138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:39]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir mjög áhugaverða ábendingu og fyrirspurn. Í máli mínu fjallaði ég um hinar almennu efnahagslegu ráðstafanir stjórnvalda á þessum tíma. Ég tel að það sé ekki neinum blöðum um það að fletta að sem hagstjórnartæki voru aðgerðir stjórnvalda á þessum tíma klárlega skattalækkun í þeim skilningi að þær verkuðu hvetjandi á hagkerfið, sem þurfti einmitt fremur að letja en hvetja. Þarna var mikil ofþensla í hagkerfinu og stjórnvöld hefðu átt að nýta þennan tíma til þess að kæla hagkerfið frekar en að kynda undir frekari vöxt, bæði með þessum skattalækkunum, sem vissulega skiluðu sér í auknum tekjum inn í ríkissjóð af því að það voru svo mikil umsvif í hagkerfinu og peningar uxu á trjánum ef svo má segja, en einnig með þeirri íbúðalánastefnu sem rannsóknarnefndin kallar einhver alvarlegustu hagstjórnarmistök síðari ára.