138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að hækka laun einstakra starfsmanna hjá Fjármálaeftirlitinu mun auðvitað ekki auka tekjuójöfnuðinn, til þess er stofnunin allt of lítil. Hvað varðar spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals um vilja minn til að leyfa launum starfsmanna Fjármálaeftirlitsins að vera hærri en laun forsætisráðherra tel ég að fyrst og fremst eigi að miða laun starfsmanna Fjármálaeftirlitsins við hæstu laun í fjármálageiranum og ef verið er að borga þar hærri laun en þau laun sem forsætisráðherra hefur finnst mér að við ættum að endurskoða þá stefnu að leyfa ekki hærri laun en laun hans.

Faglegt mat á fólki sem ráðið er til ábyrgðarstarfa tel ég vera mjög mikilvæga aðgerð. Ég hef reynslu af því hér á landi, ekki síst úr háskólageiranum, að ekki er verið að ráða í samræmi við hæfnismat jafnvel þó að til grundvallar liggi mat sem nefnd hefur verið falið að gera á viðkomandi einstaklingi, heldur er einstaklingur ráðinn vegna þess að hann kom úr fjármálageiranum eða tengdist einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokki eða kann jafnvel að spila handbolta.