138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:10]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Dramb er falli næst, segir íslenskt máltæki, og við þekkjum þá speki í ýmsum myndum. Við þekkjum söguna af Íkarusi sem flaug á vaxvængjum sínum of nálægt sólinni.

Saga íslenska fjármálakerfisins eftir einkavæðingu bankanna (Gripið fram í.) er saga Íkarusar. Ekkert vanþóknunarorð er í raun of sterkt til að lýsa þeim ósköpum sem rannsóknarskýrsla Alþingis afhjúpar. Hún er löðrungur í andlit okkar. Hún er löðrungur á siðferðilegan mælikvarða, á lýðræðislegan og menningarlegan mælikvarða. Hún er dæmisaga um höfuðsyndirnar sjö, hroka, öfund, ofsa, leti, ágirnd, óhóf og fýsnir og allt birtist þetta okkur við lestur skýrslunnar sem er lifandi sönnun um þau víti sem varast ber samkvæmt gildismati okkar þúsund ára gömlu siðfræði.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er vel unnin, efnistökin föst og ákveðin sem er þakkarvert eftir alla þá meðvirkni og ákvarðanafælni sem gegnsýrt hefur opinbera stjórnsýslu og umræðu undanfarinn áratug. En alvarlegustu tíðindi þessarar skýrslu eru að mínu mati sú afhjúpun sem þar birtist okkur, miskunnarlaus afhjúpun á öllum helstu lykilstofnunum samfélagsins og vanhæfni þeirra til að sinna sínu lögbundna og siðferðilega hlutverki. Hún sýnir okkur ekki aðeins græðgina og grimmdina í fjármálakerfinu sem óx eins og krabbamein á íslensku hagkerfi og át sig að lokum sjálft innan frá. Hún afhjúpar hugsanaleti stjórnsýslunnar, ekki síst stjórnmálamannanna sem þjóðin kaus til ábyrgðar og treysti fyrir fjöreggi sínu. Þetta er afhjúpun aldarinnar, sársaukafull og niðurlægjandi fyrir samfélagið allt. Forstöðumenn eftirlitsstofnana, þingmenn, ráðherrar, jafnvel forseti lýðveldisins afhjúpast hér sem gagnrýnislausir meðreiðarsveinar auðvaldsins, fólk sem virtist líta á sig sem einhvers konar verndara eða kynningarfulltrúa íslensku bankanna en ekki skilja sitt eigið varðstöðuhlutverk gagnvart almannahagsmunum. En sök og ábyrgð fara ekki alltaf saman því að þótt einn beri sök geta fleiri borið ábyrgð.

Sökin á því hvernig fór liggur að sjálfsögðu, eins og bent hefur verið á, hjá gerendunum, hjá bönkunum sjálfum. En ábyrgðin á því að það sem gat gerst skyldi gerast, að nánast allt sem gat farið úrskeiðis skyldi fara úrskeiðis, liggur í stjórnkerfinu sjálfu, ekki síst í stjórnmálunum. Annars vegar í siðferðisskorti en fyrst og fremst þó í þeirri háskalegu hugmyndafræði skefjalausrar frjálshyggju sem reið röftum í samfélagi okkar. Hvernig gat þetta gerst? Á því eru auðvitað margþættar skýringar. Ein lýtur að þeirri afleitu umræðuhefð upphrópana og yfirboða sem hefur fengið að þróast á Íslandi um langt árabil. Þar bera fjölmiðlar ríka ábyrgð. Um allan heim er það viðurkennt hlutverk fjölmiðla að greina og upplýsa samfélag sitt og veita þannig ráðandi öflum aðhald.

Fjölmiðlar eru oft nefndir fjórða valdið vegna þess mikilvæga hlutverks sem þeir hafa í lýðræðislegri og opinni umræðu en íslenskir fjölmiðlar brugðust hrapallega. Með gagnrýnisleysi, þjónkun við fjármagnið og meðvirkni brugðust þeir margir upplýsingahlutverki sínu og sköðuðu þar með upplýsta, opna og lýðræðislega umræðu. Sömu sök bera einnig margir kjörnir fulltrúar sem hafa verið of uppteknir af ímynd og áferð og gengið erinda sérhagsmuna í stað heildarhagsmuna. Hugtökunum aga og ábyrgð hefur verið varpað út í ystu myrkur, afskiptaleysi hefur verið túlkað sem frelsi, eins og réttilega er bent á í skýrslunni, og reglufesta túlkuð sem haftastefna. Jafnvel fræðasamfélagið brást að hluta. Í stað þess að vera drifkraftur frumlegrar hugsunar hafa íslenskar rannsóknir og fræðastarf í vaxandi mæli orðið þjónar fjármagnsins þar sem vísindastarf hefur orðið æ háðara viðskiptalífinu. Vinsældasókn og vanræksla eru kannski einkunnarorð vorra daga.

