138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:30]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Við upphaf þessarar umræðu er mikilvægt að taka skýrt fram að hér er umræðan rétt að hefjast. Hún verður vonandi efnismikil og löng á hinu háa Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar að það muni taka mig og líklega fleiri bæði vikur og mánuði að skilja og melta sumt af því sem stendur í rannsóknarskýrslunni og það geti tekið mánuði og missiri að vinna hið brýna og óumflýjanlega umbótastarf sem löggjafarsamkoman á fyrir höndum.

Ég vil hins vegar við upphaf umræðunnar taka undir orð þeirra þingmanna sem hafa kallað eftir lengri umfjöllunartíma í þessum sal og ég hygg að hv. forsætisnefnd geti vel komið því þannig fyrir að setja megi upp umræður um tiltekin bindi eða tiltekna efnisþætti rannsóknarskýrslunnar með einhverjum hætti. Það mundi vera ákveðið nýnæmi. Ég held að það gæfi þingmönnum hins vegar kærkomið tækifæri til að kryfja efni skýrslunnar til mergjar.

Ég vil eins og aðrir þakka rannsóknarnefndinni og siðfræðingunum fyrir afar góða skýrslu, það sem ég hef séð af henni. Biðin var löng og hún var stundum erfið en hún var þess virði. Það kom í ljós í gær.

Við skulum hafa í huga að rannsóknarnefnd Alþingis er ekki sannleiksnefnd í þeim skilningi sem þær hafa verið settar upp í öðrum löndum, þ.e. að ef fólk veiti allar upplýsingar um ákveðið framferði eða ákveðnar athafnir, játi syndir sínar eins og einhver mundi segja, þá sé því veitt sakaruppgjöf. Það er ekki á ferðinni hér. Þess vegna höfðu bæði stjórnmála- og embættismenn andmælarétt eins og fram kemur í efni skýrslunnar. Nefndinni var hins vegar falið að rannsaka orsakir bankahrunsins eins og hér hefur margoft komið fram og úr því verður unnið. Ég þarf ekki að fara nánar út í það. Hv. þm. Atli Gíslason hefur gert það sem formaður nefndarinnar fyrr í þessari umræðu.

Að mínu mati er helsti annmarki skýrslunnar að ábyrgð hennar eða réttara sagt ábyrgðartíminn sem hægt er að miða við, pólitískur þá, nær ekki nógu langt aftur í tímann. Ákvarðanir og athafnir þeirra stjórnmálamanna sem stýrðu Íslandi fyrir árið 2006 eru ekki til skoðunar með sama hætti og ákvarðanir og athafnir þeirra sem þá tóku við. En þannig er það og við sættum okkur við þá niðurstöðu en það ber að hafa hana í huga við lestur skýrslunnar.

Rannsóknarskýrslan segir nefnilega sögu sem hófst fyrir aldarfjórðungi eða svo. Jafnaðarmaðurinn Gylfi Þ. Gíslason mun hafa sagt að markaðurinn væri góður þjónn en vondur húsbóndi. Hinn frjálsi markaður getur verið góður þjónn samfélagsins ef honum eru settar skýrar leikreglur og rammi að starfa innan. Hinn stóri áfellisdómur yfir stjórnmálastarfinu í þessu húsi er að hafa gert markaðinn að húsbónda, að upphafi og endi alls.

Í þessum sal voru teknar ákvarðanir um að leyfa bönkunum og öðrum fjármálafyrirtækjum að vaxa hömlulaust. Menn geta ekki kennt sendingum frá Brussel um þann vöxt. Það má hins vegar vel spyrja sig að því hvers vegna megnið af þessu regluverki, því sem kemur í gegnum EES, var innleitt hrátt ef þannig má segja án þess að stjórnvöld hefðu fyrir því að aðlaga það íslenskum aðstæðum eins og full heimild er til á hinu Evrópska efnahagssvæði. Nei, hömlulaus vöxtur íslenska bankakerfisins var ekki vondum útlenskum reglum að kenna. Skýrslan kveður skýrt upp um þann þátt málsins.

Frá upphafi tíunda áratugarins eða allt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda eftir stutt hlé vorið 1991 hefur hugmyndafræði frjálshyggjunnar, svokölluð „laissez-faire“-stefna verið ráðandi afl í íslensku samfélagi. „Laissez-faire“ þýðir beinlínis að leyfa fólki að gera eða athafna sig eins og það vill. Krafan um eftirlit og aðhald var ekki hátt skrifuð hjá stjórnvöldum oftast nær, það kemur skýrt fram í skýrslunni. Þeir sem leyfðu sér að gagnrýna, eins og t.d. núverandi forsætisráðherra, voru afskrifaðir sem leiðindakerlingar eða kverúlantar á vinstri kantinum — og er vel lýst í tilvitnun í fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Jónas Friðrik Jónsson, þar sem hann segir á einum stað í skýrslunni að menn hafi almennt álitið þetta vera bögg, eftirlitið væri bögg, frú forseti. Þetta er bein tilvitnun í skýrsluna. En hver ákvörðunin rak aðra sem markvisst miðaði að því að veikja ríkisvaldið og gera því ókleift að sinna eðlilegu og nauðsynlegu hlutverki sínu.

