138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um hrun fjármálakerfisins á Íslandi er í senn rothögg fyrir íslenska stjórnsýslu eins og við þekkjum hana og lykillinn að því að byggja upp að nýju traust á helstu stofnunum stjórnkerfisins. Rannsóknarnefndin fellir þungan dóm yfir íslenskum stjórnmálamönnum, en vísar jafnframt veginn til nauðsynlegra úrbóta. Rannsóknarnefndin dregur upp mynd af samfélagi þar sem í reynd var framið valdarán, þar sem kjörin stjórnvöld létu af hendi forustuhlutverk sitt í málefnum fjármálamarkaðarins og fórnuðu varðstöðu um almannahagsmuni á altari hugmyndafræði sem lofsyngur óheftan framgang markaðsaflanna. Fjármálakerfið fór sínu fram án afskipta stjórnvalda sem treystu gagnrýnislítið á upplýsingar úr fjármálakerfinu og létu hjá líða að tryggja að þjóðin væri varin fyrir áföllum í fjármálakerfinu. Rótin að stjórnlausu fjármálakerfi, sem leiddi til óhóflegs vaxtar- og áhættusækni bankanna, liggur í einkavæðingu bankanna í upphafi síðasta áratugar, sem byggði á pólitískum en ekki viðskiptalegum forsendum, en skýringanna á vanmætti stjórnsýslunnar til að hemja vöxt bankanna er að leita enn aftar í formgerð Stjórnarráðs sem við höfum búið við í áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði landinu í 53 ár af þeim 64 sem liðu frá stofnun lýðveldis til bankahruns og Framsóknarflokkurinn í 45 ár.

Stjórnarráð Íslands er í reynd kerfi sjálfstæðra smákónga sem ráða ferð hver í sínu ráðuneyti, en ríkisstjórnin stjórnar ekki sem samstæð heild samkvæmt stjórnskipan okkar. Það fyrirkomulag getur gengið í lygnum sjó en þegar verulega gaf á bátinn í aðdraganda bankahruns hefði í reynd þurft að taka upp vinnubrögð fjölskipaðs stjórnvalds með náinni samvinnu ráðherra og ráðuneyta þeirra, tryggu upplýsingaflæði þvert á ráðuneytin og samhæfingu aðgerða.

Í kjölfar bankahruns, því miður of seint, hafði Samfylkingin frumkvæði að breytingum í þessa veru og í núverandi ríkisstjórn hafa verið stigin markviss skref í þessa átt. En betur má ef duga skal og hin stóra formbreyting í átt til fjölskipaðs stjórnvalds er eftir. Hún kallar á breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og e.t.v. stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Rannsóknarskýrslan dregur upp skýra mynd af afleiðingum einkavæðingar bankanna. Niðurstaðan var óheft bankakerfi í samræmi við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og viðleitni til að afnema opinberar reglur í atvinnulífinu, sem sótti m.a. innblástur í stjórnarstefnu Thatcher-stjórnarinnar í Bretlandi og Reagan-stjórnarinnar í Bandaríkjunum. Með þessari stefnumótun létu stjórnvöld hjá líða að verja hagsmuni almennings, t.d. með aðgerðum til að hefta vöxt bankanna, aukinni skyldu á herðar bankanna að binda fé í Seðlabanka Íslands, eða öðrum þeim aðgerðum sem hefðu dregið úr áhættu gagnvart þjóðinni af hugsanlegum skakkaföllum.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur báru ábyrgð á einkavæðingu bankanna og rannsóknarskýrslan dregur skýrt fram hvernig faglegum reglum, þar með talið um dreift eignarhald, þekkingu og reynslu bankastjórnenda og fleira, var kerfisbundið ýtt til hliðar á elleftu stundu í einkavæðingarferlinu að því er virðist til að opna dyrnar fyrir tilteknum fjárfestum sem voru stjórnvöldum þóknanlegir. Því til viðbótar var röð alvarlegra hagstjórnarmistaka ríkisstjórnarinnar á þessum tíma sem kynti undir ofþenslu í hagkerfinu, þar sem mestu munaði um ábyrgðarlausa íbúðalánastefnu og ótímabærar skattalækkanir.

