfuðmáli, alla vega ekki næstu árin. Það skiptir meira máli hvernig tekst að marka rammann um þessa starfsemi með lögum og reglum eins og þingmaðurinn rakti m.a. í fyrirspurn sinni.

Eignarhaldið á þeim bönkum sem eru ekki í eigu ríkisins, eða að mjög litlu leyti í eigu ríkisins, þar á meðal Arion banki og Íslandsbanki — það er vitaskuld þannig að þessir bankar eru óbeint í eigu kröfuhafa gömlu bankanna og það er óðum að skýrast hverjir þeir kröfuhafar eru. Ég held því að svarið við spurningum þingmannsins muni liggja fyrir fyrr en síðar en ekki sé hægt að gera það fyrr en búið er að kortleggja nákvæmlega hverjir kröfuhafarnir eru.