138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að fá að nota þetta andsvar til að ítreka bón mína við upphaf ræðu minnar hér áðan um að þingmönnum gefist tækifæri til að kryfja efni skýrslunnar til mergjar og ræða efnisatriði í þessum sal þannig að við hv. þingmenn, Pétur H. Blöndal og ég, getum haldið áfram að ræða þessi mál um ójöfnuðinn, um stefnu Sjálfstæðisflokksins, um það sem gerðist, um orsakir bankahrunsins, um það sem skýrslan fjallar um og gert það öðruvísi en í tveggja mínútna andsvörum.

Ég vona að skýrslan verði til þess að við byggjum upp nýtt stjórnkerfi og gerum þær lagabætur sem þörf er á og skýrslan beinlínis krefst. Ég vona að hinu háa Alþingi og þeim þingmönnum sem kosnir voru til þings fyrir réttu ári síðan lánist að vinna þannig úr þessari rannsóknarskýrslu að við getum á endanum sagt að af þessu bankahruni og því kerfishruni sem hér varð (Forseti hringir.) hafi menn dregið réttan lærdóm.