Frú forseti. Hvaða lærdóma getum við nú dregið af þessari skýrslu og hvernig eigum við að bregðast við henni? Ég veitti því athygli þegar ég hlustaði á formenn stjórnmálaflokkanna í þinginu í gær að þeim er brugðið öllum sem einum. Ég hlustaði af athygli á ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur augljóslega frammi fyrir hruni sinnar eigin stefnu og óhjákvæmilegu endurmati. Ég ætla ekki að standa hér og kaghýða neinn fyrir að hafa farið villur vegar enda steig Samfylkingin dansinn um tíma með Sjálfstæðisflokknum og verður að gangast við því sem hún gerir. Ég vil frekar nota þetta tækifæri og hvetja menn til að endurmeta hugmyndafræði sína og áherslur.

Hér á Íslandi varð skelfilegt hugmyndafræðilegt slys. Hér voru gerð svo alvarleg mistök, m.a. í hagstjórninni, að menn hljóta að láta sér það að kenningu verða og sú óábyrga hagstjórn sem hér var iðkuð með þensluhvetjandi aðgerðum á góðæristíma, pólitískum yfirboðum, stórframkvæmdum, skattalækkunum, gegndarlausri lánafyrirgreiðslu, allt var þetta afsprengi þeirrar skefjalausu og vanhugsuðu frjálshyggju sem reið yfir samfélagið eins og brotsjór. Ábyrgðarleysið og sérgæskan var svo alger af hálfu þeirra stjórnmálamanna sem í umboði almennings var treyst fyrir samfélaginu með pólitískum stöðuveitingum, klíkustjórnmálum, skorti á fagmennsku, agaleysi og óljósum valdmörkum að það kemur okkur nú í koll.

Fylgismenn og boðberar þessarar hugmyndafræði hljóta að endurmeta hana. Það er óhjákvæmilegt og það verða fleiri að gera. Það verða líka íslenskir jafnaðarmenn að gera. Þó að Samfylkingin hafi um langt árabil varað við því hvert stefndi og flutt bæði lagafrumvörp og þingsályktunartillögur til að bæta stjórnsýslu og verklag, þó að núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið ötul við að leiða þingheimi og stjórnvöldum fyrir sjónir hvert stefndi, varað við ört vaxandi skuldasöfnun og þenslueinkennum, eins og lesa má af ræðum sem hún og fleiri hafa flutt, þó að Samfylkingin hafi sem flokkur gert margt og málefnalegt í sömu veru var það ekki nóg. Röddin var ekki nógu sterk og verkin ekki nógu markviss.

Ef sverð þitt er stutt stígðu þá feti framar, segir á góðum stað. Íslenskt samfélag stendur nú í þeim sporum, að takast á við framtíðina, líta í eigin barm, sýna ábyrgð og hugrekki til að ganga í þær breytingar sem gera þarf. Og hvaða breytingar eru það? Róttæk uppstokkun á íslensku stjórnkerfi, aukin reglufesta, skýrari valdmörk og verkaskipting, virðing í verki við lög og reglur, uppgjör við ónýta og mannfjandsamlega hugmyndafræði sem hér reið húsum um árabil, endurmat allra gilda og aðferða í íslenskum stjórnmálum. Nú er tími fyrir alla þá sem vilja þjóð sinni vel hvar í flokki sem þeir standa að stíga fram og gera það sem gera þarf til að breyta íslensku samfélagi, brjóta burtu fúnar stoðir frjálshyggjuöfganna, reisa nýjar og byggja á þeim það réttláta þjóðfélag sem okkur hlýtur þó öll að dreyma um. Fyrsta skrefið til betri vinnubragða getum við stigið, við sem störfum á hinu háa Alþingi. Við getum byrjað á að breyta okkar eigin vinnubrögðum og umræðuhefðinni sem hér hefur skapast, breyta viðhorfum okkar hvert til annars. Hafi einhvern tíma verið tímabært að draga línuna í sandinn og byrja að nýju er það núna.

Frú forseti. Ég vona að sá sáttatónn sem greina mátti í máli nokkurra alþingismanna í umræðunni í dag slái tóninn fyrir nýja umræðuhefð á þessum vettvangi. Ég vona að okkur kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga megi héðan í frá auðnast að ganga betur í takt til þeirra verka sem vinna þarf til að bjarga þjóðinni úr þeim efnahagsþrengingum sem hún er í núna. Verkefnið er stórt, sagan sýnir okkur að sverðið er stutt og því verðum við öll, hvar í flokki sem við stöndum, að stíga feti framar.