138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég man hins vegar eftir mjög mörgum ræðum hæstv. forsætisráðherra þar sem hún lagði til og krafðist aukinna útgjalda. Meira að segja man ég eftir ræðum þar sem hún hafnaði skattahækkunum. Þetta samanlagt, aukin útgjöld og minni tekjur, þýðir náttúrlega aukna skuldasöfnun þannig að mér finnst þetta ekki alveg fara saman. Mér finnst dálítið slæmt þegar hv. þingmenn ætla að nota þessa skýrslu til að endurskrifa söguna. Skýrslan upplýsir einmitt um söguna og mér finnst að menn eigi að horfa á söguna eins og hún er, eins og hún var, en reyna ekki að breyta henni með skýringum eins og fyrsta ræðan í dag gekk út á.

Ég vildi gjarnan að menn lærðu af þessari skýrslu. Það er mjög margt í henni sem hægt er að læra af og það er afskaplega margt sem hv. Alþingi Íslendinga þarf að breyta. Alþingi Íslendinga ber nefnilega líka sína sök á því hvernig fór.