Eftir 12 ára samfellda stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kom svo Samfylkingin að stjórn landsins í eitt ár og fjóra mánuði fram að bankahruni og við berum sannarlega okkar ábyrgð á því sem þá gerðist og ekki síður því sem ekki var gert í aðdraganda bankahruns. Ábyrgð okkar í Samfylkingunni liggur m.a. í því að hafa treyst um of á upplýsingar sem fyrir lágu um stöðu og lífvænleika bankakerfisins, að vanmeta umfang vandans og hve nærri hengifluginu fjármálakerfið var í raun komið vorið 2007 og láta þar með hjá líðast að móta og grípa til þeirra róttæku viðbragðsáætlana sem hefðu dregið úr skaðanum fyrir þjóðina af yfirvofandi bankakreppu.

Það er niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að síðasta tækifærið til að koma í veg fyrir fall bankanna hafi gefist árið 2006, en ríkisstjórnin sem mynduð var vorið 2007 með aðild Samfylkingarinnar, hefði þurft að grípa hratt til aðgerða til að draga úr afleiðingunum af yfirvofandi bankakreppu fyrir fólkið í landinu. Það var ekki gert. Í fyrsta lagi vegna skorts á yfirsýn um alvarlega stöðu fjármálakerfisins, í öðru lagi vegna meðvirkni gagnvart brothættri ímynd fjármálakerfisins og í þriðja lagi vegna þeirrar hugmyndafræði afskiptaleysis gagnvart markaðnum sem mótaði pólitíska sýn samstarfsflokksins í ríkisstjórn.

Rannsóknarnefndin dregur upp kolsvarta mynd af sjálftöku eigenda bankanna, sem í reynd má segja að hafi hreinsað bankana af fjármagni í eigin þágu og þar með kippt fótunum undan rekstrargrundvelli þeirra til framtíðar. Það segir hrikalega sögu að við fall bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, námu lán bankanna til fimm stærstu eigenda sinna og tengdra félaga samtals 650 milljörðum króna. Þessi gríðarlega háa fjárhæð þurrkaði upp allt raunverulegt eigið fé bankanna þriggja samanlagt á þessum tíma, þ.e. eigið fé hluthafa samkvæmt ársreikningum að frádregnum óefnislegum eignum. Þessu til viðbótar fengu eigendur bankanna verulegt fjármagn í gegnum dótturfélög bankanna sem ráku peningamarkaðssjóði.

Ljóst er að þessar lánveitingar bankanna til eigenda sinna fóru fram í trássi við lánareglur bankanna sjálfra og iðulega fram hjá lánanefndum þeirra. Það er því í hæsta máta eðlilegt, og reyndar ein af markverðustu tillögum rannsóknarnefndarinnar, að sérstakur saksóknari rannsaki sérstaklega þátt stjórna og framkvæmdastjórna allra fjármálastofnana í aðdraganda bankahruns með tilliti til þess hvort um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða. Ljóst er að þetta kallar á gríðarlega rannsóknarvinnu, en hún er lífsnauðsynleg ef við eigum að endurvekja traust í okkar samfélagi. Einn fyrsti lærdómurinn sem við hljótum að draga af skýrslunni er að styrkja þurfi verulega starfsemi sérstaks saksóknara svo að hægt verði af fumleysi og krafti að ganga hratt til þeirra verka sem rannsóknarnefndin vísar til embættisins.

