138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal með mikilli gleði senda hv. þm. Pétri Blöndal útskrift af nokkrum ræðum sem hæstv. núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi hv. óbreyttur þingmaður, flutti í þinginu, m.a. mjög minnisstæða ræðu sem hún flutti árið 2004. Ég er því miður ekki með hana í plöggum mínum en ég skal senda hv. þingmanni þessa ræðu þar sem hún varar mjög við skuldasöfnun í íslensku samfélagi og þeim þensluákvörðunum sem verið var að taka í hagstjórninni.

Hitt er rétt sem þingmaðurinn bendir á, og það var gott að hann vakti athygli á því, að hæstv. forsætisráðherra hefur verið í fararbroddi í hópi þingmanna til að benda á misskiptingu í samfélaginu og hefur oft, m.a. sem félagsmálaráðherra og óbreyttur þingmaður, lagt til aðra forgangsröðun við úthlutun og ráðstöfun ríkisfjármuna þar sem hún hefur verið sérstakur málsvari þeirra sem minna hafa mátt sín í þessu samfélagi. Sú forgangsröðun er þó náttúrlega annað mál.