138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra kærlega fyrir hans ræðu. Það er ýmislegt sem ég er að velta fyrir mér í framhaldi af ræðu hans. Hann talar um sóknarfæri, að skýrslan skapi sóknarfæri til þess að gera þetta allt að einhverju leyti upp svo að svipaðir atburðir geti ekki gerst á ný.

Nú vill svo til að hæstv. viðskiptaráðherra var skipaður formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins þegar það tók til starfa 1. júlí 2005 og starfaði þar sem formaður stjórnar allt þar til hann tók við ráðherradómi. Fréttum ber ekki saman um það hvort hæstv. ráðherra gegnir því starfi enn, hvort hann er í leyfi eða hvort hann hafi sagt sig frá því alfarið — ég bið hann kannski um að svara því hér á eftir. En aðalspurningin til ráðherrans er þó þessi: Þar sem hann gegndi þessu starfi, sem var svo ótrúlega mikilvægt í aðdraganda að hruni bankanna, að vera formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins — þau mál sem send hafa verið til sérstaks saksóknara snúast meira og minna um það að samkeppnislög voru brotin, samþjöppun á eignarhaldi, krosseignatengsl og annað — varð hann þá ekki var við að eitthvað athugunarvert væri í spilunum í aðdraganda hrunsins? Samkeppniseftirlitið gengur út á það að styrkja eftirlit með samkeppnismörkuðum, leggja aukna áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir, forgangsröðun verkefna og eftirlit með þróun stjórnar- og eignatengsla á milli fyrirtækja.

Hæstv. viðskiptaráðherra hafði það hlutverk fyrir hrun að verða fyrstur til að lýsa því yfir að bankarnir væru fallnir og hann tók þátt í mótmælum úti á Austurvelli. Hvað breyttist hjá hæstv. ráðherra?