138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:47]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er afar ánægð með að heyra það að við hv. þingmaður erum sammála um það að ríkisstjórn Íslands eigi að vera fjölskipað vald. Ég held að það sé grundvallarmál og grundvallaratriði í úrvinnslu þessarar fínu rannsóknarskýrslu.

Já, ég leiddi ýmsar breytingar í umhverfisráðuneytinu, eins og vald mitt bauð mér, skipulagsbreytingar, vinnulagsbreytingar, ef það má segja það hér, og innleiddi teymisvinnu á mörgum sviðum. Margt af því sem þá var innleitt hafði reyndar skiljanlega verið í undirbúningi, en ég innleiddi líka margar breytingar í samskiptum við stofnanir, frjáls félagasamtök og annað slíkt, allt innan þeirra laga sem stakkurinn Stjórnarráð Íslands bauð mér. En þegar kom að því að innleiða breytingar á samstarfi á milli ráðuneyta þá var það þrautin þyngri, þá var ekkert nema þvergirðingur og fyrirstaða, því miður.