138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:10]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að frelsið sé dýrmætt. Heima hjá mér eru þrjár reglur. Ein er að maður eigi alltaf að loka klósettinu, númer tvö er að maður á að læra áður en maður fer að leika sér og númer þrjú er gullna reglan: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta dugir ágætlega því að þessari gullnu reglu fylgir mikil ábyrgð.

Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns að hún talaði um að það hefðu orðið mistök í rekstri bankanna. Ég lít svo á og get ekki annað eftir það litla sem ég hef lesið í þessari skýrslu, að hér hafi verið um einbeittan brotavilja að ræða. Það er frelsi án ábyrgðar. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um það að taka höndum saman í viðskiptanefnd og gera allt sem við getum gert til að koma í veg fyrir að frelsið verði misnotað með þessum hætti framvegis.