Virðulegi forseti. Ég nefndi í upphafi máls míns að rannsóknarskýrslan væri áfellisdómur yfir íslensku stjórnmálalífi og það er ein átakanlegasta niðurstaða hennar að stjórnvöld höfðu í reynd enga yfirsýn yfir hina siðlausu svikamyllu sem viðgekkst í fjármálakerfinu á Íslandi, sumpart af því að þau trúðu í blindni á gildi hins óhefta athafnafrelsis á markaði og sumpart vegna þess að eigendur og stjórnendur bankanna leyndu markvisst upplýsingum um raunverulega stöðu þeirra í því skyni að viðhalda falskri ímynd um að þeir stæðu traustum fótum.

Mistök stjórnvalda voru að trúa gagnrýnislaust þeirri helgimynd sem þar var dregin upp. Þegar horft er í baksýnisspegilinn birtist okkur þörfin fyrir óháða greiningu á raunverulegri stöðu bankanna og faglegu mati á þeirri áhættu sem samfélaginu væri sköpuð af háskalegri framgöngu stjórnenda þeirra.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er mikið áfall fyrir stjórnkerfið en hún er líka tímabært og nauðsynlegt innlegg í endurreisn samfélagsins því að hún sýnir okkur veruleikann eins og hann var, dregur fram þau mistök sem gerð voru og vísar veg til umbóta sem verður að gera á stjórnsýslunni í landinu, á innviðum og regluverki fjármálakerfisins, á starfsháttum Alþingis, á fjölmiðlaumfjöllun og samfélagsumræðunni. Skýrslan, vönduð og óvægin sem hún er, verður að leiða til raunverulegra úrbóta og hreinsunar. Við verðum að nota hana til að draga lærdóma, hverfa frá villu okkar vegar og sverjast í fóstbræðralag þvert á flokka um að þær sjónhverfingar sem leiddu til þagnarbandalags og meðvirkni um að líta fram hjá banvænum meinsemdum íslenska fjármálakerfisins megi aldrei endurtaka sig.

Við höfum nú gullið tækifæri til að læra af reynslunni, skapa forsendur fyrir nýju fjármálakerfi sem byggir á viðskiptasiðferði, samfélagslegri ábyrgð og traustu regluverki. Það er hlutverk Alþingis að tryggja að þessi lærdómur verði raunverulegt leiðarljós í þeirri löggjöf sem nú liggur fyrir þinginu um fjármálafyrirtæki. Þar eru mikilvægar úrbætur á ferðinni, t.d. skýrt bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum, þröngar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna, auknar eftirlitsheimildir til Fjármálaeftirlits, skerpt er á ákvæðum um heilbrigða viðskiptahætti o.s.frv.

Ég vil þó brýna það fyrir viðskiptanefnd og þingheimi öllum að fara vandlega í gegnum þær ábendingar sem fram koma í rannsóknarskýrslunni og lúta að regluverki fjármálamarkaðarins með það fyrir augum að styrkja enn frekar regluverkið fyrir lokaafgreiðslu þess frumvarps. Það hefur t.d. valdið mér áhyggjum hve bankarnir hafa reynst úrræðalausir í þeim efnum að taka mið af siðferðislegum viðmiðum við mótun verklagsreglna um skuldameðferð fyrirtækja. Viðbrögð Alþingis við því úrræðaleysi mega ekki vera þau að gefast upp fyrir vandamálinu af því það er flókið. Það er einmitt af því það er flókið sem það verðskuldar tíma okkar og fyrirhöfn. Stjórnmálamenn eru kosnir á þing til að takast á við erfið og margslungin verkefni. Við eigum að leita þeirra lausna sem best tryggja hag almennings. Við megum ekki unna okkur hvíldar fyrr en við höfum upprætt þær meinsemdir sem komu fjármálakerfinu á vonarvöl.

Nýtum nú þann sáttavilja sem er meðal þingmanna í öllum flokkum til að læra af þeirri bitru reynslu sem rannsóknarskýrslan birtir okkur. Sameinumst um að skapa hér nýtt fjármálakerfi, nýtt stjórnkerfi sem byggist á réttlæti, fagmennsku og gegnsæi. Í því liggur helsta von stjórnmálalífsins í landinu um að endurvekja traust almennings.