Þrír stjórnmálaflokkar störfuðu með Sjálfstæðisflokknum í 18 ára valdatíð hans frá 1991–2009. Fyrst var það Alþýðuflokkurinn gamli í fjögur ár, svo Framsóknarflokkurinn í þrjú kjörtímabil, sem eru 12 ár, og svo Samfylkingin í 20 mánuði. Með einum eða öðrum hætti umvöfðu flokkarnir í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Við þeirri pólitísku ábyrgð þurfum við jafnaðarmenn að gangast eins og aðrir.

Við þurfum líka að horfast í augu við það að við sungum söng, sum hver alla vega í Samfylkingunni, við sungum stóriðjusönginn að stærstum hluta þegar Kárahnjúkar voru settir á dagskrá. Við tókum þátt í skattalækkanafárinu fyrir kosningarnar 2003 en við vöruðum þó við 90% láni Framsóknar eins og kemur skýrt í ljós í skýrslunni að var mikið óráð.

Við létum það líka yfir okkur ganga í ráðuneyti Geirs Haardes í þessa 20 mánuði að starfa eftir gömlum og úreltum aðferðum í Stjórnarráði Íslands. Allt þetta verða þingmenn Samfylkingarinnar, forustufólk fyrr og síðar að horfast í augu við og af þessu þarf flokkurinn minn að draga sína lærdóma og hann mun gera það m.a. á flokksstjórnarfundi á laugardaginn kemur í Garðabæ.

Hin einfalda og auðskiljanlega orsök bankahrunsins er að kerfið var orðið níu sinnum stærra en íslenskt hagkerfi gat með góðu móti ráðið við, ábyrgst eða verið bakhjarl fyrir. En því var leyft að gerast. Menn skelltu skollaeyrum við viðvörunum. Menn gerðu lítið úr þeim á opinberum vettvangi og þegar allt var komið í óefni var ekki hægt að vinda ofan af þróuninni. Sagan sem greinir frá í rannsóknarskýrslunni er auðvitað saga hrikalegra mistaka. Það brást allt sem gat brugðist. Alþingi, ríkisstjórnir, eftirlitsstofnanir, lagaramminn, aðhald fjölmiðla, þetta eru um það bil allir helstu gerendur í íslensku samfélagi.

Hin endanlega ábyrgð er ríkisins, ríkisvaldsins. Það er ríkisvaldsins að gæta almannahagsmuna í þessu landi og það er ríkisvaldsins að koma því þannig fyrir að tryggingar séu í lagi og viðbúnaðaráætlanir séu til reiðu.

Frú forseti. Ég settist í ríkisstjórn vorið 2007 og fór með ráðuneyti umhverfismála í 20 mánuði. Að taka sæti við ríkisstjórnarborð er svona „learning by doing“-reynsla eins og forsætisráðherra benti mér á á sínum tíma. Það fyrsta sem ég lærði var að ríkisstjórn Íslands tekur ekki sameiginlegar ákvarðanir, hún er ekki fjölskipað stjórnvald eins og sveitarstjórnir. Það þýðir að ráðherrar kynna mál sín á fundum og þau fara í gegn nema neitunarvaldi sé beitt. Það eru ekki efnislegar umræður um öll mál sem koma inn á ríkisstjórnarborð og það eru ekki teknar sameiginlegar ákvarðanir um stjórnvaldsákvarðanir einstakra ráðherra. Þetta er grundvallaratriði, grundvallarfeill að mínu mati í íslenskri stjórnskipan og ein helsta lexía um Stjórnarráðið og stjórnskipan landsins sem læra þarf af skýrslunni og af hruninu. Hin pólitíska umsýsla ríkisstjórnar er í höndum oddvita stjórnarflokkanna, verkstjórn ríkisstjórnar er í höndum forsætisráðherra, fjármálaráðherra hefur alltaf síðasta orðið um útgjöld ríkisins.

Stjórnkerfi Íslands er gegnsýrt af föðurlegri forsjárhyggju, arfleifð gamalla tíma og stjórnarhátta þar sem leyndarhyggjan réð ferðinni og heppilegt þótti að alþýðan fengi skilaboð að ofan um hvað væri best fyrir hana. Bankahrunið haustið 2008 afhjúpaði tímaskekkjuna í þessu fyrirkomulagi og vanrækslusyndir undangenginna áratuga í Stjórnarráði Íslands. Stjórnkerfi sem sómdi sér ágætlega árið 1969 var afdankað og gagnslaust haustið 2008. Þar gátu menn ekki unnið saman, ekki unnið þvert á ráðuneyti. Þar höfðu menn ekki tileinkað sér nútímavinnubrögð, teymisvinnu og annað slíkt sem er alsiða annars staðar í samfélaginu og er í raun og veru grundvöllur stjórnfestu, formlegra og agaðra vinnubragða sem er grundvöllur þess að lýðræðið fái þrifist í einu landi og stjórnkerfið virki með lýðræðislegum hætti. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Viltu gera svo vel og setja mig aftur á mælendaskrá?