138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að bregðast við orðum hv. þingmanns hér áðan þar sem hún fullyrti að Samfylkingin hefði varað við 90% lánum Framsóknar, eins og hún orðaði það. Það vill þannig til að ég er hér með þrjár útprentaðar ræður fyrir framan mig frá þessum haustdögum 2004 þar sem m.a. núverandi formaður Samfylkingarinnar leggur til og talar um að það þurfi að hafa hærra hámark en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Síðan kemur fram í orðum núverandi formanns Samfylkingarinnar við atkvæðagreiðslu um þetta húsnæðisfrumvarp varðandi 90% lánin, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta frumvarp og fögnum yfirlýsingu hæstv. ráðherra áðan um að ráðherra ætlar með reglugerðarbreytingu að fara hærra með hámarksfjárhæð lána hjá Íbúðalánasjóði en upphaflega var áætlað.“

Samfylkingin samþykkti þetta. Það voru nokkrir þingmenn, ég man ekki hvort það var einhver samfylkingarþingmaður sem ekki var í þingsalnum þegar þetta var samþykkt, en Samfylkingin stóð að þessu og þingmenn Vinstri grænna einnig langflestir.

Ég er hér líka með ræðu hv. þm., núverandi hæstv. ráðherra, Katrínar Júlíusdóttur og þar segir hún um frumvarpið um 90% lánin, með leyfi forseta:

„Þess vegna fagna ég því frumvarpi sem hér er fram komið.“

Hún bætir líka við, sá ágæti ráðherra:

„Ég tel innkomu bankanna á þennan markað mjög góða.“

Hún hafði þá skoðun á bönkunum á húsnæðislánamarkaði. Hæstv. núverandi forsætisráðherra segir hins vegar, með leyfi forseta:

„...ef ekki verður gengið lengra í þessu efni, að hækka hámarksfjárhæðina, getur það gengið að Íbúðalánasjóði dauðum vegna þess að það er auðvitað það sem bankarnir vilja.“

Það var vitanlega það sem blasti við. Bankarnir vildu komast að og sitja einir að íbúðalánamarkaðnum. Við því var m.a. verið að bregðast og Samfylkingin studdi þetta. Ég veit ekki hvar hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var á þessum tíma. (Forseti hringir.) En núverandi flokksformaður hennar flutti þessa ræðu og lýsti því yfir að flokkurinn styddi þetta frumvarp. (Forseti hringir.)