138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan um matsfyrirtækin. Þau bera sína ábyrgð á þeirri einkunn sem þau gáfu íslensku bönkunum, sem reyndist allt of há, og reyndar einnig ýmsum öðrum einkunnum sem þau hafa gefið á undanförnum árum, sem reyndust sömuleiðis innstæðulitlar eða -lausar.

Ég get reyndar einnig tekið undir með þingmanninum um það að það runnu ekki 12.000 milljarðar til Íslands, ef það er rétta talan. Það var auðvitað talsvert lægri tala sem einhvern tíma kom við á Íslandi. Sumt af því sem kom við á Íslandi fór þaðan jafnharðan aftur eins og þingmaðurinn rakti. Það er eitt af því sem upp á okkur stendur núna að rekja þetta flæði allt saman og helst að reyna að endurheimta sem mest af því fé sem við höfum kröfu á. Það er búið að fela ýmislegt í skattaskjólum og víða annars staðar og það er hluti af uppgjörinu að reyna að endurheimta sem mest af því.